Skip to main content

Miðbiksmat í jarðfræði - Byron Fabian Pilicita Masabanda

Miðbiksmat í jarðfræði - Byron Fabian Pilicita Masabanda - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
11. maí 2023 10:00 til 12:00
Hvar 

Askja

Fundarherbergi 3.hæð

Nánar 
Aðgangur ókeypis

Heiti ritgerðar: Samspil vökva og bergs í grennd við súr og basísk innskot (Fluid rock-interaction in the vicinity of felsic and mafic intrusions)

Doktorsefni: Byron Fabian Pilicita Masabanda

Doktorsnefnd: 
Enikö Bali, dósent við Jarðvísindadeild
Guðmundur Heiðar Guðfinnsson, fræðimaður við Jarðvísindastofnun
Sigurður Garðar Kristinsson, jarðfræðingur hjá ÍSOR
Guðmundur Ómar Fridleifsson, jarðfræðingur

Ágrip

Jarðskorpan á Íslandi er aðallega byggð upp af gosbergi og innskotum. Síðarnefndu myndanirnar eru helsti varmagjafi háhitakerfa. Jarðhitaorka er mikilvæg fyrir nútímalíf á Íslandi og er bæði nýtt til raforkuframleiðslu og upphitunar. Borholur IDDP-verkefnisins (í Kröflu og á Reykjanesi) voru hannaðar til að ná niður í jarðhitavökva í yfirmarksástandi og var ætlunin að rannsaka þær sem mögulegan háorkugjafa. Hins vegar urðu nokkur vandamál meðan á borun holnanna stóð og enn ríkir óvissa um hvernig hægt er að nýta hávermisvökva í grennd við kvikuinnskot í framtíðinni.

Þetta sýnir nauðsyn þess að rannsaka kulnuð djúpt rofin jarðhitakerfi til að öðlast betri skilning á vökvaferlum við ítrustu aðstæður. Hið mikið rannsakaða megineldstöð Geitafell á Suðausturlandi er með kulnað háhitakerfi sem líkist virka jarðhitakerfinu í Kröflu, en Geitafell er rofið niður á um 2 km dýpi miðað við upphaflegt yfirborð. Rofið hefur búið til góðar opnur af súrum og basískum innskotum í snertingu við basískt grannberg.

Tilgangurinn með þessu verkefni er að fá betri skilning á efnaflutningsferlum í grennd við basískt og súrt innskot innan Geitafellseldstöðvarinnar. Sýni voru tekin á skilum tveggja basískra myndana í tveimur opnum nærri bænum Hoffelli, en ferli á mörkum súrs innskots voru rannsökuð með því að skoða borsvarf úr fimm rannsóknaholum þar nærri. Vökvaflutningsferli nærri snertiflötum innskotanna hafa verið greind með jarðefnafræði aðal- og snefilefna, steindasamsetningu og rannsóknum á vökvainnlyksum. Niðurstöður sýna að a) hlutbráðnum á basíska grannberginu vegna innskots á basískri kviku er mikilvægasta háhitaferlið fyrir efnaflutning, b) með þéttri sýnasöfnun nærri snertiflötum er hægt að skilja á milli háhitaferla og síðari stiga lághitaferla og c) með hjálp vökvainnlyksna hefur verið hægt að greina milli nokkurra (a.m.k. fjögurra) mismunandi vökvakynslóða við myndun granítinnskotsins. Þessi rannsókn mun auka skilning á efnaflutningi umhverfis súr innskot á Íslandi. Í heild geta þessar niðurstöður gefið mikilvægar upplýsingar fyrir hönnun IDDP-3 borholunnar á Hengilssvæðinu, en bæði basísk og súr innskotavirkni er einnig algeng í þeirri megineldstöð.