Leita að skipi sem sökk á 17. öld með íslensk handrit og gripi innanborðs

Haustið 1682 fórst flutningaskipið Höfðaskip í ofsaveðri úti fyrir Langanesi með alla skipsverja innanborðs, íslensk handrit og aðra dýrmæta gripi. Skipið hafði siglt frá Spákonufellshöfða við Skagaströnd og var á leið til Kaupmannahafnar en einn af skipverjum þess, Hannes Þorleifsson, var handritasafnari og var á leið með íslensk miðaldahandrit og -gripi til Danakonungs.
Flutningaskip á borð við Höfðaskip sigldu yfirleitt með fram ströndu og sukku því alla jafna skammt undan landi en neðansjávarmælingar hafa sýnt að flök þeirra liggja að meðaltali innan sex kílómetra frá strandlínunni. „Það er því góð von að flak Höfðaskips finnist. Takist okkur að staðsetja það stefnum við að frekari rannsókn á því en vitað er að skip frá þessum tíma hafa varðveist vel í sjónum,“ segir Steinunn Kristjánsdóttir, prófessor við Deild heimspeki, sagnfræði og fornleifafræði við Háskóla Íslands, en hún stýrir nú rannsókn um Höfðaskip sem unnin er í samstarfi við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Vestfjörðum.
Sambærilegar rannsóknir hafa farið fram á Íslandi
Verkefnið tengist beint rannsóknaráhuga Steinunnar en hann liggur helst á miðöldum á Íslandi, klausturhaldi og kristinni kirkju. Leitin að Höfðaskipi snýst ekki um að skoða hvaða handrit og gögn fórust með því heldur er markmið rannsóknarinnar að staðsetja skipsflakið. Ef það tekst mun opnast fyrir möguleika á að stunda frekari rannsóknir á því og farmi þess.
„Sambærilegar rannsóknir hafa farið fram á Íslandi og svo dæmi sé tekið hefur hollenska skipið Melckmeyt, sem sökk við Flatey á Breiðafirði árið 1659, verið myndað og kannað ítarlega. Þá eru einnig nokkrar minni neðansjávarrannsóknir í gangi,“ segir Steinunn.
Ragnar Edvardsson, neðansjávarfornleifafræðingur hjá Rannsóknasetri Háskóla Íslands á Vestfjörðum, vinnur að verkefninu með Steinunni en hann býr yfir mikill reynslu af leit að fornminjum á hafsbotni. MYND/Kristinn Ingvarsson
Rannsóknin tengist annarri stærri fornleifarannsókn
Aðspurð um kveikjuna að rannsókninni segir Steinunn að hún tengist stærri fornleifarannsókn á handritagerð í Þingeyrarklaustri sem hófst árið 2018. Steinunn fer fyrir þeirri rannsókn og hlaut fyrir hana öndvegisstyrk úr rannsóknasjóði Rannís.
„Við vitum að Hannes Þorleifsson (f. um 1650, d. 1682) bjó á Þingeyrum á meðan hann safnaði handritum þaðan, en bróðir hans, Jón Þorleifsson, var klausturhaldari þar. Skipsskaðans árið 1682 er getið í fjölmörgum annálum en lítið er vitað um hann að öðru leyti. Þó er talið fullvíst að mörg þeirra handrita sem glötuðust tilheyrðu bókasafni Þingeyraklausturs en sjálfsagt hafði Hannes staðið að söfnun víðar í landinu,“ útskýrir Steinunn.
Ef skipið og farmur þess finnast verður hægt að skoða hvað var um borð þegar það sökk. Mikilvægi þess eru ótvíræð fyrir samfélagið, ekki síður en vísindin, en þannig er hægt að skoða nánar hvers konar gripir voru til hér á landi á miðöldum og einnig hvaða handrit glötuðust með skipinu,“ segir Steinunn. MYND/Kristinn Ingvarsson

Fornfræðingur Danakonungs og forveri Árna Magnússonar
Hannes var forveri Árna Magnússonar handritasafnara og hafði verið skipaður í embætti fornfræðings konungs, eða Antiquarius regius, af Kristjáni V Danakonungi árið 1681. Verkefni Hannesar sneru fyrst og fremst að því að safna fornum handritum á Íslandi og flytja þau til Kaupmannahafnar en á þessum tíma hafði Danakonungur mikinn áhuga á söfnun íslenskra miðaldahandrita. Hannes komst þó aldrei með handritin og hin verðmætin til Kaupmannahafnar og þess hefur verið getið að aldrei hafi skip með eins ríkulegum farmi farist við Íslandsstrendur. Talið er að afrit af Sturlunga sögu hafi verið eitt af handritunum sem glataðist og að það hafi verið í eigu móður Hannesar sem bjó á Þingeyrum.
