Óháð ytri nefnd mun rannsaka Macchiarini málið
Tilkynning frá rektor Háskóla Íslands og forstjóra Landspítala:
Nú er lokið tveimur viðamiklum sjálfstæðum rannsóknum í Svíþjóð á þáttum hins svokallaða plastbarkamáls er snúa að klínískum og vísindalegum ferlum þeirra stofnana er aðkomu hafa að málinu.
Niðurstöður liggja fyrir í tveimur skýrslum og lúta einkum að Karolinsku stofnuninni og Karolinska sjúkrahúsinu í Stokkhólmi. Háskóli Íslands og Landspítali studdu rannsóknir þessar strax frá upphafi og hafa lagt til þeirra eftir því sem óskað hefur verið eftir. Í kjölfar þessara skýrslna telja Háskóli Íslands og Landspítali að nú skuli rýna niðurstöður og rannsaka hvort aðkoma íslenskra stofnana eða starfsmanna þeirra hafi verið athugaverð.
Í ljósi þessa verður skipuð sjálfstæð, óháð ytri nefnd. Hennar hlutverk verður m.a. að rýna niðurstöður, ræða við skýrsluhöfunda sænsku rannsóknanna og skoða sérstaklega aðkomu íslenskra stofnana að málinu.