Skip to main content

Málvísindakaffi: Þegar upp er staðið ...

Málvísindakaffi: Þegar upp er staðið ... - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
14. október 2022 12:00 til 13:00
Hvar 

Árnagarður

Stofa 303

Nánar 
Aðgangur ókeypis

Fyrsta Málvísindakaffi vetrarins verður haldið í stofu 303 í Árnagarði föstudaginn 14. október kl. 12-13. Þar flytur Margrét Guðmundsdóttir erindi um doktorsritgerð sína, Mál á mannsævi: 70 ára þróun tilbrigða í framburði – einstaklingar og samfélag. Erindið ber yfirskriftina Þegar upp er staðið ...

Stuttur útdráttur:

Í ritgerðinni Mál á mannsævi er fjallað um þróun framburðar. Athyglinni er beint að tveimur svæðum á landsbyggðinni og fjórum tilbrigðapörum. Unnið er með gögn úr þremur framburðarrannsóknum á tvo nokkuð ólíka vegu. Í 4. kafla, Sýndartímasamanburður: Mál og samfélag, er athyglinni beint að tímabilinu frá rannsókn Björns Guðfinnssonar á 5. áratug 20. aldar fram að RÍN-rannsókninni, Rannsókn í íslensku nútímamáli, á 9. áratugnum. Þetta voru viðamiklar rannsóknir og unnið er úr þeim á ítarlegri hátt en áður hefur verið gert og reynt að varpa ljósi á þróun landshlutabundinna afbrigða á kjarnasvæðum sínum á heildina litið. Í 5. kafla, Rauntímasamanburður: Fólk í fyrirrúmi, er byggt á fámennara úrtaki RAUN-rannsóknarinnar, Málbreytingar í rauntíma í íslensku hljóðkerfi og setningagerð, sem hófst árið 2010. Úrtakið var valið með það fyrir augum að gera svokallaðan rauntímasamanburð, skoða hvernig fólk hefði breytt framburði sínum yfir æviskeiðið. Þátttakendur voru því fullorðið fólk sem hafði áður tekið þátt í framburðarrannsókn, ýmist einni eða tveimur. Þetta úrtak, að viðbættri athugun á framburði norðlenskra ungmenna og nokkrum staðbundnum athugunum frá þessari öld, var þó einnig nýtt til að kanna almenna þróun landshlutabundnu afbrigðanna á síðustu áratugum. Ævibreytingar voru þó meginviðfangsefnið í 5. kafla og markmiðið að skoða hvort og þá að hvaða marki fullorðið fólk hefði tekið þátt í yfirstandandi málbreytingum. Skýringa var leitað með því að sækja í smiðju bæði félagsmálfræðinga og málkunnáttufræðinga.

Eins og gengur hafði ég við upphaf rannsóknarinnar ýmsar hugmyndir um hvernig verkið yrði. Sumar gengu eftir en aðrar ekki. Í þessu spjalli ætla ég að reifa einhverjar niðurstöður, en ekki síður segja frá því hvernig gögnin komu mér stundum á óvart og leiddu mig inn á áhugaverðar hliðargötur miðað við upphaflegar hugmyndir.

Margrét Guðmundsdóttir

Málvísindakaffi: Þegar upp er staðið ...