Skip to main content
4. desember 2018

Egill Skúlason í starf prófessors í efnaverkfræði

""

Dr. Egill Skúlason hlaut nýverið framgang í starf prófessors í efnaverkfræði við Iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði og tölvunarfræðideild Háskóla Íslands. Hann hefur unnið að spennandi rannsóknum sem miða að því að auðvelda framleiðslu á áburði og gera hana sjálfbærari og hefur þegar stofnað sprotafyrirtæki ásamt samstarfsfólki utan um verkefnið.

Efnaverkfræði byggist á samspili raunvísinda-, verkfræði- og hönnunargreina þar sem unnið er að þróun, hönnun og bætingu ferla sem meðal annars eru notaðir við orkunýtingu, framleiðslu matvæla, lyfja og efna sem nýtast í nánast öllum vörum sem notaðar eru í samfélaginu.

Egill lauk grunnnámi í bæði efnafræði og lífefnafræði við Háskóla Íslands árið 2003 og lauk meistaraprófi í reikniefnafræði við HÍ árið 2005. Því næst lá leið hans til Danmerkur það sem hann hóf doktorsnám í verkfræðilegri eðlisfræði við Danska Tækniháskólann (Danmarks Tekniske Universitet) og brautskráðist með doktorsgráðu árið 2009.

Egill hóf störf að loknu námi við Raunvísindastofnun Háskólans. Árið 2013 hóf Egill störf sem lektor við Raunvísindadeild Háskóla Íslands og hefur síðan þá sinnt kennslu og stundað rannsóknir sem og að setja nýjar námsleiðir á laggirnar í efnaverkfræði og verkfræðilegri eðlisfræði.

Helstu rannsóknir Egils snúa að að skilja hvarfgang efnahvarfa og að hanna nýja efnahvata fyrir rafefnafræðileg ferli, en rafefnafræði gerir okkur kleift að nýta endurnýjanlega orku til að knýja ferli áfram. Uppáhaldsefnahvörf Egils eru afoxun niturs í ammóníak, afoxun koltvísýrings í vistvænt eldsneyti, vetnismyndun, afoxun súrefnis í vatn og oxun niturs í nítrat. Við rannsóknir sínar beitir rannsóknahópur Egils aðallega skammtafræðilegum tölvureikningum en undanfarin ár hefur Egill og samstarfsmenn hans byggt upp tilraunaaðstöðu í rafefnafræði til að prófa þá efnahvata sem tölvureikningarnir spá fyrir um að vera hentugir fyrir tiltekið rafefnahvarf.

Egill hefur meðal annars verið í nánu samstarfi við Nýsköpunarmiðstöð Íslands og unnið þar að hönnun nýrra framleiðsluferla fyrir sjálfbæra framleiðslu á áburði. Ávöxtur rannsókna og samstarfs á þessu sviði er sprotafyrirtækið Atmonia sem árið 2017 sigraði í Gullegginu, frumkvöðlakeppni Icelandic Startups.

Innsetningarathöfn vegna framgangs Egils Skúlason í starf prófessors verður haldin miðvikudaginn 5. desember kl. 16:00 í stofu 132 í Öskju. Þar mun Egill halda erindi í tilefni dagsins og líta yfir farinn veg í rannsóknum sínum og öðrum störfum.

Erindi Egils ber heitið Kerfisbundin hönnun rafefnahvata fyrir sjálfbæra framtíð. Innsetningarathöfnin er um það bil ein klukkustund og allir eru velkomnir.

Innsetningarathofn Egils Skúlasonar, miðvikudaginn 5. desember klukkan 16 í Öskju stofu 132