Skip to main content

Notkun þjóðernis- og mæðrahyggju í og gegn alþjóðlegri orðræðu um réttindi barna

Notkun þjóðernis- og mæðrahyggju í og gegn alþjóðlegri orðræðu um réttindi barna  - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
18. október 2023 12:00 til 13:00
Hvar 

Stakkahlíð / Háteigsvegur

H - 207

Nánar 
Aðgangur ókeypis

Í erindinu mun Erica Burman fjalla um foreldrahlutverkið í norrænu samhengi og leggur þar út frá  þekktu dómsmáli milli móður og norska ríkisins um forræði yfir barni hennar. Málinu var gerð skil í myndinni Mrs Chatterjee vs Norway (leikstjóri Ashima Chibber, Zee studios, 2023). Í umfjöllun sinni nálgast hún viðfangsefnið á þrenns konar hátt: Afbyggingu á hugmyndafræði þroskasálfræði og  hugmyndum um bernskuna og þjóðríki auk þess sem hún greinir málið út frá verklagi sem hún hefur þróað og kallar “barnið sem aðferð”. Hún snýst um að greina hvaða stöðu barnið hefur í félagslegu og pólítísku samhengi og þær afleiðingar sem þessi staða hefur fyrir börnin sjálf.  

Fyrirlestur Ericu er gagnlegt innlegg inn í umræðu um þarfir barna og hlutverk og skyldur foreldra í íslensku samfélagi. Ísland eins og Norðurlöndin er áhugaverður vettvangur því að hér hefur verið lögð áhersla á að velferðarkerfið styðji við fjölskyldur og flestar mæður eru útivinnandi. Hún vekur okkur til umhugsunar um það hvernig hugmyndir og orðræður t.d. sérfræðinga og stofnana sem eru sprottnar úr öðru samhengi falla að veruleika foreldra og barna á Íslandi.

Erica Burman er prófessor í menntunarfræðum við Háskólann í Manchester. Erica Burman var heiðruð fyrir framlag sitt til sálfræði af Breska sálfræðifélaginu árið 2016 (Honorary lifetime fellowship). Rannsóknir hennar hafa einkum verið á sviði gagnrýninnar þroska og menntunarsálfræði (critical developmental and educational psychology)  þar sem hún hefur m.a. skoðað hvernig hugmyndir um barnæskuna og barnið taka mið af síðnýlenduvæðingu og kynjapólitík. Erica Burman er hvað þekktust fyrir bók sína Deconstructing Developmental Psychology sem hefur verið gefin út þrisvar sinnum nú síðast 2017. Í þeirri bók setur hún hugmyndir þroskasálfræðinnar í félagslegt, menningarlegt og pólitískt samhengi. Hún skoðar m.a. þau sérfræðihugtök og kenningar sem hegðun foreldra og barna eru skoðuð og skilin út frá og hvernig þau hafa mótað stefnumótun og hugmyndir um velferð barna.