Skip to main content

Meistarafyrirlestur í jarðeðlisfræði - Catherine Grace O'Hara

Meistarafyrirlestur í jarðeðlisfræði - Catherine Grace O'Hara - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
25. ágúst 2023 13:00 til 14:30
Hvar 

Askja

Stofa 367

Nánar 
Aðgangur ókeypis

Viðburður á Zoom

Catherine Grace O'Hara flytur fyrirlestur um verkefni sitt til meistaraprófs í jarðeðlisfræði. Heiti verkefnisins er Jarðskorpuhreyfingar við Öskju: áhrif landslags og misleitni fjaðureiginleika jarðskorpu í þrívíddarbútalíkani á bestun stika upptakalíkans hreyfinga (Estimating Deformation Source Parameters Using a 3D Elastic Finite Element Model Including Topography and Crustal Heterogeneity at Askja, Iceland)

Leiðbeinendur: Halldór Geirsson,dósent við Jarðvísindadeild og Sonja Heidi Maria Greiner, doktorsnemi við Norrænu eldfjallastöðina

Prófdómari: James Hickey, dósent við University of Exeter, Bretlandi.

Ágrip

Mælingar á jarðskorpuhreyfingum veita mikilvægar upplýsingar um ýmis ferli í iðrum eldfjalla. Líkanreikningar bæta skilning okkar á þessum ferlum, hvort sem um er að ræða landris eða landsig. Síðasta eldgos í Öskju varð árið 1961. Aflögunarmælingar til eftirlits með Öskjusvæðinu, voru gerðar árlega, 1966-1972 og síðan frá 1983. Fyrstu mælingarnar gáfu til kynna landris og síðan landsig frá u.þ.b. 1973, allt þar til landris hófst að nýju sumarið 2021. Síðustu mælingar, í ágúst 2023, sýna að landris er enn í gangi.

Fjaðrandi, þrívítt aflögunarlíkan af Öskju sem líkir eftir landslagi og misleitnu jarðskorpulíkani byggðu á jarðskjálftamælingum var lagt til grundvallar líkanreikningum með hugbúnaðinum COMSOL Multiphysics. Mikilvægt er að líkanið sé þrívítt þar sem landslag hefur staðbundin áhrif á aflögunarmerkið, sérstaklega á svæðum með miklum landfræðilegum halla. Misleitni jarðskorpunnar hefur hins vegar víðtækari áhrif: hún magnar og þrengir aflögunarsviðið miðað við einsleitt flatt jarðlíkan.

Reiknilíkanið var notað með bestunaraðferðum innan COMSOL, ásamt GPS gögnum frá Öskju sem spanna landrisið frá september 2021 til september 2022, til að leysa fyrir bestu staðsetningu, dýpt og þrýstingsbreytingu upptaka aflögunar. Niðurstöður líkanreikninganna gáfu til kynna rismiðju á um 3.6 km dýpi skammt norðvestur af Öskjuvatni, um 1 km dýpra en fékkst með einföldum líkönum með einsleitu hálfrúmi.

Þrívíð reiknilíkön af eldfjöllum gera okkur kleift að meta orsakir jarðskorpuhreyfinga með meiri nákvæmni en áður og bæta þannig skilning okkar á innri gerð og virkni eldfjalla. Nýr skilningur og þekking er mikilvæg til mats á náttúruvá á óróleikatímabilum í framtíðinni.