Fræðafólk og nemendur við Háskóla Íslands hafa þróað orðaforðalausnina IceFlash 4K, leifturminniskort á stafrænu formi fyrir einstaklinga með íslensku sem annað mál. Í orðaforðalausninni er að finna 4.000 algengustu orðin á íslensku sem geta stutt þau sem eru að læra tungumálið við að auka orðaforða sinn.
„Leifturkort eru kort/spjöld sem eru notuð til að leggja hluti á minnið. Öðrum megin er eitthvað efnisatriði sem við viljum læra eitthvað um, t.d. orð, og hinum megin er eitthvað sem við viljum leggja á minnið um þetta efnisatriði, t.d. þýðing á orðinu á framhliðinni. Við horfum á framhliðina og reynum að muna hvað stendur á bakhliðinni áður en við snúum kortinu við. Þetta er gömul og vel þekkt aðferð sem er notuð í fjölbreytilegu námi. Áður voru spjöldin gerð úr pappír en nú eru þau oftast stafræn og notuð í símum eða tölvum,“ segir Anton Karl Ingason, dósent í íslenskri málfræði og máltækni við Háskóla Íslands.
Anton hefur unnið að þróun lausnarinnar ásamt samstarfskonum innan Rannsóknarstofunnar Máls og tækni við Háskóla Íslands, þeim Xindan Xu, Veroniku Teresu Kolka og Alesiu Kovaleva. Xindan Xu vann tæknivinnuna í verkefninu auk þýðingarvinnu í kínversku og ensku og var fyrsti höfundur ritrýndar greinar um verkefnið en Alesia Kovalova og Veronika Teresa Kolka unnu við þýðingarvinnu í úkraínsku og pólsku.
Lausnin er sett upp í svokölluðu Anki-forriti eða appi sem hægt er hlaða niður á síma eða tölvur og í boði eru eftirfarandi útgáfur: íslenska-enska, íslenska-pólska, íslenska-kínverska og íslenska-úkraínska.
Anton segir aðspurður um kosti leifturkorta að þau hafi margsannað sig sem skilvirkt verkfæri til að leggja hluti á minnið. „Þess vegna virka þau vel til að styðja við uppbyggingu orðaforða þar sem máli skiptir að læra nógu mörg orð til að geta áttað sig á merkingu texta. Þau koma samt ekki í staðinn fyrir aðrar aðferðir því að þetta er bara einn þáttur tungumálanáms. Það er ekki góð aðferð til að læra tungumál að læra bara orðaforða en ef fólk er á annað borð að tileinka sér nýtt tungumál getur það stutt við þennan lærdóm að hafa þægilegt verkfæri til að læra ný orð,” segir Anton.
Leifturkort henta vel til að byggja upp orðaforða
„Á síðustu árum hafa orðið gríðarlegar framfarir í íslenskri máltækni, bæði hvað varðar hugbúnað og gagnasöfn. Kveikjan að þessu verkefni var að við sáum að hægt var að nýta fjölmargar afurðir úr þessu nýlega þróunarstarfi til að styðja við þróun á leifturkortum fyrir íslensku. Um leið teljum við að það sé talsverð eftirspurn eftir verkfærum sem styðja við íslenskunám og þetta verkefni er þá ákveðið framlag til að koma til móts við slíkt,” segir Anton en lausnin er unnin sem liður í stefnu Háskóla Íslands, HÍ26, þar sem m.a. er áhersla á að efla íslenskuna í heimi breytinga.
Gögnin í lausninni koma úr ýmsum áttum að sögn Antons. „Tíðniupplýsingar úr íslenskum textasöfnum (Mörkuð íslensk málheild) eru notaðar til að leggja áherslu á algengustu orðin, þýðingar voru handunnar fyrir þetta verkefni, valin beygingarmynstur koma úr Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls, framburður er gefinn með hljóðritunarforriti og upplestri talgervils og þekkt alþjóðlegt forrit sem hjálpar fólki að leggja hluti hraðar á minnið er notað til að hámarka árangur notenda,“ útskýrir hann.
Anton segir aðspurður um kosti leifturkorta að þau hafi margsannað sig sem skilvirkt verkfæri til að leggja hluti á minnið. „Þess vegna virka þau vel til að styðja við uppbyggingu orðaforða þar sem máli skiptir að læra nógu mörg orð til að geta áttað sig á merkingu texta. Þau koma samt ekki í staðinn fyrir aðrar aðferðir því að þetta er bara einn þáttur tungumálanáms. Það er ekki góð aðferð til að læra tungumál að læra bara orðaforða en ef fólk er á annað borð að tileinka sér nýtt tungumál getur það stutt við þennan lærdóm að hafa þægilegt verkfæri til að læra ný orð,” segir Anton.
Orðaforðalausnin er opin öllum án endurgjalds og Anton bendir á að aðstandendur verkefnisins hafi tryggt að aðrir geti nýtt sér gögnin á bak við lausnina með því að gefa út gagnagrunn með opnu leyfi. „Þetta merkir að leyfilegt er að taka það sem við höfum búið til og nýta það á annan hátt og í öðru samhengi,“ bendir hann á.
Orðaforðalausnina IceFlash 4K og leiðbeiningar um uppsetningu hennar má finna á vef Háskólans.