Rannsóknasetur um smáríki hlýtur styrk
Rannsóknasetur um smáríki við Háskóla Íslands hlaut nýverið styrk úr menntaáætlun Evrópusambandsins, Erasmus+. Um er að ræða tveggja ára stefnumiðað samstarfsverkefni á háskólastigi.
Háskóli Íslands leiðir verkefnið en níu aðrir háskólar taka þátt í því: Kaupmannahafnarháskóli, Háskólinn í St. Andrews í Skotlandi, Háskólinn í Vilnius, Háskólinn í Tallinn, Háskólinn á Möltu, Queen Mary háskóli í London, Háskólinn í Ljubljana, Háskólinn í Lundi og Comenius háskóli í Bratislava. Rannsóknasetur um smáríki heyrir undir Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands.
Pia Hansson forstöðumaður Rannsóknaseturs um smáríki, Tómas Joensen, verkefnisstjóri hjá Rannsóknasetri um smáríki, og Baldur Þórhallsson, prófessor við Stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands, þróuðu verkefnið og vinna að því fyrir hönd Háskóla Íslands í samvinnu við fræðimenn í háskólunum níu.
Á næstu tveimur árum munu skólarnir tíu vinna að því að þróa nánara samstarf á sviði smáríkjafræða ásamt því að halda sumarskóla, ráðstefnur og þróa námskeið á háskólastigi í smáríkjafræðum.
Erasmus+ styrkurinn er mikil viðurkenning á starfi smáríkjasetursins sem hefur sérhæft sig í stöðu smáríkja í Evrópu. Árið 2013 hlaut setrið öndvegissetursstyrk frá menntaáætlun Evrópusambandsins og hefur síðan þá starfað sem Jean Monnet Centre of Excellence. Einnig hlaut setrið styrk úr Erasmus+ menntaáætlun Evrópusambandsins árið 2014 fyrir verkefni sem lauk nú í ágúst á þessu ári.
Rannsóknasetur um smáríki hefur starfrækt sumarskóla í smáríkjafræðum frá árinu 2003 og hlaut nýverið gæðaviðurkenningu Erasmus+ fyrir verkefnið.