Skip to main content

Áhrif hlýnunar á atferli þorskseiða

Guðbjörg Ásta Ólafsdóttir, forstöðumaður Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Vestfjörðum, og Hlynur Reynisson, MS-nemi við Líf- og umhverfisvísindadeild.

Það er óvenju fagur og sólríkur morgunn í Djúpinu og vestfirsku fjöllin standa á haus í spegilsléttum haffletinum. Í flæðarmálinu í Álftafirði eru vísindamenn að störfum, líkir veiðimönnum sem breiða værðarlega út netin sín. Sjónvarpsmenn eru mættir með tól og tæki en ætlun vísindamanna er að fanga seiði þess fisks sem skiptir okkur Íslendinga öllu máli.

„Hér er líklegt að við náum í nokkur þorskseiði,“ segir Guðbjörg Ásta Ólafsdóttir, sem stýrir rannsókninni. Hún er forstöðumaður Rannsóknaseturs Háskóla Íslands í Bolungarvík. „Þorskur er helsti nytjafiskur Íslendinga. Uppeldisstöðvarnar eru alveg við land og undir sívaxandi álagi. Stór strandsvæði fara undir byggð, vegagerð, hafnarmannvirki og aðra atvinnustarfsemi,“ segir hún.

Guðbjörg Ásta er í spennandi viðtali í nýrri þáttaröð um rannsóknir vísindamanna Háskóla Íslands á áhrifum loftslagsbreytinga á lífríkið.  Þarna í Djúpinu liggur þjóðvegurinn víða alveg ofan í flæðarmálinu og svo hagar einmitt til í Álftafirðinum þar sem þorskurinn lifir fyrstu mánuðina á líkan hátt og annars staðar í Ísafjarðardjúpi.

Guðbjörg Ásta Ólafsdóttir

„Gífurleg afföll verða á seiðunum á þessum fyrstu mánuðum í lífi þeirra, allt að 99%. Hækkandi sjávarhiti er yfirvofandi og er líklegur til að hafa áhrif á lifun. Því viljum við sjá hvort einstaklingar bregðast ólíkt við hækkandi hitastigi. Við viljum sumsé sjá hvort arfgengur breytileiki í hitaþoli hafi áhrif á viðkomu seiðanna í þeim tilgangi að meta möguleg áhrif hækkandi sjávarhita á þorskinn.“

„Gífurleg afföll verða á seiðunum á þessum fyrstu mánuðum í lífi þeirra, allt að 99%. Hækkandi sjávarhiti er yfirvofandi og er líklegur til að hafa áhrif á lifun. Því viljum við sjá hvort einstaklingar bregðast ólíkt við hækkandi hitastigi. Við viljum sumsé sjá hvort arfgengur breytileiki í hitaþoli hafi áhrif á viðkomu seiðanna í þeim tilgangi að meta möguleg áhrif hækkandi sjávarhita á þorskinn.“

Hlynur Reynisson, meistaranemi í líffræði, er þátttakandi í rannsókninni og leiðbeinir Guðbjörg Ásta honum í verkefninu. Við hittum Hlyn í kjaftinum á Skutulsfirði þar sem hann er að sýsla í fjöruborðinu. Hann segir að þau vilji kanna einstaklingsbreytileika í atferli þorskseiða við þrenns konar hitastig og sjá hvort sá breytileiki sé mögulega tengdur efnaskiptabreytileika. Hlynur segir að þrátt fyrir fjölmargar rannsóknir á áhrifum hitastigs á vöxt seiða nytjastofna hafi lítið verið skoðað hver áhrif mismunandi hitastigs séu á atferli seiðanna.

„Atferli gerir einstaklingnum kleift að bregðast hratt við breyttu umhverfi og þekking á einstaklingsbreytileika í atferli seiða við ólíkt hitastig getur gefið vísbendingu um hvernig þeim muni reiða af við hækkun sjávarhita og hvort sú hækkun muni hafa áhrif á erfðafræðilega samsetningu þorskstofnsins.“

„Vestfirsk strandsvæði eins og hér eru mikilvægar uppeldisstöðvar þorskseiða og það vakti athygli mína hve lítið þetta skeið í lífssögu þorsksins hefur verið rannsakað. Viðkoma seiða skiptir sköpum fyrir nýliðun,“ segir Guðbjörg Ásta.