Skip to main content

Kosningaréttur fátækra 1903–1936

Kosningaréttur fátækra 1903–1936 - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
18. október 2022 16:00 til 17:00
Hvar 

Árnagarður

Stofa 311

Nánar 
Aðgangur ókeypis

Ragnheiður Kristjánsdóttir, prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands, flytur fyrirlestur í Málstofu í félags- og hagsögu sem hún nefnir „Kosningaréttur fátækra 1903-1936.“ 

Fyrirlesturinn fer fram í stofu 311 í Árnagarði, þriðjudaginn 18. október kl. 16:00-17:00.

Árið 1934 var numið úr stjórnarskrá ákvæði um að þeir sem skulduðu sveitarstyrk hefðu ekki kosningarétt. Segja má að þar hafi horfið síðustu leifar af þeim 18. og 19. aldar lýðræðishugmyndum sem gerðu ráð fyrir að kosningarétturinn væri ætlaður fjárhagslega sjálfstæðum körlum. Og af umræðum á Alþingi má draga þá ályktun að þessi breyting hafi þá þótt sjálfsögð. En sagan er flóknari, því ef þróun kosningaréttarins er skoðuð í tengslum við þróun fátækralöggjafarinnar kemur í ljós að í raun vildi löggjafinn áfram takmarka kosningarétt tiltekins hluta þeirra sem fengu félagslega aðstoð.

Hægt er að nálgast dagskrá Málstofu í félags- og hagsögu á haustmisseri vef Sagnfræðistofnunar. Málstofan er umræðuvettvangur fyrir hvers konar efni í félags- og hagsögu á hvaða tímabili sem er. Hún er með óformlegu sniði þar sem fólki gefst tækifæri til að kynna rannsóknir sínar, verk í vinnslu jafnt sem útgefin verk, prófa nýjar hugmyndir og kenningar eða taka fyrri rannsóknir til gagnrýnnar skoðunar. Á eftir framsögum er gefinn góður tími til fyrirspurna og almennra umræðna. Málstofan er á vegum kennara í sagnfræði og viðskiptafræði í Háskóla Íslands og umsjón hafa sagnfræðiprófessorarnir Erla Hulda Halldórsdóttir, Guðmundur Jónsson og Ragnheiður Kristjánsdóttir og Sveinn Agnarsson, prófessor í viðskiptafræði.

Ragnheiður Kristjánsdóttir.

Kosningaréttur fátækra 1903–1936