Fimm verkefni úr HÍ hljóta styrk úr Jafnréttissjóði Íslands
Fimm fræðimenn og nemendur við Háskóla Íslands hafa hlotið styrki til rannsókna úr Jafnréttissjóði Íslands, þar af tvo af þremur hæstu styrkjunum sem veittir voru. Styrkjunum var úthlutað við hátíðlega athöfn í Hörpu í dag, á sjálfan kvenréttindadaginn.
Fram kemur á vefsíðu forsætisráðuneytisins að 76 umsóknir um styrki hafi borist sjóðnum að þessu sinni en úthlutað var tæplega 91 milljón króna í styrki til 17 verkefna og rannsókna. Þrjú verkefni hlutu hæstu styrkina að þessu sinni, níu milljónir hvert, og standa vísindamenn Háskólans að tveimur þeirra. Tinna Laufey Ásgeirsdóttir, prófessor við Hagfræðideild, hlaut styrk til verkefnisins „Verðmat miska vegna kynferðislegrar áreitni“ og Silja Bára Ómarsdóttir, dósent við Stjórnmálafræðideild, fær styrk til rannsóknarinnar „Árangur gegn alþjóðlegu bakslagi – þungunarrof á Íslandi og Írlandi“. Auk þeirra hlutu Stígamót einnig níu milljóna styrk vegna verkefnisins Sjúk ást.
Þá hlaut Cynthia Trililani, doktorsnemi við Menntavísindasvið Háskóla Íslands, sex milljóna króna styrk til rannsóknar sem snýr að háskólanámi innflytjendamæðra og Edda Björk Þórðardóttir, nýdoktor við Miðstöð í lýðheilsuvísindum, fimm milljóna króna styrk fyrir rannsókn á kynferðisáreitni og kynferðisofbeldi á vinnustöðum á Íslandi. Enn fremur hlaut Vaka Vésteinsdóttir, aðjunkt við Sálfræðideild, 900 þúsund króna styrk til verkefnisins „Hvernig á að spyrja um kyn?“ Við þetta má bæta að Rannveig Ágústa Guðjónsdóttir fékk styrk til verkefnisins „Upplifun karla sem beitt hafa ofbeldi í nánum samböndum“ en hún hefur brátt doktorsnám við Háskóla Íslands.
Jafnréttissjóður Íslands var stofnaður fyrir fjórum árum, í tilefni af 100 ára kosningaréttarafmæli íslenskra kvenna, og hefur það meginmarkmið að fjármagna eða styrkja verkefni og rannsóknir sem miða að því að efla jafnrétti kynjanna í íslensku samfélagi og á alþjóðavísu.
Lista yfir styrkþega úr Jafnréttissjóði Íslands 2019 má nálgast á vef Rannís