Skip to main content
19. júní 2025

HÍ áfram á meðal 300 bestu á lista THE yfir háskóla með mest samfélagsáhrif

HÍ áfram á meðal 300 bestu á lista THE yfir háskóla með mest samfélagsáhrif - á vefsíðu Háskóla Íslands
  • Skólinn í 64. sæti yfir háskóla sem standa fremst í 13. heimsmarkmiðinu sem snertir aðgerðir í loftslagsmálum
  • HÍ hefur verið á University Impact Rankings frá upphafi
  • 2.500 skólar metnir og hafa aldrei verið fleiri

Háskóli Íslands heldur stöðu sinni og er áfram í 201.-300. sæti á lista tímaritsins Times Higher Education yfir þá háskóla sem hafa mest samfélagsleg og efnahagsleg áhrif út frá heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna (Times Higher Education University Impact Rankings). Aldrei hafa fleiri háskólar tekið þátt í matinu, eða yfir 2.500 frá 130 löndum.

Times Higher Education Impact Rankings listinn hefur verið gefinn út frá árinu 2019 og Háskóli Íslands hefur frá upphafi verið á honum. Listinn nær yfir frammistöðu háskóla með tilliti til tilekinna mælikvarða sem snerta samfélagsleg og efnahagsleg áhrif um allan heim og framlag til allra 17 heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna. 

Hver háskóli fær einkunn fyrir frammistöðu sína í tengslum við hvert og eitt markmiðanna sem snerta margar af brýnustu áskorunum heimsbyggðarinnar í dag. Röðun háskólanna á listann byggist svo á stigagjöf þeirra á sviði þriggja heimsmarkmiða þar sem hver háskóli stendur sterkastur að vígi auk frammistöðu sem tengist markmiði 17, Samvinnu um markmiðin. 

Samkvæmt lista ársins 2025 telst Háskóli Íslands standa fremst í heimsmarkmiðum sem snerta aðgerðir í loftslagsmálum (markmið 13), þar sem hann er í 64. sæti, nýsköpun og uppbyggingu (markmið 9), þar sem hann er í sæti 101-200, og ábyrga neyslu og framleiðslu (markmið 12) þar sem hann er í 201.-300. sæti af þeim háskólum sem metnir eru. Enn fremur er skólinn 301-400. sæti þegar kemur að heimsmarkmiði 17 sem skilar honum samanlagt í 201.-300. sæti á listanum, eða á sama stað og í fyrra. Til viðbótar má nefna að skólinn er í sæti 101-200 þegar horft er til markmiðs 3 (heilsa og vellíðan) en alls skiluðu nærri 1.800 skólar inn upplýsingum um það markmið.

Í heildina voru 2.500 skólar frá 130 löndum metnir að einhverju leyti að þessu sinni á vegum Times Higher Education en þeir voru 2.100 í fyrra. Í því ljósi er afar ánægjulegt að sjá að Háskóli Íslands haldi stöðu sinni á listanum.

University Impact Rankings listinn er ólíkur öðrum þekktum listum yfir fremstu háskóla heims að því leyti að þar er ekki bara horft til vísindastarfs, kennslu og áhrifa í alþjóðlegu vísindasamfélagi heldur áhrifa á nærsamfélag og alþjóðasamfélag. 

Háskóli Íslands hefur undanfarin ár lagt aukna áherslu á heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna og áhrif á nærsamfélag og sést þess glöggt merki í stefnu skólans, HÍ26. Þar eru sjálfbærni og fjölbreytileiki ein af fjórum megináherslum stefnunnar en í því felst að horft til þess að Háskóli Íslands verði leiðandi á sviði sjálfbærni í krafti kennslu, rannsókna og þekkingarsköpunar og styðji þannig við samfélagið og að starfsemin sjálf verði sjálfbær og kolefnishlutlaus. Liður í þessu er árleg sjálfbærniskýrsla skólans sem komið hefur út í þrígang á vegum Sjálfbærnistofnunar HÍ. Hún veitir innsýn í þau fjölmörgu verkefni sem unnin eru í HÍ og tengjast heimsmarkmiðunum en þar er einnig að finna ábendingar um úrbætur sem hægt er að ráðast í innan skólans.

Heildarlistann Times Higher Education Impact Rankings er að finna á vefsíðu tímaritsins.
 

Aðalbygging HÍ

Háskóli Íslands heldur stöðu sinni og er áfram í 201.-300. sæti á lista tímaritsins Times Higher Education yfir þá háskóla sem hafa mest samfélagsleg og efnahagsleg áhrif út frá heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna (Times Higher Education University Impact Rankings). Aldrei hafa fleiri háskólar tekið þátt í matinu, eða yfir 2.500 frá 130 löndum. MYND/Kristinn Ingvarsson