Skip to main content
3. september 2024

Vísindamaður við HÍ fær tvo styrki úr Tónlistarsjóði

Vísindamaður við HÍ fær tvo styrki úr Tónlistarsjóði - á vefsíðu Háskóla Íslands

Jack Armitage, tónlistarmaður og nýdoktor við rannsóknarverkefnið Intelligent Instruments Lab við Háskóla Íslands, hlaut á dögunum tvo styrki úr nýstofnuðum Tónlistarsjóði. Styrkir úr sjóðnum voru afhentir á athöfn í húsakynnum Tónlistarmiðstöðvar í Hafnarstræti.

Styrkirnir tengjast rannsóknum sem Jack hefur unnið innan Intelligent Instruments Lab en eru jafnframt hluti af verkefnum Afhverju Ekki, nýs fyrirtækis sem Jack hefur sett á laggirnar. Verkefnin sem um ræðir snúast um

  • Að búa til samfélag forritara sem forrita tónlist í rauntíma, Live coding. Styrkupphæð nemur 158.000 kr.
  • Útgáfu hljómplötunnar Strengjavera. Styrkupphæð nemur 130.000 kr.

Samfélag rauntímaforritunar á Íslandi

Live coding er vaxandi hreyfing innan listaheimsins þar sem forritun verður hluti af tónlistarflutningi og listamenn deila með sér ókeypis hugbúnaði fyrir tónlist, innsetningar og önnur listform. Jack og samstarfsfólk hefur staðið fyrir bæði vinnustofum og tónleikum tengdum rauntímaforritun allt frá árinu 2022 og í gegnum verkefnið sem hlaut styrk er ætlunin að bjóða sumum bestu rauntímaforriturum heims til að troða upp hér á landi. Jafnframt er ætlunin að nýta styrkinn til að standa fyrir ókeypis vinnustofum og koma á fót samfélagi hér á landi sem getur í senn haft áhrif á tónlist og menntun.

Jack og samstarfsfólk stóð fyrir fjölbreyttum viðburðum tengdum rauntímaforritun í júní á sama tíma og International Conference on Live Coding fór fram. Þá stendur til að halda viðburð í haust eða vetur þar sem áhersla verður á að kynna formið fyrir ungu fólki. Reykjavík Grapevine fjallaði um viðburði sumarsins og kallaði þá töfrandi og frumlega og óneitanlega einstaka.

Áhugasöm um rauntímaforritun geta haft samband við Jack

Listamennirnir í Databots á viðburðir á vegum Af hverju Ekki í sumar. Mynd: Patrik Ontkovic.

Platan Stengjavera

Platan Strengjavera hefur að geyma tónlist eftir Jack en hún byggist á skapandi gervigreindarinnsetningu með sama nafni. Innsetningin er kerfi sem stjórnar sér sjálft, eða lífgervigreindarforrit (ens. artificial life program). Þar er nýjasta tækni nýtt til að kalla fram tónlist á stórum flygli. Innsetningin var sett upp bæði á The AI Music Creativity Conference  (AIMC) í Brighton og í Norræna húsinu í fyrra. 

Frá innsetningunni Strengjaveru á AIMC 2023 í Brighton en þar var platan tekin upp. 

Á plötunni verður að finna list eftir listamanninn og kvikmyndagerðarkonuna Örnu Beth og íslenska texta eftir Maríu Elísabetu Bragadóttur rithöfund.

Jack Armitage,