Hjartaáföllum fjölgaði hjá körlum á skattlausa árinu
Líkur á hjartaáfalli hjá karlmönnum á aldrinum 45-54 ára jukust meira en hjá karlmönnum á aldrinum 55-64 á skattlausa árinu 1987 á Íslandi. Þetta sýnir ný rannsókn fræðimanna við Háskóla Íslands sem birtist nýverið í Journal of Health Economics, virtasta vísindatímariti heims á sviði heilsuhagfræði.
Höfundar vísindagreinarinnar eru Þórhildur Ólafsdóttir, doktorsnemi við Hagfræðideild, Tinna Laufey Ásgeirsdóttir, prófessor við Hagfræðideild, Birgir Hrafnkelsson, prófessor við Raunvísindadeild, og Guðmundur Þorgeirsson, prófessor við Læknadeild. Rannsóknin er hluti af doktorsrannsókn Þórhildar í heilsuhagfræði sem ber heitið „Áhrif skyndilegra breytinga í hagkerfi á heilsu og heilsutengda hegðun“.
Markmið rannsóknarinnar sem sagt er frá í Journal of Health Economics var að kanna hvort aðstæður í efnahagslífi hefðu áhrif á líkur á hjartaáföllum og hvort skýringa væri að leita í tímabundinni aukningu á vinnuframboði. Fyrri rannsóknarniðurstöður, frá Bandaríkjunum og Evrópu, hafa verið misvísandi varðandi tengsl hagsveiflna og hjartaheilsu en rökin hníga þó að því að heildardánartíðni og dánartíðni af völdum hjarta- og æðasjúkdóma aukist í uppsveiflum. Minna hefur þó verið rannsakað hvað veldur því.
Í rannsókn fræðimannanna við Háskóla Íslands var sjónum sérstaklega beint að hinni náttúrulegu „tilraun“ sem átti sér stað hér á landi árið 1987 þegar skattkerfið tók breytingum og horfið var frá eftirágreiddum skatti yfir í staðgreiðsluskattkerfi. Vegna kerfisbreytingarinnar var tekjuskattur afnuminn af tekjum ársins 1987. Vinnuframboð jókst á skattlausa árinu en þar sem eftirspurn eftir vinnuafli var mikil á þessum tíma var næga vinnu að fá fyrir þá sem vildu vinna mikið. Því var kannað var hvort þessi tímabundna aukning á vinnuframboði hefði áhrif á tíðni hjartaáfalla.
Í rannsókninni báru fræðimennirnir saman skattskrár og skrá yfir hjartaáföll á Íslandi hjá fólki á aldrinum 45-74 ára yfir tímabilið 1982-1992. Í ljós kom að 24% aukning frá meðaltalslíkum á hjartaáföllum yfir rannsóknartímabilið varð árið 1987 hjá körlum 45-64 ára og 15,6% aukning árið 1988. Niðurstöður gefa til kynna að skýringa á auknum líkum á hjartaáföllum meðal karla á skattlausa árinu og ári síðar sé að leita í skammtíma aukningu vinnuframboðs meðal þeirra sem voru sjálfstætt starfandi. Þeir sem voru sjálfstætt starfandi juku meira við sig í vinnu en aðrir og sú staða á vinnumarkaði virðist skýra þá aukningu hjartaáfalla sem varð hjá körlum á skattlausa árinu.
Niðurstöðurnar sýndu einnig að líkur á hjartaáföllum jukust meira hjá karlmönnum á aldrinum 45-54 ára á skattlausa árinu en hjá karlmönnum á aldrinum 55-64 ára. Möguleg skýring á þessu er að yngri mennirnir reyndust auka meira við sig í vinnu en eldri karlarnir sem virðist jafnframt vega upp á móti aldurstengdri áhættu hjartaáfalla. Það að vera við góða heilsu – og geta með góðu móti fórnað frítíma fyrir vinnutíma í afmarkaðan tíma – er hins vegar óháð því hvort einstaklingurinn er með ógreindan kransæðasjúkdóm. Þetta vekur því spurnignar um það hvort þeir sem yngri voru hafi síður vitað hvort þeir tilheyrðu áhættuhópi þegar kemur að hjartaáföllum. Ef til vill hafa þeir í minna mæli leitað læknis eða sinnt heilsueftirliti en þeir sem tilheyra eldri aldurshópnum.
Karlar á aldrinum 45-64 ára, sem auka vinnu sína til skamms tíma og draga þannig mögulega úr heilsuverndandi hegðun eins og svefni, nægri slökun og hollu mataræði og auka ef til vill áhættuhegðun eins og reykingar og áfengisdrykkju, útsetja sig fyrir aukinni hættu á hjartaáfalli. Sams konar tengsl fundust ekki hjá konum.
Niðurstöður rannsókna sem þessara geta nýst til stefnumótunar í samfélagi og atvinnulífi. Ef skortur á frítíma til að sinna heilsu er áhrifaþáttur í sambandi hagsveiflna og hjartaáfalla er það ábending til vinnuveitenda að bjóða upp á sveigjanleika í vinnutíma og frítöku. Það gæti spornað gegn því að skammtíma aukning vinnuframboðs skaði hjartaheilsu miðaldra karla. Einnig þarf að huga að því að draga úr hvötum til þess að karlar á aldrinum 45-54 ára vinni of mikið til skamms tíma. Það gæti því verið umhugsunarefni fyrir sveitarfélög að hlúa að barnagæslu og öðrum stuðningi við fjölskyldur á því tímabili ævinnar þar sem skuldbindingar eru oft miklar, bæði af fjárhagslegum og öðrum toga, samhliða aukinni áhættu á hjartaáföllum vegna aldurs. Á heimilunum fer fram stór hluti af því sem kalla má heilsuframleiðslu einstaklinga. Það hefur því mikið vægi hvernig fólk ver tíma sínum.
Niðurstöður rannsóknarinnar hafa einnig víðfeðmari þýðingu en eingöngu fyrir stefnumótun. Þær stuðla að auknum skilningi á mannlegri hegðun, t.d. hvernig fjárhagslegir hvatar hafa áhrif á ákvarðanir fólks um vinnuframboð og hvernig hegðun á vinnumarkaði tengist heilsu.