Rannsóknaverkefni úr HÍ tilnefnt til Nýsköpunarverðlauna ESB
Evrópska rannsóknarverkefnið Sound of Vision, sem vísindamenn við Háskóla Íslands hafa haft forystu um og hefur það að markmiði að auðvelda blindum og sjónskertum að skynja umhverfi sitt, hefur verið tilnefnt til Nýsköpunarverðlauna Evrópusambandsins. Almenningi gefst kostur á að taka þátt í vali á besta verkefninu í kosningu á netinu til 12. nóvember.
Sound of Vision verkefnið hefur staðið yfir undanfarin þrjú ár en það hlaut alls fjögurra milljóna evra styrk úr rannsóknaráætlun Evrópusambandsins, Horizon 2020, árið 2015. Verkefnisstjóri þess er Rúnar Unnþórsson, prófessor við Iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideild, en auk hans komu Árni Kristjánsson, prófessor við Sálfræðideild, og hópur nýdoktora, doktorsnema og rannsóknarmanna innan skólans að verkefninu ásamt Blindrafélagi Íslands og verkfræðingum frá háskólum og stofnunum í fjórum öðrum Evrópulöndum, Rúmeníu (University Politehnica of Bucharest), Ítalíu, Póllandi og Ungverjalandi.
Hópurinn hefur þróað hátæknibúnað sem ætlað er að hjálpa þeim sem ekki hafa skynfæri á borð við sjón að skynja umhverfi sitt. Meðal búnaðarins sem þróaður hefur verið er skynbelti sem sett er utan um mitti notandans þar sem það nemur upplýsingar úr umhverfinu og miðlar þeim til notanda fyrir tilstilli lítilla mótora sem titra, hver með sínu lagi ef svo má segja. Beltið nýtist einnig þeim sem einhverra hluta vegna geta ekki notað hefðbundin skynfæri tímabundið. Það getur átt við starfsfólk í ýmsum aðstæðum, eins og við reykköfun eða öryggisgæslu í hávaða. Þess má geta að aðstandendur Sound of Vision hlutu önnur verðlaun fyrir skynbeltið í samkeppni um Hagnýtingarverðlaun Háskóla Íslands á síðasta ári:
Þróun búnaðarins hefur verið unnin í góðu samstarfi við blint og sjónskert fólk hér á landi og stefnt er að því stofna sprotafyrirtæki í kringum hugmyndina á næsta ári með það fyrir augum að koma búnaðinum í almenna notkun. Hægt er að sjá hvernig búnaðurinn virkar á myndbandi sem rannsóknarhópurinn hefur unnið.
Samkvæmt tölum Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar glíma hátt í 300 milljónir manna við sjónskerðingu af einhverju tagi og þar af teljast um 40 milljónir blindar. Því er ljóst að Sound of Vision sem þetta getur bætt lífsskilyrði afar stórs hóps, en skortur hefur verið á tæknilausnum sem stuðlað geta að aukinni þátttöku blindra og sjónskertra í samfélaginu.
Taktu þátt í kosningu á besta nýsköpunarverkefninu
Sound of Vision hefur nú verið tilnefnt til Nýsköpunarverðlauna framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, Innovation Radar Prize 2018, en þau eru veitt hágæða nýsköpunarverkefnum sem notið hafa stuðnings í gegnum Horizon 2020 rannsóknaráætlunina. Mörg þúsund verkefni voru rýnd fyrir keppnina en á endanum valdi dómnefnd 50 verkefni í fimm flokkum sem keppa til úrslita. Sound of Vision er eitt tíu verkefna sem valin voru í flokknum „Tækni fyrir samfélag“ en eins og nafnið gefur til kynna er þar að finna verkefni sem hafa mjög jákvæð áhrif á samfélög og líf fólks.
Almenningur ræður valinu á bestu verkefnunum í hverjum flokki í gegnum netkosningu sem stendur til 12. nóvember nk. Kosning fer fram á heimasíðu framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.
Á grundvelli niðurstaðna þessarar kosningar verða fjögur verkefni úr hverjum flokki, samtals 20 verkefni, valin og gefst aðstandendum þeirra tækifæri til að kynna þau fyrir dómnefnd skipaðri sérfræðingum í Vín í Austurríki í desember. Í framhaldinu verða svo krýndir sigurvegarar í hverjum flokki fyrir sig og jafnframt einn sigurvegari (Grand Prix) í heildarkeppninni.
„Tilnefningin er afar ánægjuleg og mun liðka fyrir allri frekari vinnu við verkefnið. Það verður auðveldara að ná til mögulegra fjárfesta með það fyrir augum að koma lausninni á markað og fá stuðning frá fyrirtækjum. Fyrir Háskóla Íslands þá er þetta mikill heiður og viðurkenning á niðurstöðu þriggja ára vinnu og mun auka hróður hans. Verðlaunin munu einnig hjálpa okkur við styrkumsóknir fyrir áframhaldandi rannsóknar- og vöruþróunarverkefni,“ segir Rúnar Unnþórsson, verkefnisstjóri Sound of Vision og prófessor við Iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideild Háskóla Íslands.
Nánar um Sound of Vision
Myndir af búnaðinum sem þróaður hefur verið
Heimasíða Sound of Vision
Sound of Vision á Facebook
Sound of Vision á Twitter
Sound of Vision á YouTube