Flettu í sögu vistkerfa við landið 40 þúsund ár aftur í tímann
Fyrstu niðurstöður kolefnisgreiningar úr sýnum úr setlögum sem vísindamenn tóku suðvestur af Reykjaneshrygg í sumar benda til þess að setlögin séu allt að 40 þúsund ára gömul. Þetta þýðir að með því að greina fornt DNA (eDNA) úr sýnunum verður jafnvel unnt að varpa ljósi á 40 þúsund ára sögu vistkerfa við landið og hvernig þau hafa þróast um árþúsundir.
ROCS-rannsóknarsetrið, sem hverfist um dansk-íslenskt vísindasamstarf, stóð fyrir leiðangrinum í júní í fyrra en vísindamenn beggja þjóða sigldu með rannsóknaskipi Hafró, Árna Friðrikssyni. Setkjörnum í jarðlögum á hafsbotninum suðvestur af Reykjaneshrygg var safnað með sérstökum búnaði en í vísindahópnum var m.a. fólk frá Háskóla Íslands, Kaupmannahafnarháskóla, Háskólanum í Árósum, GEUS og Hafrannsóknastofnun.
Arndís Bergsdóttir, sem fer fyrir ROCS á Íslandi, var í hópi vísindamannanna sem sigldi með Árna Friðrikssyni. Hún segir að greiningin á fornu DNA úr sýnunum muni veita afar mikilvægar vísbendingar um lífríki hafsins árþúsundir aftur í tímann og hvernig það hafi breyst í samhengi við loftslag. Meginverkefni ROCS-setursins, segir hún, er einmitt að kortleggja heil vistkerfi og skoða hvernig þau taka breytingum í samhengi við breytingar á loftslagi.
„Við viljum líka skoða hvernig vistkerfi hafsins og íslenskt samfélag hafa tvinnast saman og hvernig breytingar á lífríki sjávar og loftslagi hafa skilað sér til mannfólksins í landi og öfugt.“
Fornt DNA opnar sögu lífríkis þúsundir ára aftur í tímann
Arndís segir að við sýnatöku sem þessa sé setkjarninn klofinn í tvennt eftir endilöngu og sé aðeins annar helmingurinn nýttur til greiningarinnar og frekari gagnaöflunar. Hinn hlutinn sé varðveittur í geymslum Jarðfræðisafnsins í Kaupmannahöfn.
„Við sýnatöku vegna eDNA-greiningar erum við í raun að ná gögnum til að leiða í ljós það sem augað nemur ekki,” segir Rebecca Jackson, nýdoktor við ROCS. Hún var í leiðangrinum í fyrra eins og Arndís og hefur undanfarið fengist við aldursgreiningu setkjarnanna auk þess að safna sýnum vegna rannsókna á fornu DNA.
Arndís Bergsdóttir, sem fer fyrir ROCS á Íslandi, var í hópi vísindamannanna sem sigldi með Árna Friðrikssyni. Hún segir að greiningin á fornu DNA úr sýnunum muni veita afar mikilvægar vísbendingar um lífríki hafsins árþúsundir aftur í tímann og hvernig það hafi breyst í samhengi við loftslag. Meginverkefni ROCS-setursins, segir hún, er einmitt að kortleggja heil vistkerfi og skoða hvernig þau taka breytingum í samhengi við breytingar á loftslagi.
„Við skoðum líka kjarnann og lýsum því í smáatriðum sem augað nemur. Til dæmis er mjög spennandi að sjá og skoða lagskiptingu og breytingar í lit og áferð og velta því fyrir sér hvað þær merki.“
Rebecca segir að sá munur á áferð, lit og lagskiptingu sem hafi komið í ljós þegar kjarninn hafi verið klofinn til sýnatöku, geti meðal annars veitt upplýsingar um hverjar aðstæðurnar voru þegar set barst á ákveðin svæði. „Þar af leiðandi getur þetta skapað mikilvægt samhengi fyrir niðurstöður eDNA-greininga.“
Hér má sjá viðtal við Rebeccu um verkefnið
Miklu efni safnað til rannsóknar
Alls safnaði vísindafólk ROCS og áhöfn Árna Friðrikssonar sautján setkjörnum í leiðangrinum sem tók tvær vikur. Sýnin hafa öll verið send til GLOBE-rannsóknastofnunarinnar í Kaupmannahöfn til greiningar á fornu DNA.
Rannsóknir ROCS byggja að stórum hluta á þverfaglegri samvinnu vísindafólks af ólíkum sviðum og því til staðfestingar má nefna að rannsóknarteymið um borð í Árna Friðrikssyni var skipað fólki úr náttúru-, hug- og félagsvísindum. Nokkur nýlunda er að vísindafólk frá svo ólíkum fræðasviðum vinni svo náið saman frá grunni. Leiðangursstjóri var Katherine Richardson, prófessor í haffræði við Kaupmannahafnarháskóla og stjórnandi Miðstöðvar um sjálfbærnirannsóknir við sama háskóla.