Skip to main content

Miðbiksmat í jarðfræði - Araksan Ahmed Aden

Miðbiksmat í jarðfræði - Araksan Ahmed Aden - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
19. maí 2023 11:00 til 13:00
Hvar 

Askja

N-129

Nánar 
Aðgangur ókeypis

Hlekkur á streymi: https://eu01web.zoom.us/j/62540296093

Heiti ritgerðar: Ný innsýn í þróun Asal-Ghoubbet-sprungubeltisins í Lýðveldinu Djibútí.

Doktorsefni: Araksan Ahmed Aden

Doktorsnefnd: 

Eniko Bali, dósent, Jarðvísindadeild HÍ.
Guðmundur H. Guðfinnsson, fræðimaður, Jarðvísindastofnun HÍ.
Gylfi Páll Hersir, jarðeðlisfræðingur, Íslenskar orkurannsóknir.
Iwona Galeczka, jarðefnafræðingur, Íslenskar orkurannsóknir.
Kayad Moussa, forstjóri Geothermal Energy Development Office (ODDEG), Djibouti.

Ágrip

Afar-lægðin myndaðist þar sem saman koma þrjú stór sprungukerfi: gliðnunarkerfi meginlands Austur-Afríku og úthafshryggir í Rauðahafi og Adenflóa. Nokkrar virk en ótengd sprungustykki eru í lægðinni. Asal-Ghoubbet-sprungubeltið er eitt þeirra. Það er einn kafli sem myndast hefur við að Adenflóahryggurinn hefur teygt sig til vesturs upp á land inn í Afar-lægðina. Í þessu sprungubelti innan sprungukerfis hefur verið kvikuvirkni og tektónískar hreyfingar yfir þróunarsögu sem varað hefur um 1 milljón ára. Tiltölulega nýlega, eða í nóvember árið 1978, varð vikulangt basaltsprungugos sem leiddi til myndunar Ardoukôba-eldfjallsins. Vegna mikillar virkni og staðsetningar hafa jarðhitarannsóknir verið gerðar á svæðinu frá áttunda áratug síðustu aldar fram að þessu. Fyrstu sex holurnar voru boraðar á árunum 1975 til 1988. Þeirra á meðal eru holur Asal 1, 2, 3, 4 og 6, staðsettar á Gale-Le-Koma-svæðinu, og Asal 5, á því sem í dag kallast Asal-Fiale-svæði. Með nýjum jarðfræði- og jarðeðlisfræðirannsóknum á árunum 2008 til 2017 hófust boranir að nýju með holu GLC-1 á Gale-Le-Koma-svæðinu árið 2016 og Fiale 1, 2 og 3 árin 2018 og 2019. Þó miklar rannsóknir á sviði jarðfræði, jarðefnafræði og jarðeðlisfræði hafi verið gerðar á svæðinu vantar enn þá nákvæmar upplýsingar um þróun kvikugeyma undir Asal-Ghoubbet-sprungubeltinu. Þar að auki hafa nýlegar jarðhitarannsóknir, þar með taldar boranir fjölda holna á Asal-Fiale- og Gale-Le-Koma-jarðhitasvæðunum, aukið áhuga að kanna betur eiginleika hugsanlegra jarðhitageyma. Því er þörf á að uppfæra hugmyndalíkan svæðisins með nýjum upplýsingum til að lýsa þróun jarðhitakerfanna sem þar eru. Ákvarðanir á hitastigi og þrýstingi við þróun kviku nýtast vel til skilnings á hegðun kvikukerfa og á kvikuferlum. Reiknað hitastig veitir mikilvæga innsýn, svo sem eins og varðandi hitabreytingar á kvikunni. Hins vegar fæst áætlað dýpi niður á kvikugeyma með reiknuðum þrýstingi. Með þessum tveimur gerðum útreikninga fást hagnýtar upplýsingar varðandi ástand kvikukerfa á eldvirkum svæðum og hvaða þýðingu það hefur fyrir jarðhitanýtingu. Markmið þessarar rannsóknar er í fyrsta lagi að skýra betur ástand kvikugeymisins undir sprungubeltinu og þróun hans með því að gera útreikninga með hita- og þrýstimælum, þar sem notuð er efnasamsetning bráðar og frumsteinda, þ.e. ólivíns, klínópýroxens og plagíóklass. Í öðru lagi er samspil vökva og bergs rannsakað með því að greina ummyndun á steindum af völdum jarðhita. Til að greina efnasamsetningu og breytingar á hitastigi jarðhitavökvans sem veldur ummyndun innan jarðhitageymisins eru gerðar Raman-litrófsmælingar og mælingar á vökvainnlyksum í kvarsi úr rannsóknaborholum. Nýjar niðurstöður og tiltæk borholugögn verða notuð til að búa til nýtt hugmyndalíkan. Þetta nýja líkan gæti orðið gagnlegt fyrir frekar rannsóknir og boranir í Asal-Ghoubbet-sprungubeltinu.

Araksan Ahmed Aden

Miðbiksmat í jarðfræði - Araksan Ahmed Aden