Skip to main content
25. febrúar 2019

Eldfjallavöktun og kvikuhreyfingar í nýju edX-námskeiði Háskóla Íslands

""

„Námskeiðið fjallar um aðferðir til að vakta eldfjöll og hreyfingar bergkviku í rótum eldstöðva. Hver eru merki kvikusöfnunar fyrir eldgos, hvaða mælingar geta greint slíka kvikusöfnun og hvernig getum við notað gögn frá mælitækjum til að segja okkur hvenær næstu eldgos verða?“ Þetta segir jarðvísindamaðurinn landsþekkti, Freysteinn Sigmundsson, sem mun stýra næsta námskeiði Háskóla Íslands í edX-netinu. edX er alþjóðlegt og leiðandi net háskóla á sviði opinna vefnámskeiða. Háskóli Íslands varð hluti af edX árið 2017 en netið er stofnað af bandarísku háskólunum Harvard og MIT. Tilgangur þátttöku Háskólans í edX er að auka aðgengi að öflugu og spennandi námi, koma þekkingu innan skólans á framfæri alþjóðlega og þróa kennsluaðferðir í takt við örar breytingar í tækni og samfélagi.

Nýja námskeiðið heitir Eldfjallavöktun og kvikuhreyfingar og er skráning nú hafin. Afar einfalt að skrá sig til leiks og er þátttaka í námskeiðinu ókeypis.  

„Í nýja námskeiðinu er áhersla lögð á að útskýra mælingar á jarðskjálftum, jarðskorpuhreyfingum og eldfjallagasi í þessu samhengi og útskýra dæmi um slíkar mælingar. Þá er fjallað almennt um innviði eldfjalla og ferðalag bergkviku neðanjarðar. Námskeiðið byggist upp á röð af stuttum myndböndum með kennsluefni um þessa þætti, og verkefnum tengdum þeim,“ segir Freysteinn sem er jarðeðlisfræðingur við Norræna eldfjallasetrið á Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands. Það fer vel á því að Háskólinn bjóði námskeið á þessu sviði enda er Ísland lifandi rannsóknastofa í þessari vísindagrein auk þess sem íslenskir jarðvísindamenn hafa raðað sér með þeim bestu í heimunum á undanförnum árum. 

Annað netnámskeið Háskóla Íslands í edX

Markmið námskeiðsins nú er að auka almennan skilning á eðli kvikuhreyfinga og eldfjallavöktun, bæði hjá almenningi sem hefur áhuga á þessum málum sem og nemendum í jarðvísindum, og þeim sem koma að eldfjallavöktun víðs vegar um heiminn en hafa ekki breiða þekkingu á viðfangsefninu. 

Þetta er annað námskeiðið sem Háskóli Íslands stendur fyrir á vegum edX. Hartnær sex þúsund manns tóku þátt í fyrsta alþjóðlega netnámskeiði Háskólans sem var í norrænum miðaldafræðum og voru Íslendingasögurnar þar í háskerpu með öllum sínum undrum, æsandi viðburðum, mögnuðum tilsvörum og litbrigðum í mannlífi. 

Þátttaka í því námskeiði fór fram úr björtustu vonum og komu nemendur frá 112 þjóðlöndum úr öllum heimshornum. Stærsti nemendahópurinn var frá Bandaríkjunum, eða á annað þúsund manns. Tíu prósent nemenda voru Bretar, sem er fjölmennastir Evrópuþjóða, en skráðir stúdentar komu m.a. frá Mexíkó, Nýja-Sjálandi, Ástralíu, Indlandi, Brasilíu, Argentínu og frá fjölmörgum ríkjum Evrópu. Yngsti nemandinn var 13 ára en sá elsti hartnær níræður. 

„Í nýja námskeiðinu er áhersla lögð á að útskýra mælingar á jarðskjálftum, jarðskorpuhreyfingum og eldfjallagasi í þessu samhengi og útskýra dæmi um slíkar mælingar. Þá er fjallað almennt um innviði eldfjalla og ferðalag bergkviku neðanjarðar. Námskeiðið byggist upp á röð af stuttum myndböndum með kennsluefni um þessa þætti, og verkefnum tengdum þeim,“ segir Freysteinn Sigmundsson, jarðeðlisfræðingur og umsjónarmaður námskeiðsins.

