Skip to main content

Sólstafir á Háskólatónleikum í Hátíðasal

Sólstafir á Háskólatónleikum í Hátíðasal - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
25. mars 2022 11:30 til 12:30
Hvar 

Aðalbygging

Hátíðarsalur

Nánar 
Aðgangur ókeypis

Það er með miklu stolti sem Háskóli Íslands kynnir rokksveitina Sólstafi til leiks í Háskólatónleikaröðinni en tónleikar sveitarinnar fara fram föstudaginn 25. mars kl. 11.30 í Hátíðasal Aðalbyggingar.

Sveitin á rætur í hinu svokallaða svartþungarokki en snemma var sveigt inn á ókunnar lendur og þróun tónmálsins hefur verið ævintýraleg allar götur síðan. Í dag er sveitin dýrkuð og dáð á alþjóðavettvangi, hefur farið í tónleikaferðalög um allan heim, leikið með virtustu öfgarokkssveitum samtímans og er óefað með farsælustu rokksveitum Íslandssögunnar, sé litið til þyngri afbrigða þess geira. Tónleikar þessir eru því ekkert minna en hvalreki fyrir aðdáendur framsækinnar og markaþenjandi rokktónlistar.

Tónleikarnir fara fram föstudaginn 25. mars og hefjast leikar kl. 11.30. Sólstafir leika í Hátíðasal Aðalbyggingar og það er eitthvað skáldlega rétt við það segir umsjónarmaður. Tónleikunum verður einnig streymt og hægt verður að horfa á þá síðar í upptökuformi. Hvort sem þú ert í borginni, úti á landi eða úti í heimi getur þú notið hinna fögru tóna Háskólatónleikaraðarinnar og upplifað stemninguna í skólanum. Allir velkomnir á staðinn á meðan húsrými leyfir og aðgangur gjaldfrjáls.

Slóð á streymið má finna hér

Háskólatónleikaröðin hóf göngu sína með nýjum áherslum haustið 2020 og hafa listamenn af alls kyns toga troðið upp. Tónleikunum hefur öllum verið streymt með glæsibrag og má nálgast upptökur hér:

Nánar um Háskólatónleikaröðina

Um áratugabil, og raunar í hálfa öld, hefur það verið hefð í Háskóla Íslands að standa fyrir svofelldum Háskólatónleikum. Um reglulega viðburði er að ræða, á haust- og vorönn, og fara þeir fram í byggingum háskólans. Umsjónarmaður tónleikaraðarinnar og listrænn stjórnandi er dr. Arnar Eggert Thoroddsen og segist hann styðjast við slagorðið „Háskóli fyrir alla - Tónlist fyrir alla“. Fólk geti því búist við tónlist sem tilheyri alls kyns geirum, svosem poppi/rokki, djass, klassík og bara því sem álitlegt þykir hverju sinni.

Það er með miklu stolti sem Háskóli Íslands kynnir rokksveitina Sólstafi til leiks í Háskólatónleikaröðinni en tónleikar sveitarinnar fara fram föstudaginn 25. mars kl. 11.30 í Hátíðasal Aðalbyggingar.

Sólstafir á Háskólatónleikum í Hátíðasal