Ný stjórn Stofnunar stjórnsýslufræða og stjórnmála
Ný stjórn Stofnunar stjórnsýslufræða og stjórnmála við Háskóla Íslands tók við stjórnartaumunum á stjórnarfundi 5. febrúar sl. Margrét S. Björnsdóttir, aðjúnkt við Stjórnmálafræðideild, tekur við sem formaður stjórnar af Þorgerði Einarsdóttur. Einnig tekur Arnar Þór Másson, skrifstofustjóri hjá forsætisráðuneytinu, við sæti Ragnhildar Arnljótsdóttur.
Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála er rannsóknar- og þjónustustofnun Stjórnmálafræðideildar Háskóla Íslands og hennar samstarfsaðila og starfar sem sjálfstæður aðili í tengslum við Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands.
Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála vinnur að því að skapa vettvang umræðu, fræðslu og rannsókna um stjórnsýslu og stjórnmál fyrir fagfólk jafnt sem áhugafólk. Stofnunin hefur sl. tíu ár gefið út ritrýnt fræðitímarit Stjórnmál og stjórnsýsla sem er opið öllum á vefnum. Stofnunin stendur á ári hverju fyrir styttri og lengri hagnýtum námskeiðum fyrir opinbera starfsmenn og stjórnendur, auk þess að halda fjölmarga málfundi, fyrirlestra og ráðstefnur auk annarra verkefna í samvinnu við aðila innan og utan Háskóla Íslands. Forstöðumaður er Sjöfn Vilhelmsdóttir.