Skip to main content

Stjórnar ofurstöð í eldfjallafræði

Freysteinn Sigmundsson, vísindamaður við Jarðvísindastofnun Háskólans - Stjórnar ofurstöð í eldfjallafræði

„Kveikjan að verkefninu er meðal annars eldgosið í Eyjafjallajökli árið 2010 en eins og kunnugt er olli það mikilli röskun á flugi í Evrópu. Markmið verkefnisins eru að hanna samþætt kerfi til eldfjallavöktunar, þróa nýjar aðferðir til að meta fyrirboða eldgosa og gosvirkni, auka skilning á eldvirkniferlum og bæta upplýsingagjöf. Þá er ætlunin að spá betur fyrir um öskudreifingu frá stórum eldgosum með það fyrir augum að draga úr þeim áhrifum sem slík gos geta haft, t.d. á flugumferð.“

Þetta segir Freysteinn Sigmundsson, jarðeðlisfræðingur við Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands, um risaverkefnið „Ofurstöð í eldfjallafræði – FutureVolc“ sem hleypt var af stokkunum haustið 2012. Við fjöllum einmitt um þetta verkefni í fyrsta þættinum í röðinni um Fjársjóð framtíðar.

Freysteinn Sigmundsson

Markmið verkefnisins eru að hanna samþætt kerfi til eldfjallavöktunar, þróa nýjar aðferðir til að meta fyrirboða eldgosa og gosvirkni, auka skilning á eldvirkniferlum og bæta upplýsingagjöf.

Freysteinn stýrði þessu viðamikla samevrópska verkefni en að því komu 26 aðilar í tíu löndum, þar á meðal evrópskir háskólar í fremstu röð, ýmsar stofnanir og fyrirtæki. Hér á landi höfðu Jarðvísindastofnun Háskólans og Veðurstofa Íslands forystu um verkefnið en að því komu einnig almannavarnadeild ríkislögreglustjóra og upplýsingatæknifyrirtækin Miracle og Samsýn sem starfa á sviði kortagerðar og landupplýsinga- og stjórnkerfa. Vel á annað hundrað evrópskir vísindamenn tóku þátt í verkefninu á þeim tæpu fjórum árum sem það var í vinnslu.

Evrópusambandið veitti verkefninu styrk upp á tæplega sex milljónir evra, rétt um milljarð íslenskra króna, og er það hæsti styrkur sem íslenskur vísindamaður hefur fengið til að stjórna Evrópuverkefni.

Freysteinn segir verkefnið hafa mikla þýðingu bæði fyrir Íslendinga og heiminn allan. „Ísland varð ekki síst fyrir valinu sem stjórnstöð rannsóknarinnar þar sem eldfjöll hér eru mjög virk og eldstöðvarnar ólíkar. Með því að tengja saman núverandi vöktunarkerfi og nýjustu rannsóknir er ætlunin að þróa því sem næst rauntímamat á íslenskum eldfjöllum og ástandi þeirra. Aðferðirnar geta síðan nýst annars staðar í heiminum,“ segir Freysteinn.