Skip to main content

Áfok jákvætt fyrir fugla

Tómas Grétar Gunnarsson, forstöðumaður Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Suðurlandi - Áfok jákvætt fyrir fugla

Áfok sem stundum er kallað moldrok í daglegu tali er afar áberandi náttúrufyrirbrigði á Íslandi. „Það stafar einkum af eldvirkni landsins og tilvist jökla sem leiða af sér að mikið er af lausum gosefnum. En einnig vegna þess að stórir hlutar landsins eru gróðurlitlir eftir aldalanga landnotkun og því er mikið af efni laust á yfirborði. Þessi efni fjúka þegar hreyfir vind og berast yfir landið og miðin í miklu magni.“

Þetta segir Tómas Grétar Gunnarsson, forstöðumaður Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Suðurlandi en hann hefur rannsakað áhrif áfoks á fuglalíf á láglendi. Áfokið er mest nærri gosbeltunum, frá suðvestri til norðausturs, en minnkar er fjær dregur. Í fyrsta þættinum af Fjársjóði framtíðar, sem sýndur er á RÚV núna í maí, fylgjumst við með rannsóknum vísindamanna við Háskóla Íslands á eldgosum og áhrifum þeirra á landið og umhverfið. Tómas Grétar hefur haft fugla í háskerpu í sínum rannsóknum og þetta sjónvarhorn er afar áhugavert.

Tómas Grétar Gunnarsson

„Yfirleitt er umtal um áfok á neikvæðum nótum en hér sjáum við greinilega jákvæð áhrif fokefna á vistkerfi á landi en slík áhrif hafa áður mælst í hafinu umhverfis landið.“

„Yfirleitt er umtal um áfok á neikvæðum nótum en hér sjáum við greinilega jákvæð áhrif fokefna á vistkerfi á landi en slík áhrif hafa áður mælst í hafinu umhverfis landið.“

Tómas Grétar segir að fyrri rannsóknir á útbreiðslu og þéttleika mófugla á Íslandi hafi sýnt að ýmsir staðbundnir þættir, svo sem landnotkun og landgerðir, ráði miklu um dreifingu fugla. „En það hefur jafnframt verið ljóst að það er talsverður óútskýrður munur á þéttleika fugla eftir landshlutum sem var forvitnilegt að kanna frekar.“

Rannsóknin sem Tómas Grétar vísar til er unnin í samvinnu við Ólaf Arnalds, prófessor við Landbúnaðarháskóla Íslands. „Niðurstöður í rannsóknum okkar sýna að þar sem áfok er mikið í votlendi og á þurrlendi er að jafnaði tvöfalt til þrefalt meira af mófuglum heldur en þar sem áfok er minnst.“

Tómas Grétar segir að á ræktuðu landi sé næringarstigi stjórnað með áburðargjöf og þar komi þessi áhrif ekki fram. „Fuglar eru ofarlega í fæðukeðjum og byggja tilvist sína á ýmsum þáttum sem eru neðar í kerfinu. Þegar dreifing áfoks yfir landið er farin að mælast í fuglalífi er ljóst að áfokið hefur mikil áhrif á vistkerfi og frjósemi landsins.“

Að sögn Tómasar Grétars eru þetta einstæðar niðurstöður á heimsvísu því magn áfoks hefur ekki áður verið tengt við útbreiðslu og dreifingu hryggdýra á stórum landsvæðum. „Þessar niðurstöður bæta skilning á íslenskum vistkerfum og líflandafræði en hafa líka þýðingu fyrir skipulagsmál og landnotkun.“

Tómas Grétar Gunnarsson