Skip to main content
20. maí 2022

Alheimurinn í nýju ljósi í stjörnuveri Perlunnar

Alheimurinn í nýju ljósi í stjörnuveri Perlunnar - á vefsíðu Háskóla Íslands

Ef þú gætir séð fjarlægasta ljós alheimsins frá garðinum þínum, hvernig myndi það líta út? Hvernig verða stjörnuþokur til og hvernig passa þær inn í stóra samhengið, sjálfan alheiminn? Svör við þessu fást á einstökum viðburði sem Háskóli Íslands stendur fyrir í stjörnuveri Perlunnar mánudagskvöldið 23. maí kl.  20. Viðburðurinn er ókeypis og öllum opinn en sætaframboð er takmarkað.

„Á viðburðinum munum við sýna hvaða tækni stjarneðlisfræðingar nota til að rannsaka alheiminn og fyrirbærin sem finnast í honum. Aðaláherslan verður á tölvugerð hermilíkön sem varpa ljósi á það hvernig vetrarbrautir verða til og hvernig þær rúmast í alheiminum. Einstakar aðstæður í stjörnuverinu í Perlunni gera okkur kleift að vinna hermilíkönin með það í huga,“ segir Mark R. Lovell, rannsóknarsérfræðingur við Raunvísindastofnun Háskólans, sem fræða mun gesti um stjörnuþokur og víðáttumikinn alheiminn ásamt Sævari Helga Bragasyni, sem er betur þekktur sem Stjörnu-Sævar. Saman munu þeir félagar bjóða upp á eftirminnilega upplifun og þekkingu um gagnverk alheimsins.  

Beðinn um að útskýra nánar hvað hermilíkön segir Mark að segja megi að þau sé tilraunir stjarneðlisfræðinga en líkönin eru búin til með aðstoð ofurtölva og stórvirkrar tölvuvinnslu. „Við setjum fram hugmyndir um hvernig heimurinnn virkar –  hvernig stjörnur myndast og springa og hita upp nálægt gas, hvernig heimurinn þenst út – og búum til tölvuforrit sem styðjast við þessi lögmál og hugmyndir. Við getum okkur til um eiginleika heimsins þegar hann var aðeins nokkurra milljóna ára gamall og keyrum svo tölvuforritin fyrir næstu 13 milljarða ára í sögu heimsins til þess að komast að því hvernig heimurinn liti út ef hugmyndir okkar væru réttar,“ útskýrir Mark. 

Niðurstöður hermilíkananna eru svo bornar saman við niðurstöður athugana á geimnum. „Við veltum upp spurningum eins og hvort fjöldi vetrarbrauta sé sá sami, hvort uppbygging þeirra sé eins og og hversu langt sé á milli þeirra. Þar sem hermilíkönin og athuganirnar greinir á uppfærum við hugmyndir okkar um lögmál eðlisfræðinnar og hefjum svo leikinn á ný,“ útskýrir Mark enn fremur.

„Á viðburðinum munum við sýna hvaða tækni stjarneðlisfræðingar nota til að rannsaka alheiminn og fyrirbærin sem finnast í honum. Aðaláherslan verður á tölvugerð hermilíkön sem varpa ljósi á það hvernig vetrarbrautir verða til og hvernig þær rúmast í alheiminum. Einstakar aðstæður í stjörnuverinu í Perlunni gera okkur kleift að vinna hermilíkönin með það í huga,“ segir Mark R. Lovell, rannsóknarsérfræðingur við Raunvísindastofnun Háskólans.

Hulduefni og hermilíön

Mark kom til starfa í Háskóla Íslands fyrir um fimm árum þegar Jesús Zavala, prófessor í stjarneðlisfræði, réð hann til rannsókna á svokölluðu hulduefni með styrk frá Rannís. „Ég hef unnið að hermilíkönum fyrir vetrarbrautir alveg frá því að ég gerði meistaraverkefni mitt árið 2008. Í rannsóknum mínum nýti ég hermilíkön til að varpa nýju ljósi á hulduefni, en talið er að 80% af alheiminum sé hulduefni. Ég mun koma inn á þetta í seinni hluta erindis míns. Ég hef hef einnig lagt mikla vinnu í það frá árinu 2010 að búa til myndir af hermilíkönum og á viðburðinum í stjörnuverinu sjá gestir afrakstur þeirra vinnu,“ segir Mark.

Hann segir það eitt af  mikilvægustu viðfangsefnum eðlisfræðinnar að varpa ljósi á eðli hulduefnis. „Það er verkefni bæði stjarneðlisfræðinnar og skammtafræðinnar. Framfarir á þessu sviði eru afar mikilvægar fyrir skilning okkar á myndun lítilla stjörnuþoka en þær geta einnig veitt vísbendingar um önnur óskýrð fyrirbrigði eðlisfræðinnnar, eins og hvers vegna það er meira af efni en andefni í alheiminum og hvers vegna eindir sem kallar fiseindir hafa massa,ׅ“ segir Mark enn fremur.

Aðspurður segir Mark afar mikilvægt vísindamenn eigi í beinum samskiptum við almenning og kynni rannsóknir sínar, ekki síst til þess að vekja athygli á því að vísindi snúast um aðferðir en ekki eingöngu staðreyndir. „Við þurfum að sýna að við komumst að staðreyndum um alheiminn með því að prófa okkur áfram, að það eru takmörk fyrir því hvernig við getum rannsakað og hermt heiminn og að við séum stöðugt að leita nýrra leiða til að sigrast á þessum takmörkunum. Stundum tekst það, stundum, ekki,“ segir hann. 

Viðburðurinn í stjörnuveri Perlunnar er fyrir unga sem aldna sem vilja fræðast nánar um alheiminn og þau vísindi og þá tækni sem liggur að baki rannsóknum á honum. Ókeypis er inn á viðburðinn en hann fer fram í þetta eina skipti og fjöldi miða er takmarkaður. Miða má nálgast á tix.is.

Viðburðurinn á Facebook

Viðburðurinn er hluti af UTmessudögunum 23.-25. maí sem eru undanfarar UTmessunnar sjálfrar miðvikudaginn 25. maí. Háskóli Íslands er einn af samstarfsaðilum UTmessunnar.

Alheimurinn