Skip to main content

Minjavísir: Örnefni sem vísbending um minjar

Minjavísir: Örnefni sem vísbending um minjar  - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
25. janúar 2023 12:00 til 13:00
Hvar 

Zoom

Nánar 
Aðgangur ókeypis

Ómar Valur Jónasson, verkefnastjóri fornleifaskráningar hjá Minjastofnun Íslands, flytur fyrirlestur í fyrirlestraröð Félags fornleifafræðinga og námsbrautar í fornleifafræði við Háskóla Íslands. Erindið nefnir Ómar Minjavísir: Örnefni sem vísbending um minjar.

Þessi fyrsti fyrirlestur í röðinni á þessu ári verður haldinn á Zoom 25. janúar kl. 12-13. Smellið hér til að fara á fyrirlesturinn. Á þessu misseri verður fyrirlestrunum ýmist streymt á Zoom eða þeir haldnir í stofu 023 í Veröld.

Um erindið

Fornleifaskráning er mikilvægt tól í minjavernd. Forsenda þess að geta verndað fornleifar er að hafa vitneskju um staðsetningu þeirra. Markmið fornleifaskráningar er annars vegar að tryggja verndun menningararfsins og hins vegar að auðvelda bæði sveitarfélögum og Minjastofnun að móta stefnu í minjavörslu. Erfitt getur þó reynst að taka afstöðu í málum er varða minjavörslu þegar einungis brot af landinu hefur verið skráð.

Fornleifaskráning er þríþætt ferli sem byggist upp af heimildavinnu, vettvangsskráningu og miðlun. Fyrsti þátturinn, heimildavinna, felur í sér að safna saman öllum þeim vísbendingum sem er að finna um tilvist fornleifa á gefnu svæði. Þessar upplýsingar leynast í hinum ýmsum gögnum. Nánast undantekningarlaust er notast við örnefnaskrár. Skráð örnefni eru því mikilvægur partur af allri fornleifaskráningu. Landmælingar Íslands og Árnastofnun hafa lengi unnið að því að búa til stafrænan gagnagrunn sem heldur utan um staðsetningar og lýsingar á þessum örnefnum.

Í fyrirlestrinum verður gagnasettið Minjavísir kynnt. Það er tilkomið vegna vilja Minjastofnunar til að nýta sér þennan örnefnagrunn til að mynda yfirsýn yfir mögulega minjastaði í landinu og aðstoða við þá heimildavinnu sem fer fram í tengslum við fornleifaskráningu.

Ómar Valur Jónasson, verkefnastjóri fornleifaskráningar hjá Minjastofnun Íslands.

Minjavísir: Örnefni sem vísbending um minjar