Prófessor við HÍ tekur þátt í að móta stefnu Spánar um samfélagslega ábyrgð

Lára Jóhannsdóttir, prófessor í umhverfis- og auðlindafræði við Háskóla Íslands, var á dögunum útnefnd af hálfu vinnumála- og félagsmálaráðuneytisins á Spáni til að taka þátt í sérfræðinganefnd um samfélagsábyrgð fyrirtækja á Spáni. Stjórnvöld á Spáni settu nefndina saman með það að markmiði að útbúa skýrslu sem skilgreinir stöðu Spánar varðandi samfélagsábyrgð í alþjóðlegu samhengi. Um leið er nefndinni ætlað að móta tillögur sem leggja eiga grunn að nýrri stefnu Spánar um samfélagsábyrgð fyrirtækja.
Fyrsti fundur nefndarinnar fór fram í Madríd á dögunum en um er ræða yfirgripsmikla vinnu sem hefst af kappi í haust en henni lýkur í lok árs.
Spænsk stjórnvöld leita til Láru sem sérfræðings á sviði samfélagsábyrgðar fyrirtækja en það er svið hennar í rannsóknum og kennslu. Vafalítið eru það rannsóknaafköst Láru og gæði verkefna hennar ásamt alþjóðlegum birtingum sem hafa leitt til þess að til hennar er leitað.
Háskóli Íslands hefur skapað sér traust og virðingu á alþjóðlegum vettvangi á umliðnum árum sem alhliða og öflugur rannsóknaháskóli og þetta krefjandi verkefni Láru sýnir að að fræðimenn við skólann séu mjög framarlega alþjóðlega á sínum sviðum.
Á sama tíma sýnir þetta að skólinn hefur áunnið sér traust í alþjóðlegri umræðu sem styður stjórnvöld við að takast á við margvíslegar áskoranir, allt frá umhverfisbreytingum, náttúruvá og örum tæknibreytingum til margvíslegrar verkefna sem snúa að velferð fólks.
„Áður en ég kom inn í akademíuna í HÍ þá var ég með 14 ára reynslu úr vátryggingageiranum þar sem ég hafði m.a. starfað að gæða-, umhverfis- og öryggismálum, auk þess að hafa setið átta ár stjórn lífeyrissjóðs. Þannig að bæði hagnýt og fræðileg þekking og reynsla mun nýtast í verkefnið. Þá hef ég, byggt á eigin rannsóknum, þróað kenningarlega ramma um stefnumótun og innleiðingu á stefnu á þessu sviði og að víkka út skilgreiningar á hagaðilum sem vonandi mun nýtast við þessa vinnu,“ segir Lára aðspurð um ástæðu þess að hún var valin til þessa verkefnis.
Í framhaldi af fundinum var haldinn sérstakur kynningarviðburður þar sem Yolanda Díaz, annar varaforsætisráðherra Spánar og atvinnu- og félagsmálaráðherra, ásamt Jesús Cruz Villalón, prófessor í vinnurétti og almannatryggingum við Háskólann í Sevilla á Spáni, kynntu verkefnið auk tveggja annarra úr nefndinni.