Skip to main content
21. apríl 2020

Félagsráðgjafarnemar gerast símavinir á tímum COVID-19

Nemendur við Félagsráðgjafardeild Háskóla Íslands hafa að undanförnu sinnt sjálfboðaliðastarfi á vegum velferðarsviðs Reykjavíkurborgar en þau taka þátt í verkefninu Spjöllum saman sem miðar að því að rjúfa einangrun aldraðra á þeim erfiðu tímum sem nú eru í samfélaginu vegna COVID-19-faraldursins.

Velferðarsvið Reykjavíkurborgar og Félagsráðgjafardeildar Háskóla Íslands eru í samstarfi um kennslu og rannsóknir á sviði velferðarmála og löng hefð er fyrir því að nemendur við deildina hljóti starfsþjálfun á velferðarsviði.

Að sögn Steinunnar Hrafnsdóttur, prófessors og varadeildarforseta Félagsráðgjafadeildar, kviknaði hugmynd hjá henni að nemendur í félagsráðgjöf gætu sinnt sjálfboðastarfi fyrir viðkvæma hópa á tímum COVID-19 og hafði hún því samband við Regínu Ásvaldsdóttir, sviðsstjóra velferðarsviðs, sem þótti tilvalið fyrir nemana að spreyta sig á því að gerast símavinir aldraðra á vegum borgarinnar. Auglýst var eftir nemum innan deildarinnar og nú sinna um 35 nemendur þessu sjálfboðaliðastarfi en er það skipulagt af verkefnastjóra símavina í samstarfi við Félagsráðgjafardeild. 

Ein þeirra er Ásdís Stella Löve Þorkelsdóttir sem er að ljúka BA-námi í greininni. „Ég sá þetta verkefni auglýst og vissi af góðu samstarfi Reykjavíkurborgar og Félagsráðgjafardeildar og langaði að leggja mitt af mörkum á þessum skrítnu tímum,“ segir Ásdís aðspurð um það hvers vegna hún hafi ákveðið að taka þátt í verkefninu, en auk nemendanna kemur starfsfólk borgarinnar og sjálfboðaliðar úr röðum eldri borgara að verkefninu.

Hringt er í allt fólk 85 ára og eldra sem býr einsamalt og hefur fengið þjónustu frá Reykjavíkurborg. Í símtalinu er líðan fólksins og aðstæður kannaðar um leið og rætt er um daginn og veginn. Símaspjallið kemur ekki í stað heimaþjónustu, heimahjúkrunar eða annrar þjónustu Reykjavíkurborgar heldur er það viðbót.

Nemendur við Félagsráðgjafardeild Háskóla Íslands hafa að undanförnu sinnt sjálfboðaliðastarfi á vegum velferðarsviðs Reykjavíkurborgar en þau taka þátt í verkefninu Spjöllum saman sem miðar að því að rjúfa einangrun aldraðra á þeim erfiðu tímum sem nú eru í samfélaginu vegna COVID-19-faraldursins. MYND/Reykjavíkurborg

Símtölin ekki síður gefandi fyrir nemendur

Ásdís hefur undanfarnar þrjár vikur tekið þátt í verkefninu. „Í þeim símtölum sem ég hef átt finnur maður fyrir miklum einmanaleika hjá fólki og það er orðið mjög óþreyjufullt eftir því að þessu ástandi ljúki. Það er náttúrlega búið að kippa því út úr rútínu þess og þeirri afþreyingu sem það er vant að stunda og ofan á það bætist að fjölskyldan getur ekki komið í heimsókn. En á sama tíma finnur maður fyrir miklu þakklæti fyrir símtölin, að geta leitt hugann að einhverju öðru en stöðugum fréttum og umræðum um COVID-19-faraldurinn. Við spjöllum um daginn og veginn og maður fær að heyra skemmtilegar sögur úr þeirra fortíð þannig að þetta gefur manni sjálfum ekki minna en þeim,“ segir Ásdís enn fremur.

Í námi sínu læra félagsráðgjafanemar m.a. ýmislegt áföll og sorg og kynnast úrræðum velferðarkerfisins og að sögn Ásdísar hefur menntun hennar búið hana vel undir þetta verkefni. „Í námskeiði um sálræna skyndihjálp lærðum við t.d. mikið um hvernig á að tala við viðkvæma hópa en það er sannarlega áfall og tekur á sálina að geta ekki fengið til sín fólk í heimsókn,“ segir Ásdís.

Reiknað er með að félagsráðgjafarnemarnir komi að verkefninu í sex vikur og munu þau sem það kjósa geta fengið starfið metið til eininga í námskeiði um sjálfboðaliðastarf næsta haust. Ásdís segir þó að hugsanlega lengist verkefnið komi til þess að samkomubannið og hömlur á samskiptum fólks verði áfram við lýði, eins og þríeykið góða, þau Víðir, Alma og Þórólfur, hafa ýjað að.

Aðspurð hvað hún taki með sér úr þessu verkefni segir Ásdís að það sé afar dýrmætt að fá tækifæri að kynnast mörgum mismunandi hópum og aðstæðum þeirra. „Maður fær líka dýpri innsýn inn í hóp aldraðra og hversdagsleika þeirra og það er mjög mikilvægt að mínu mati,“ segir hún.

Sjálf er Ásdís að brautskrást úr BA-námi í vor og aðspurð hvað taki þá við svarar hún að bragði: „Ég hef sótt um að hefja meistarnám til starfsréttinda í félagsráðgjöf í haust og vonandi kemst ég inn í það.“

Ásdís Stella Löve Þorkelsdóttir