Með fróðleik í fararnesti - Stjörnu- og norðurljósaskoðun
Kaldársel í Hafnarfirði
Sævar Helgi Bragason, vísindamiðlari hjá Háskóla Íslands, leiðir göngu við Kaldársel í Hafnarfirði sem helguð er himingeimnum. Ferðin er á vegum Ferðafélags Íslands og Háskóla Íslands og verður föstudaginn 19. janúar kl. 20.
Af hverju eru stjörnur mismunandi á litinn og hvers vegna sjást norðurljósin bara stundum? Sævar Helgi svarar þessum spurningum og fleiri í göngunni sem er ókeypis og opin öllum.
Þátttakendur hittast við skrifstofu Ferðafélags Íslands í Mörkinni 6 kl. 20 og aka í halarófu út fyrir borgarmörkin. Ferðinni er heitið að Kaldárseli í Hafnarfirði og þeir sem það vilja geta hitt hópinn þar um kl. 20.20. Það eru ekki ýkja mörg bílastæði í boði svo fólk þarf að leggja til beggja hliða við veginn, helst þvert, að minnsta kosti þar sem það er mögulegt.
Afar mikilvægt er að allir séu vel klæddir. Það má jafnvel stinga einhverri sessu eða gamalli frauðdýnu ofan í bakpokann því auðvitað er allra best að skoða himingeiminn liggjandi á jörðinni og þá er gott að liggja / sitja á einhverju sem einangrar rassinn frá jörðinni!
Auk þess að klæða sig afar vel mælum við með því að fólk taki með sér kíki og nesti, sérstaklega er gott að taka með sér eitthvað heitt á brúsa því í kuldanum er gott að fá heitan drykk í kroppinn.
Gert er ráð fyrir að ferðin taki um tvær klukkustundir.
Ferðin er hluti af samstarfsverkefni Ferðafélags Íslands og Háskóla Íslands sem ber nafnið Með fróðleik í fararnesti.
Þátttaka ókeypis og allir velkomnir. Ekkert að panta, bara mæta!
Sævar Helgi Bragason, vísindamiðlari hjá Háskóla Íslands, leiðir göngu við Kaldársel í Hafnarfirði sem helguð er himingeimnum. Ferðin er á vegum Ferðafélags Íslands og Háskóla Íslands og verður föstudaginn 19. janúar kl. 20.