Skip to main content
27. september 2018

Frábær frammistaða í alþjóðlegri hakkarakeppni

Þrír nemendur af Verkfræði- og náttúruvísindasviði Háskóla Íslands sigruðu í íslenskum hluta alþjóðlegrar hakkarakeppni, IceCFT sem tölvuöryggisfyrirtækið Syndis og Háskólinn í Reykjavík stóðu fyrir á dögunum. Lið þeirra gerði sér lítið fyrir og varð jafnframt í 21. sæti í alþjóðlegum hluta keppninnar. 

„Hakkarakeppnin eða IceCTF eins og hún heitir réttu nafni er svokallað “Capture the Flag” mót. Í CTF-mótum keppast þáttakendur við að leysa sem flestar hökkunarþrautir og þeir geta á sem stystum tíma. Þrautirnar eru fjölbreyttar og þeim er skipt í ýmsa flokka, eins og vefhökkun, veikleikaleit í forritum, tölvurannsóknir og dulkóðun. Ef maður leysir þraut á réttan hátt fær maður út textabút sem maður slær inn á vefsíðu mótsins og vinnur sér þannig inn stig,“ segir Valtýr Kjartansson, BS-nemi í hugbúnaðarverkfræði við Háskóla Íslands. Hann skipaði sigurliðið Conzensys ásamt þeim Bjarti Thorlacius, MS-nema í reikniverkfræði, og Hjörvari Ingvarssyni, BS-nema í stærðfræði.

Þess má geta að Hjörvar var einnig í sigurliðinu í keppninni 2016 en hann og og Bjartur hafa báðir mikinn áhuga á CTF-keppnum og hafa keppt í þeim undanfarið. „Við höfum m.a. rannsakað svokölluð „Writeup“ úr hinum ýmsu CTF-keppnum þar sem sigursælir þáttakendur lýsa lausnaraðferðum sínum og kenna ýmis trix við hökkun,“ segir Bjartur.

Tilviljun réð því að Valtýr slóst í lið með þeim. „Ég sat bara og var að reikna skiladæmi inni í stofu Stiguls, nemendafélags stærðfræði- og eðlisfræðinema, í VR-II þegar Hjörvar kom inn og settist fyrir aftan mig. Hann sá að ég var með kóða opinn í fartölvunni minni og spurði mig hvort ég hefði áhuga á að taka þátt í IceCTF með honum og Bjarti. Ég þekkti hvorugan þeirra en ákvað að taka sénsinn. Ég sé sannarlega ekki eftir því,“ segir Valtýr.

Alls voru um um 3.000 manns frá rúmlega hundrað mismunandi löndum skráðir í alþjóðlegu CFT-keppnina. „Það er mikið og dyggt samfélag í kring um CTF-keppnir eins og þessa og hörðustu áhugamenn reyna að taka þátt í eins mörgum mótum og þeir geta. Þó við værum í fyrsta sæti hér á landii þá er ég jafnvel enn þá stoltari af því að lenda í 21. sæti á heimsvísu því það voru alveg gífurlega sterk lið skráð til leiks alls staðar að úr heiminum,“ segir Valtýr enn fremur.

Leið eins og krökkunum í Goonies
En hvað er svona spennandi við að hakka? „Í fyrsta lagi er ótrúlega dýrmætt að hafa tilfinningu fyrir veikleikum sem maður kann að geta skapað í hugbúnaði sem maður skrifar. Því betri sem maður er í að finna veika bletti í kóða því betri er maður í að bæta þá og styrkja. Í öðru lagi er það innri ævintýraþrá manns. Í sumum þrautunum í IceCTF leið mér eins og ég væri einn krakkinn í Goonies eða karakter í lélegri 80´s hakkaramynd þar sem tölvan er að skipa mér fyrir. Ein þrautin leiddi okkur meira að segja í eyðibýli lengst uppi í Heiðmörk þar sem ég þurfti að leita að vísbendingum í rökkrinu,“ bætir Valtýr við. 

Valtýr hóf nám í hugbúnaðarverkfræði í Háskólanum í haust en Hjörvar og Bjartur eru komnir nokkuð langt í námi. „Það  eru ótrúlegustu hlutir úr náminu sem hjálpa til við hakkið en fyrst og fremst eru það líklega vinnubrögðin sem við höfum tamið okkur í skólanum og tækifærin til að kynnast fólki með þessi sömu áhugamál sem hafa hjálpað okkur að komast langt í keppninni,“ segir Bjartur aðspurður um það hvernig námið í HÍ hafi nýst í hakkinu. Hjörvar bætir við að hakkaraáfangi sem hann tók þegar hann var í skiptinámi í Ástralíu hafi hjálpað mikið en hann stefnir á að taka tölvuöryggisáfanga í Háskóla Íslands á næsta misseri til þess að auka þekkingu sína enn frekar í þessum efnum.

En skyldu þeir stefna á fleiri hakkarakeppnir? „Það er aldrei að vita. Við erum allir sammála um að samvinnan gekk mjög vel. Við höfum reynslu af mörgum mismunandi sviðum og fjölbreyttir sterkleikar okkar spila vel saman,“ segja þremenningarnir að endingu.
 

Liðið Conzen­sys ásamt fulltrúum aðstandenda keppninnar. Frá vinstri: Hlyn­ur Óskar Guðmunds­son frá Synd­is, Valtýr Kjart­ans­son, Bjart­ur Thorlacius, Hjörv­ar Ingvars­son og Gísli Hjálm­týs­son frá Há­skól­an­um í Reykja­vík.