Að kenna fyrir framan myndavélar

Freysteinn segir að auk sín komi fleiri kennarar að námskeiðinu frá Háskóla Íslands og Veðurstofunni sem og frá Háskólanum í Leeds í Bretlandi og Bandarísku jarðvísindastofnuninni.  „Námskeiðið er alþjóðlegt,“ segir Freysteinn, „þar sem öllum í heiminum býðst að taka þetta námskeið, þá er tungumál námskeiðsins enska.“

Freysteinn segir að það hafi reynst nokkur áskorun í fyrstu að laga sig að nýjum sjónarmiðum hvað varðar fyrirlestrahald, t.d. að reyna að segja skiljanlega á fimm mínútum í stuttu myndbandi það sem hann hafði áður fjallað um í fyrirlestrum sem taka næstum 10 sinnum lengri tíma. „Maður þarf líka að ímynda sér að myndavélin sem maður talar við sé áhugasamur nemandi. Mér finnst spennandi að takast á við kennslu framan við myndavélar því ætla má að það eigi eftir að verða stórstígar breytingar í kennsluháttum í þá átt á allra næstu árum. Við verðum að nýta okkur tæknina og dragast ekki aftur úr. Það skiptir miklu að hafa góðan hóp af fólki sem vinnur að svona námskeiði í viðbót við kennara – það er stórt samstarfsverkefni að útbúa svona námskeið. Þannig leggur þónokkur hópur við Háskólann gríðarmikla vinnu í að taka upp efni og klippa það, ganga frá myndböndum á sem bestu formi og halda utan um undirbúning námskeiðsins.“

Breytingar fram undan í kennsluháttum

Freysteinn segist ekki vera sérfræðingur í kennsluþróun en hann segir að það kæmi sér þó ekki á óvart ef kennsluhættir myndu gjörbreytast á næstu árum. „Gott að aðgengi að stuttum myndböndum sem skýra og segja frá á skilvirkan hátt verður sífellt mikilvægara. Ég sé fram á heilmikla möguleika við að miðla efni á þennan hátt í framtíðinni. Við erum að fara inn í þá tíma þar sem meiri áhugi er hjá nemendum að hlusta og upplifa kennsluefni áður en þeir koma í kennslustund. Nemendur taka síðan þátt í umræðum og verkefnavinnu og spyrja spurninga þegar hist er í kennslustundum,“ segir Freysteinn sem hlakkar mikið til að námskeiðið nýja hefjist á netinu. 

Freysteinn er á því að edX sé einn virtasti vettvangurinn fyrir opin námskeið á netinu enda taki háskólar vítt og breytt um veröldina þátt í netinu, m.a. sumir af virtustu háskólum heims. „Mér finnst mikil framsýni hjá Háskóla Íslands að taka þátt í þessu samstarfi.  Það kostar vinnu en á sama tíma fæst mikilvæg reynsla við gerð netnámskeiða. Í viðbót við miðlun efnis er þetta auðvitað ákveðin auglýsing fyrir skólann.  Þar sem þetta er alþjóðlegt þá getur Háskóli Íslands miðlað efni, m.a. á þeim sviðum þar sem Ísland stendur framarlega.“

Hef alltaf viljað skoða og skilja landið betur

Það er vissulega ekki amalegt að fá fróðleikinn beint í æð í námskeiðinu nýja frá einum virtasta vísindamanni heims á sviði jarðvísinda og eldsumbrota. Nákvæmnismælingar á hreyfingum jarðskorpunnar er meginþema í rannsóknum Freysteins. Með því að mæla hreyfingar með mikilli nákvæmni má til dæmis sjá hvernig flekarek teygir á landinu okkar þannig að Austurland færist frá Vesturlandi á svipuðum hraða og neglurnar okkar lengjast, hvernig mest allt landið okkar rís vegna minnkandi jökla, mest inn til landsins yfir 30 millimetra á ári, og hvernig eldfjöll búa sig undir eldgos. 

Íslendingar hafa margir séð eldgos berum augum og sumir hafa fengið að kenna á afleiðingum þeirra á eigin skinni. Það eru þó færri sem sökkva sér ofan í fyrirboða eldgosa en þar liggur þó gríðarlega mikilvæg þekking sem nýtist í þágu almennings. Það þarf ekki að fjölyrða um mikilvægi þess að geta varað almenning við áður en eldgos hefjast. 

Algengur fyrirboði eldgosa er söfnun bergkviku í rótum eldstöðva áður en hún berst til yfirborðs. Þá þenjast eldfjöll út líkt og blaðra sem stækkar uns brotmörkum er náð. Með því að mæla mynstur og stærð hreyfinga á yfirborði má setja fram líkön um kvikutilfærslu neðanjarðar. Þessi viðfangsefni hafa verið stór þáttur í rannsóknum Freysteins og þessu mun hann miðla í námskeiðinu.

„Ég hef alltaf haft áhuga á landinu okkar og að skoða og skilja það betur, áhugi sem byrjaði í fjölskylduferðum þegar ég var krakki. Eldfjöll vöktu snemma sérstakan áhuga og ef tilv ill hefur spilað inn í að þegar ég var ungur stóðu Kröflueldar yfir með endurteknum eldgosum og mikilli fjölmiðlaumfjöllun. Þegar ég var að velja mér viðfangsefni í náminu þá voru nýkomnar til sögunnar nákvæmnismælingar á jarðskorpuhreyfingum með gervitunglum.  Mér fannst það heillandi viðfangsefni og sá áhugi hefur leitt mig þangað sem ég er nú kominn.“

Eins og áður sagði er hægt að skrá sig á námskeiðið á vef þess

Freysteinn Sigmundsson við rannsóknir