Skip to main content

Breytt afstaða til samkynhneigðar. Viðhorf Íslendinga yfir tíma

Breytt afstaða til samkynhneigðar. Viðhorf Íslendinga yfir tíma - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
3. nóvember 2022 12:00 til 13:00
Hvar 

Þjóðminjasafn Íslands

Nánar 
Aðgangur ókeypis

Sigrún Ólafsdóttir, Silja Bára R. Ómarsdóttir og Sunna Símonardóttir  flytja fimmta fyrirlestur í hádegisfyrirlestraröð RIKK – Rannsóknastofnunar í jafnréttisfræðum við Háskóla Íslands á haustmisseri 2022 en yfirskrift raðarinnar er sú sama og á vormisseri: Hinsegin Ísland í alþjóðlegu samhengi. Fyrirlesturinn nefnist „Breytt afstaða til samkynhneigðar. Viðhorf Íslendinga yfir tíma“ og verður haldinn kl. 12.00 þann 3. nóvember í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands og sýndur í beinu streymi.

Viðhorf til samkynhneigðar hafa verið jafn breytileg og hugmyndir fólks um samkynhneigð. Í mörgum samfélögum hefur samkynhneigð verið skilgreind sem synd, glæpur, eða sjúkdómur, en með aukinni baráttu og auknum sýnileika er víðar farið að líta á  hana sem eina vídd fjölbreytilegs samfélags. Ísland er áhugavert tilvik að til að skoða, þar sem réttindabarátta samkynhneigðra hófst tiltölulega seint, a.m.k. í opinbera rýminu, en margvísleg réttindi náðust á stuttum tíma, þótt enn eimi eftir af fordómum og hindrunum víða í samfélaginu. Á meðan stefnumótun og réttindi eru mikilvægur hluti af umræðunni þá skipta viðhorf almennings grundvallarmáli til að skilja þær samfélagsbreytingar sem hafa átt sér stað undanfarin 40 ár. Við notum gögn úr Evrópsku lífsgildakönnuninni (European Values Survey) til að varpa ljósi á viðhorf Íslendinga til samkynhneigðar og spyrjum þriggja rannsóknarspurninga: 1) hvernig hafa viðhorf Íslendinga til samkynhneigðar þróast frá 1981 til 2017; 2) Er munur á milli hópa varðandi viðhorf til samkynhneigðar; og 3) hvernig eru viðhorf Íslendinga í alþjóðlegu samhengi. Í greininni er horft til þess hvernig alþjóðleg viðmið hafa skotið rótum í íslensku samfélagi, með hliðsjón af hugmyndum um útbreiðslu viðmiða (e. norm diffusion). Bráðabirgðaniðurstöður sýna að viðhorf hafa breyst hraðar á Íslandi en í flestum öðrum Evrópulöndum, þar sem viðhorf voru með þeim íhaldssömustu árið 1981 en orðin þau frjálslyndustu árið 2008 og 2017. Að auki kemur fram munur á milli þjóðfélagshópa og tengjast meðal annars aldri, kyni og menntun.

Sigrún Ólafsdóttir er prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands. Í rannsóknum sínum leggur hún áherslu á heilsu, geðheilsu, stjórnmál og menningu og byggir stór hluti rannsókna hennar á samanburði á milli landa. Hún stýrir rannsóknarverkefni um viðhorf og reynslu Íslendinga af ójöfnuði í samanburði yfir tíma og á milli landa og leiðir þátttöku Íslands í þremur stórum alþjóðlegum könnunum. Rannsóknir hennar hafa birst í mörgum virtustu félagsfræðitímaritum heims, svo sem American Journal of Sociology og Journal of Health and Social Behavior.

Silja Bára R. Ómarsdóttir er alþjóðastjórnmálafræðingur og prófessor í alþjóðasamskiptum við Stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands. Hún stundar rannsóknir á kyn- og frjósemisréttindum og íslenskum utanríkis- og öryggismálum. Silja Bára hefur m.a. gefið út bókina Rof: Frásagnir kvenna af fóstureyðingum (með Steinunni Rögnvaldsdóttur).

Sunna Símonardóttir er nýdoktor og aðjúnkt í félagsfræði við Háskóla Íslands. Rannsóknir hennar beinast meðal annars að foreldrahlutverkinu, kynjuðum væntingum til foreldra, foreldramenningu, reynslu einstaklinga af foreldrahlutverki og völdu barnleysi. Hún stýrir nú (ásamt öðrum) rannsóknarverkefninu Áhrif stefnumótunar og foreldramenningar á barneignir á Íslandi þar sem leitast verður við að skoða þær breytingar sem hafa orðið á fæðingartíðni á síðastliðnum árum og öðlast skilning á ástæðum þeirra.

Frekari upplýsingar um fyrirlestraröðina má finna á heimasíðu RIKK – rikk.hi.is – og Facebook-síðu stofnunarinnar. Upptaka af fyrirlestrinum verður gerð aðgengileg að honum loknum.