Skip to main content

Allt í fuglafári

Heiðdís Inga Hilmarsdóttir, BA-nemi í vöruhönnun við Listaháskóla Íslands og Birgitta Steingrímsdóttir, BS-nemi við Líf- og umhverfisvísindadeild

Fátt er fegurra fyrst á vorin en kvak fuglanna í mónum enda gefa þeir íslenskri náttúru einstakan blæ, bæði í litum og ljóði, sem menn skilja ekki með höfðinu heldur með hjartanu. Mörgum er því mikið kappsmál að þekkja íslensku varpfuglana og um leið mikilvægan hluta íslenskrar náttúru.  Komið er á markaðinn spil sem miðlar upplýsingum um íslenska varpfugla en því er ætlað að vera námsgagn í náttúrufræði á yngsta stigi grunnskólans. Í sjónvarpsþáttaröðinni Fjársjóður framtíðar heyrum við af þessu nýsköpunarverkefni sem fæddist í Háskólanum.

Í spilinu læra börn að þekkja nöfn, útlit og ýmsar skemmtilegar staðreyndir um íslensku fuglana. Spilið, sem heitir Fuglafár, er hugarsmíð Birgittu Steingrímsdóttur, líffræðinema við Háskóla Íslands, og Heiðdísar Ingu Hilmarsdóttur, vöruhönnunarnema við Listaháskólann. Hugmynd þeirra þótti það snjöll að hún fékk nýsköpunarverðlaun forseta Íslands snemma árs 2016 en stúlkurnar unnu að gerð spilsins fyrir tilstyrk Nýsköpunarsjóðs námsmanna sumarið 2015.

Heiðdís Inga Hilmarsdóttir og Birgitta Steingrímsdóttir

„Hugmyndin að spilinu kviknaði þegar við Heiðdís áttuðum okkur á því hversu lítið við vissum í raun um fugla, jafnvel þótt þeir séu mjög áberandi í daglegu umhverfi okkar.“

Heiðdís Inga Hilmarsdóttir og Birgitta Steingrímsdóttir

„Hugmyndin að spilinu kviknaði þegar við Heiðdís áttuðum okkur á því hversu lítið við vissum í raun um fugla, jafnvel þótt þeir séu mjög áberandi í daglegu umhverfi okkar. Við fórum því að ræða hversu mikilvægt það væri að hefja kennslu um fugla strax á yngstu skólastigunum til að kveikja áhuga hjá börnum,“ segir Birgitta. Hún bætir því við að mikilvægt sé að börn ha jákvætt hugarfar í garð náttúrunnar því að þá aukist líkurnar á að þau taki jákvæðar ákvarðanir um hana í framtíðinni.

„Okkar von, samhliða því að kveikja áhuga barna á fuglunum, er sú að Fuglafár stuðli að enn frekari áhuga þeirra á náttúru Íslands og auki skilning á mikilvægi hennar.“ Heiðdís segir að verkefnið hafa verið af tvennum toga.

„Lögð var könnun fyrir tæplega 400 nemendur í fjórða bekk á höfuðborgarsvæðinu þar sem kannað var hvort þeir þekktu algengustu og mest einkennandi fugla í náttúru Íslands. Í framhaldi af því tók við hönnun og gerð spilsins sem hefur að markmiði að hjálpa börnunum að þekkja fuglana. Hugmyndin er að kennarar geti nýtt spilið sem skemmtilegt námsgagn í náttúrufræði. Fuglar eru auðvitað einstaklega fallegir en rannsóknir á þeim hafa aukið skilning manna á ýmsum ferlum í náttúrunni. Rannsóknir á fuglum hafa verið í fararbroddi innan greina eins og vistfræði, þróunarfræði, atferlisfræði og í líflandafræði,“ segir Birgitta að lokum.