Skip to main content

Doktorsvörn í læknavísindum - Tómas Andri Axelsson

Doktorsvörn í læknavísindum - Tómas Andri Axelsson - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
17. mars 2023 13:00 til 16:00
Hvar 

Aðalbygging

Hátíðasalur

Nánar 
Aðgangur ókeypis

Föstudaginn 17. mars 2023 ver Tómas Andri Axelsson læknir doktorsritgerð sína í læknavísindum við Læknadeild Háskóla Íslands. Ritgerðin ber heitið: Árangur eftir kransæðahjáveituaðgerðir. Outcomes following coronary artery bypass surgery.

Andmælendur eru dr. Ivy Modrau, dósent og hjartaskurðlæknir við Háskólasjúkrahúsið í Árósum, og dr. Katrín Ragna Kemp Guðmundsdóttir, hjartalæknir á Landspítala og Hjartamiðstöðinni.

Umsjónarkennari og leiðbeinandi var Tómas Guðbjartsson, prófessor við Læknadeild Háskóla Íslands og yfirlæknir á Landspítala. Auk hans sátu í doktorsnefnd Arnar Geirsson, prófessor við Yale háskólasjúkrahúsið í New Haven, Karl Andersen og Sigurbergur Kárason, báðir prófessorar við læknadeild.

Dr. Þórarinn Guðjónsson, prófessor og deildarforseti Læknadeildar, stjórnar athöfninni sem fer fram í Hátíðasal Háskóla Íslands og hefst kl. 13.00.

Ágrip

Kransæðasjúkdómur er algengasta dánarorsökin á heimsvísu. Meðal alvarlegra fylgikvilla sjúkdómsins eru drep í hjartavöðva, hjartabilun, alvarlegar hjartsláttartruflanir og skyndidauði. Kransæðahjáveituaðgerð er talin besta meðferðin við dreifðum kransæðasjúkdómi eða þrengslum í vinstri höfuðstofni. Kransæðahjáveituaðgerð er algengasta opna hjartaskurðaðgerðin í heiminum og mikilvægt er að kanna afdrif þeirra sjúklinga sem gangast undir hana. Doktorsverkefnið er byggt á fjórum vísindagreinum sem allar eru birtar í virtum erlendum vísindaritum. Markmiðið var að kanna árangur af kransæðahjáveituaðgerðum og afdrif skilgreindra undirhópa sjúklinga sem gangast undir slíkar aðgerðir, m.a. sjúklinga yngri en 50 ára, þá með sykursýki og sjúklingar sem gengust undir bráðar kransæðahjáveituaðgerðir.Allar rannsóknir voru afturskyggnar hóprannsóknir  og tvær þeirra  fjölsetra rannsóknir. Rannsóknartímabilin voru mismunandi milli rannsókna en tóku til sjúklinga sem gengust undir aðgerðina frá janúar 2001 og fram til loka árs 2016. Rannsóknirnar sýndu að sjúklingar sem gangast undir hefðbundna kransæðahjáveituaðgerð á Íslandi, þar sem vinstri brjóstholsslagæð var tengd á framveggsgrein hjarta og ganglimsbláæð notuð á aðrar móttökuæðar, höfðu hlutfallslega lifun næstum því sambærilega við íslenskt þýði af sama aldri og kyni. Þrjátíu daga dánartíðni sjúklinga með sykursýki var aukin og sykursýki sjálfstæður áhættuþáttur fyrir síðri lifun og hærri tíðni langtíma fylgikvilla eftir aðgerð. Sjúklingum sem voru yngri en 50 ára vegnaði vel eftir kransæðahjáveitu og höfðu 85% þeirra enga langtímafylgikvilla fimm árum frá aðgerð. Sjúklingar sem gengust undir bráðar kransæðahjaveituaðgerðir voru með hærri 30 daga dánartíðni en langtímalifun þeirra sem lifðu aðgerðina var góð. Niðurstöðurnar veita mikilvægar upplýsingar um afdrif og áhættu sjúklinga sem gangast undir kransæðahjáveituagerðir og munu vonandi stuðla að bættum árangri þeirra.

English abstract

Coronary artery disease is the leading cause of death worldwide and can lead to ischemic chest pain, myocardial infarction, heart failure, arrhythmia, and sudden death. Coronary artery bypass grafting (CABG) is the recommended treatment for multivessel coronary or significant left main stem disease. The procedure restores blood flow to the myocardium by bypassing diseased segments with arterial and venous graft conduits. Although research on CABG is vast, there is a lack of data on specific patient subgroups that may be subject to worse postoperative outcomes. The thesis is based on four papers that all are published in international scientific journals. with aims of examining the outcomes following CABG in specific subgroups of patients; including individuals between 18 and 50 years of of age, patients with diabetes, and patients who underwent emergency and salvage CABG. All of the studies were retrospective cohort studies, with two of them being multicenter studies. The study periods varied between the studies but involved patients who were operated on between January 2001 and December  2016. In summary the studies showed that the relative survival of patients that underwent CABG in Iceland between January 2001 and December 2016 was close to the general population of the same age and sex. Younger patients generally have good outcomes following CABG and that patients with diabetes had higher postoperative mortality and worse long-term survival. Finally emergency and salvage operations were shown to be high-risk operations, especially salvage procedures. However, for those patients that survived the early postoperative period long-term outcomes were good.

Um doktorsefnið

Tómas Andri Axelsson er fæddur árið 1988 í Reykjavík. Hann lauk stúdentsprófi af náttúrufræðibraut frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 2008 og sex árum síðar embættisprófi við Læknadeild Háskóla Íslands. Hann stundar nú sérnám í þvagfæraskurðlækningum á Danderyd-sjúkrahúsinu í Stokkhólmi í Svíþjóð. Foreldrar hans eru Axel Finnur Sigurðsson hjartalæknir og Elínborg Sigurðardóttir hjúkrunarfræðingur. Tómas er í sambúð með Kötlu Þorvaldsdóttur verkfræðingi og eiga þau tvo syni, Axel Krumma og Ísak Rafn.

Tómas Andri Axelsson ver doktorsritgerð sína í læknavísindum við Læknadeild Háskóla Íslands föstudaginn 17. mars.

Doktororsvörn í læknavísindum - Tómas Andri Axelsson