Flutningaskip á borð við Höfðaskip sigldu yfirleitt með fram ströndu og sukku því alla jafna skammt undan landi en neðansjávarmælingar hafa sýnt að flök þeirra liggja að meðaltali innan sex kílómetra frá strandlínunni.
Ritaðar heimildir og neðansjávarrannsóknir nýttar við leitina
Áður en vettvangsvinna hefst verður farið yfir ritaðar heimildir um skipsskaðann og rætt við heimafólk um aðstæður á svæðinu til að fá nánari upplýsingar um hugsanlega staðsetningu flaksins. Samtöl fara einkum fram við sjómenn sem orðið hafa varir við reka meðfram strandlengjunni eða festur þar sem net festast í sjó. Er það gert til að afmarka leitina við líkleg svæði við Langanes. Einnig verður framkvæmd neðansjávarrannsókn á staðnum og í þeim tilgangi verða notaðar tvígeisla- og fjölgeislamælingar en með þeim má kortleggja hafsbotninn.
Líkt og áður getur sýna neðansjávarrannsóknir að flutningaskip á tímum Höfðaskips fórust sjaldnast á hafi úti heldur innan við 6 km að meðaltali í út- eða innsiglingu frá landi. Raunhæfur möguleiki er því á því að finna skipsflakið sem hér um ræðir með sónarmælingum skammt undan landi. „Annálum ber samt ekki alveg saman um það hvar skipið fórst nákvæmlega en miðað við aðstæður og lýsingar staðkunnugra bendir allt til þess að það hafi sokkið við vestanvert Langanes og líklegast þykir að það hafi sokkið í Þistilfirði,“ útskýrir Steinunn.
Steinunn stýrir rannsókninni en hún er unnin í samstarfi við Ragnar Edvardsson, neðansjávarfornleifafræðing hjá Rannsóknasetri Háskóla Íslands á Vestfjörðum. Auk þeirra hefur Sigþór Bjarmi Geirsson, BA-nemi í fornleifafræði við Háskóla Íslands, verið ráðinn til að vinna við verkefnið og mun hann nýta efni þess sem grunn að BA-ritgerð sinni.
Sigþór Bjarmi Geirsson, BA-nemi í fornleifafræði við Háskóla Íslands, mun nýta efni rannsóknarinnar sem grunn að BA-ritgerð sinni. MYND/Kristinn Ingvarsson
Mikilvægt fyrir vísindin og samfélagið að finna skipið
Niðurstöður rannsóknarinnar liggja ekki fyrir en vinnan við hana stendur enn yfir. Heimildir sýna hins vegar svo ekki verður um villst að Höfðaskip hafi sokkið með mikil verðmæti innanborðs. Margir hafa reynt að komast að því hvaða handrit þetta voru en víst er að afrit af Sturlungu glataðist með skipinu.
Aðspurð um gildi rannsóknarinnar segir Steinunn að gildi hennar fyrir vísindin séu mikil, en neðansjávarleit af því tagi sem notuð er í rannsókninni hefur fleygt fram á undanförnum árum. „Ef skipið og farmur þess finnast verður hægt að skoða hvað var um borð þegar það sökk. Mikilvægi þess eru ótvíræð fyrir samfélagið, ekki síður en vísindin, en þannig er hægt að skoða nánar hvers konar gripir voru til hér á landi á miðöldum og einnig hvaða handrit glötuðust með skipinu.“
Sögulegur viðburður finnist skipið
Óvíst er hvort flak Höfðaskips finnist en takist rannsakendum það megi telja það til sögulegra viðburða. Það sem einna helst skapar óvissu í kringum verkefnið er hversu mörg skipsflök liggja við Langanes en leitin mun að öllum líkindum leiða í ljós hvort Höfðaskipið sé þar á meðal. „Það er í raun furðulegt að ekki hafi áður farið fram leit að þessu tiltekna skipi sem fórst haustið 1682, sérstaklega þar sem neðansjávarrannsóknum hefur fleygt fram á undanförnum árum, aðallega vegna framfara í sónarmælingum í sjó. Ef Höfðaskip finnst þá markar það tímamót í sögu rannsókna á skipinu en einnig á skipsflökum almennt við strendur Íslands,“ segir Steinunn að lokum.