Gísli Már Gíslason, prófessor við Líf- og umhverfisvísindadeild
Eitt af stærstu viðfangsefnum vísindanna, bæði á Íslandi og víðar um heiminn, eru rannsóknir á áhrifum loftslagshlýnunar á bæði samfélög og lífríki. Vatnavistker heimsins koma þar mikið við sögu enda hafa þau mikla þýðingu bæði fyrir manninn og aðrar lífverur. Slíkar rannsóknir þurfa að ná y r langt tímabil og í meira en áratug hefur Gísli Már Gíslason, prófessor í vatnalíffræði, kannað ásamt samstarfsfólki sínu hvaða áhrif loftslagshlýnun og áburðarefnamengun hefur á lífríki straumvatna.
Í nýrri sjónvarpsþáttaröð um Fjársjóð framtíðar fylgjumst við með rannsóknum Gísla Más og félaga í lítilli vin á Hengilssvæðinu þar sem vísindamenn hafa komið upp náttúrulegri tilraunastofu þar sem fylgst er með því hvað gerist þegar lækir og ár hitna.
Hækkandi hitastig boðar ekki gott fyrir lífríkið. „Rannsóknir okkar hafa þegar leitt í ljós að hækkandi hiti í straumvatninu breytti tegunda- samsetningu, jók framleiðni og öndun og dró úr tegundafjölbreytileika. Þá sýndu rannsóknirnar einnig að háplöntur, mosar og blábakteríur í lækjum, þar sem hitastigið var 20–24 gráður, uxu meira þegar áburði var veitt út í þá. Kísilþörungum fækkaði aftur á móti á sama tíma í þessum lækjum.
Þéttleiki bitmýs og vatnabobba óx með vaxandi hita en hlutfallslegur þéttleiki minnkaði. Fæðuþrep urðu fleiri eftir því sem lækirnir urðu hlýrri og þar óx einnig þéttleiki urriða. Minni áhrif á lífríki komu fram í köldum og mjög heitum lækjum en þeim miðlungsheitu við sams konar áburðargjöf. Þetta þýðir með öðrum orðum að loftslagshlýnun og áburðarefnamengun hefur áhrif á þörungablóma og smádýralíf í straumvötnum á þann hátt að massi þeirra eykst og tegundasamsetningin breytist. Hækkandi hiti getur því dregið úr líffræðilegum fjölbreytileika í ám og vötnum á Íslandi,“ segir Gísli Már.
Gísli Már Gíslason, prófessor í vatnalíffræði
Hækkandi hitastig boðar ekki gott fyrir lífríkið. „Rannsóknir okkar hafa þegar leitt í ljós að hækkandi hiti í straumvatninu breytti tegunda- samsetningu, jók framleiðni og öndun og dró úr tegundafjölbreytileika. Þá sýndu rannsóknirnar einnig að háplöntur, mosar og blábakteríur í lækjum, þar sem hitastigið var 20–24 gráður, uxu meira þegar áburði var veitt út í þá. Kísilþörungum fækkaði aftur á móti á sama tíma í þessum lækjum."
Aðstæður í Hengladölum eru afar góðar enda renna þar náttúrulega heitir lækir. „Við höfum gert tilraunir með að hita upp einn læk og fylgst með breytingum sem verða á lífríki hans. Tilraunarennur til að líkja eftir lækjum hafa verið settar upp í dölunum og þannig hefur verið hægt að hitastýra vatninu í þeim og bæta við áburði við hvert hitastig og fá með því endurtekningu en í fyrsta þætti rannsóknanna voru gerðar tilraunir í hverjum læk og áburði veitt út í þá,“ útskýrir Gísli.
„Rannsóknirnar hófust árið 2004 þegar Háskóli Íslands og Veiðimálastofnun hófu samstarf við hátt í 40 evrópskar vísindastofnanir en verkefnið var hluti af þá stærsta vistfræðiverkefni sem Evrópusambandið studdi. Frá árinu 2010 hefur einnig verið unnið með bandarískum háskólum og rannsóknir m.a. beinst að vistkerfinu sem heild, áhrifum loftslagshlýnunar á það og áhrifum hlutfallslega aukinnar notkunar áburðarefna á straumvötn.“
Alls eru um 20 manns við vinnu á svæðinu þegar mest er en bæði doktors- og meistaranemar við Háskóla Íslands hafa tekið þátt í rannsóknunum. „Markmið rannsóknanna er að spá fyrir um áhrif framtíðarloftslagsbreytinga á vistkerfi vatna í Evrópu, sérstaklega straumvatna. Við fylgjumst bæði með árstíðabundnum breytingum á vatninu og langtímaferlum en eldri líkön gera ráð fyrir miklum breytingum á loftslagi í Evrópu í framtíðinni, sem munu hafa mikil áhrif á vötn,“ segir Gísli Már.