Tómas Grétar Gunnarsson, forstöðumaður Rannsóknaseturs HÍ á Suðurlandi
„Menn hafa lengi verið að leita lausna til að skilja stofnvistfræði farfugla því þeir lifa tvöföldu lífi, eru háðir atburðum sem verka á þá bæði á varp- og vetrarstöðvum og þessir atburðir spila saman,“ segir Tómas Grétar Gunnarsson, forstöðumaður Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Suðurlandi. Grein byggð á rannsóknum Tómasar og samstarfsmanna hans við Háskólann í East Anglia og Cambridge-háskóla í Bretlandi á íslenska jaðrakanastofninum birtist í Tímariti hinnar konunglegu bresku vísindaakademíu (Proceedings of the Royal Society - Biological Sciences), einu virtasta líffræðitímariti heims, í lok júní. Rannsóknir hópsins sýna að stærð karlfugla tengist útbreiðslusögu fuglategundarinnar um landið. Í nýrri þáttaröð Háskóla Íslands og RÚV um rannsóknir vísindamanna við skólann er fylgst með rannsóknum Tómasar og félaga á jaðrakan.
Tómas, sem er doktor í vistfræði, er höfundur greinarinnar ásamt þremur breskum samstarfsfélögum. Samstarfsverkefni þeirra hefur þróast á um áratug, meðal annars á meðan Tómas var í doktorsnámi í Bretlandi , og hefur hópurinn meðal annars birt greinar um rannsóknir á jaðrakönum í hinu virta vísindatímariti Nature. „Í árdaga verkefnisins kom í ljós að íslenskir jarðakanar henta mjög vel til að skoða stofnþætti farfugla. Það er einkum vegna þess að fuglar sem eru einstaklingsmerktir hér á landi sjást gjarnan bæði á Íslandi og á vetrarstöðvum, en þær eru frá Bretlandseyjum til Portúgals,“ segir Tómas.
Hann bendir á að yfir 90 prósent þeirra fugla sem merktir eru á Íslandi sjáist utan landsins innan þriggja ára. „Við njótum þess að hundruð fuglaskoðara á vetrarstöðvum jaðrakana og á Íslandi senda okkur álestra af merktum fuglum sem við söfnum í gagnagrunna og getum notað til að svara mörgum sérhæfðum spurningum,“ bætir Tómas við.
„Svo má nefna að bygging stofnsins er mjög heppileg fyrir þessar rannsóknir. Jaðrakan var sjaldgæfur á Íslandi fyrir um 100 árum og verpti aðeins á afmörkuðu svæði á Suðurlandi. Síðan hefur hann breiðst út um láglendissvæði umhverfis landið og hefur verið að færa sig jafnt og þétt út í verri búsvæði. Við höfum séð með þessu að það eru sömu fuglarnir sem nota góð svæði bæði á varp- og vetrarstöðvum og öfugt en það hefur ýmsar afleiðingar fyrir stofnbreytingar og náttúruvernd,“ segir Tómas.
Tómas Grétar Gunnarsson
„Í árdaga verkefnisins kom í ljós að íslenskir jarðakanar henta mjög vel til að skoða stofnþætti farfugla.“
Stærri karlar parast síður
Í greininni sem birt er í Tímariti konunglegu bresku vísindaakademíunnar er greint frá því að byggingareiginleikar jaðrakanans, einkum stærð karlfugla, tengist útbreiðslusögunni. „Við sýnum fram á að stærri karlar, sem parast síður, eru líklegastir til að nema ný og verri svæði. Þannig sjáum við stöðuga stækkun karlfugla eftir því sem þeir eru á nýrri svæðum,“ segir Tómas og bætir við: „Það kemur einnig fram í greininni að það er ekki tilviljun hvaða fuglar nema ný svæði heldur eru það fuglar sem hafa verri samkeppnisstöðu, í þessu tilfelli stærri karlfuglar sem ganga síður út. Það þýðir að þótt þeir nemi ný lönd þá er stærð nýja útbreiðslusvæðisins ekki í réttu hlutfalli við veltu í stofninum. Það eru enn gömlu kjarnasvæðin sem standa undir mestri veltu í stofninum.“
Um mikilvægi rannsóknarinnar segir Tómas að rannsakendur séu stöðugt að glíma þá spurningu hvernig dýrastofnar bregðast við umhverfisbreytingum. „Jaðrakanastofninn er að stækka og breiðast út og við getum því notað hann sem módel til að skoða þau mynstur sem koma upp þegar stofn þarf að breyta útbreiðslusvæði vegna umhverfisbreytinga,“ segir Tómas enn fremur.
Jaðrakanar fljótari frá Portúgal en Bretlandi og Frakklandi
Rannsókninni á stofnvistfræði jaðrakanans er þó hvergi nærri lokið að sögn Tómasar. „Það kemur út grein seinna á árinu í Oikos, tímariti norræna vistfræðifélagsins, þar sem við fjöllum um tímasetningu farflugs jaðrakana frá mismunandi vetrarstöðvum. Þeir fuglar sem eru fjær, í Portúgal, taka fram úr þeim sem eru nær, í Frakklandi og Bretlandi. Þeir geta það því þeir hafa meiri fæðu á veturna og þeir ná líka að jafnaði betri varpstöðvum á Íslandi. Þetta er einkennilegt mynstur sem sýnir fram á mikilvægi gæða búsvæða.
Eins erum við að rannsaka af hverju sömu fuglarnir ná bæði góðum varp- og vetrarstöðvum. Það er lykilatriði í allri vistfræði fardýra og sennilega almennt mynstur en hefur aldrei verið skýrt. Líklegt er að það megi skýra með vísun í máltækið „Lengi býr að fyrstu gerð“. Þeir sem komast upp á góðum stöðum hjá hæfum foreldrum eru vel undirbúnir og standa sig betur í flestu því sem þeir þurfa að glíma við yfir ævina,“ segir Tómas.