4/2017
HÁSKÓLARÁÐSFUNDUR
Ár 2017, fimmtudaginn 6. apríl var haldinn fundur í háskólaráði sem hófst kl. 13.
Fundinn sátu Jón Atli Benediktsson, Amalía Björnsdóttir (varamaður fyrir Eirík Rögnvaldsson), Ásthildur Margrét Otharsdóttir, Guðrún Geirsdóttir, María Rut Kristinsdóttir (varamaður fyrir Ernu Hauksdóttur), Orri Hauksson, Ragna Árnadóttir, Stefán Hrafn Jónsson, Tryggvi Másson (varamaður fyrir Rögnu Sigurðardóttur) og Þengill Björnsson. Fundinn sátu einnig Magnús Diðrik Baldursson, sem ritaði fundargerð og Þórður Kristinsson. Tómas Þorvaldsson boðaði forföll og varamaður hans einnig.
1. Setning fundar.
Rektor setti fundinn og greindi frá því að engin athugasemd hefði borist við fundargerð síðasta fundar og hefði hún því skoðast samþykkt og verið birt á háskólavefnum. Þá spurði rektor hvort einhver hefði athugasemd við dagskrá fundarins og var svo ekki. Jafnframt spurði rektor hvort einhver teldi sig vanhæfan til að taka þátt í meðferð máls á dagskrá og var svo ekki. Ekki voru gerðar athugasemdir við liðinn „bókfærð mál“ og skoðast hann því samþykktur.
2. Fjármál Háskóla Íslands. Staða, horfur, áætlun.
Inn á fundinn komu Guðmundur R. Jónsson, framkvæmdastjóri miðlægrar stjórnsýslu og Jenný Bára Jensdóttir, sviðsstjóri fjármálasviðs.
a) Langtímaáætlun í ríkisfjármálum. Tillaga ríkisstjórnar.
Fyrir fundinum lá minnisblað vegna tillögu til þingsályktunar um fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar fyrir árin 2018-2022. Guðmundur og Jenný gerðu grein fyrir málinu og var það rætt ítarlega. Að umræðu lokinni samþykkti háskólaráð svohljóðandi ályktun einróma:
Auka þarf verulega framlög til Háskóla Íslands
Háskólaráð Háskóla Íslands lýsir miklum vonbrigðum með fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar 2018-2022
Háskólaráð Háskóla Íslands lýsir miklum vonbrigðum með fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar fyrir tímabilið 2018-2022, sem lögð var fram á Alþingi 31. mars.
Fyrir liggur að háskólastigið á Íslandi hefur sætt verulegum og langvarandi niðurskurði opinberra framlaga. Er nú svo komið að Háskóli Íslands er alvarlega undirfjármagnaður og gæði skólastarfsins í raunverulegri hættu.
Stjórnvöld hafa ítrekað sett fram áform og gefið fyrirheit um að fjármögnun háskóla á Íslandi verði í takt við það sem gerist í nágrannalöndum okkar. Í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar 2018-2022 er ekki að sjá að efna eigi þessi fyrirheit. Að óbreyttu virðist lagt upp með að nálgast markmið um sambærilega fjármögnun og í nágrannalöndum okkar með því að fækka verulega háskólanemum á Íslandi. Á sama tíma liggur fyrir að fjölga þarf verulega háskólamenntuðu starfsfólki í heilbrigðisgreinum, skólakerfi og víðar.
Samkvæmt fjármálaáætluninni munu framlög til háskólastigsins hækka úr tæpum 41,6 milljörðum kr. á árinu 2017 í tæpa 44,4 milljarða árið 2022. Þessir fjármunir eru þó fjarri því allir til að mæta brýnum rekstrarvanda háskólastigsins, því aukningin fyrstu árin er að miklu leyti framlag vegna byggingar húss íslenskra fræða, auk framlags til Lánasjóðs íslenskra námsmanna og uppbyggingar nýs fagháskólastigs. Háskólarnir þurfa því enn að bíða, nú til ársins 2019, eftir löngu tímabærri innspýtingu vegna kennslu og rannsókna sem þó er mjög hógvær eftir niðurskurð síðustu ára. Verði fjármálaáætlunin samþykkt óbreytt er hækkunin til háskólastigsins of lítil og kemur of seint.
Ef fjármálaáætlunin nær óbreytt fram að ganga blasir við fyrir Háskóla Íslands að
• skólinn og þar með íslenska þjóðin gæti misst sterka stöðu sína í alþjóðlegum samanburði háskóla;
• dregið verður úr námsframboði og frestað nauðsynlegri þróun kennsluhátta;
• hætt verður við brýna uppbyggingu innviða rannsókna og nýsköpunar sem létu verulega á sjá í hruninu.
Fyrir liggur að stjórnvöld hafa á undanförnum árum gefið margvísleg fyrirheit um áþreifanlegan stuðning við Háskóla Íslands:
• Á aldarafmæli Háskóla Íslands árið 2011 var stofnaður sérstakur Aldarafmælissjóður og lýstu stjórnvöld því yfir að hækka ætti framlög til sjóðsins árlega uns fjárveiting á hvern nemanda yrði sambærileg við meðtaltal OECD-ríkja 2016 og meðaltal Norðurlanda 2020.
• Í framhaldinu markaði Vísinda- og tækniráð þá stefnu að þessi markmið skyldu gilda fyrir allt háskólastigið í landinu.
• Í aðdraganda alþingiskosninga sl. haust ríkti pólitísk samstaða meðal núverandi stjórnarflokka um að opinber framlög á hvern háskólanema skyldu ná meðaltali OECD-ríkjanna á kjörtímabilinu.
• Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá janúar sl. er lögð rík áhersla á að treysta samkeppnishæfni Íslands og þróa hér þekkingarsamfélag með því að styðja háskólana í að halda uppi gæðum og standast alþjóðlega samkeppni, m.a. með endurskoðun á reiknilíkönum sem notuð eru til að meta fjárþörf menntakerfisins.
Í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar er lögð áhersla á aðhaldssemi og langtímahugsun og undir það er tekið. Opinberum fjármunum í þágu samfélagsins og innviða þess til lengri tíma verður varla betur varið en með fjárfestingu í öflugum háskóla sem er samkeppnisfær á alþjóðlegum vettvangi. Háskóli Íslands hefur í meira en eina öld verið ein mikilvægasta undirstaða fjölbreytts atvinnulífs, velferðar og farsæls þekkingarsamfélags á Íslandi. Það þarf langan tíma, metnað og skýra sýn til að byggja upp sterkan háskóla en það tekur aðeins skamman tíma að tefla því uppbyggingarstarfi í voða. Fjárfesting í menntun er fjárfesting í framtíðinni.
b) Fjárveitingabréf frá mennta- og menningarmálaráðuneyti, dags. 15. mars sl.
Fyrir fundinum lá fjárveitingabréf mennta- og menningarmálaráðuneytisins, dags. 15. mars sl. og gerði rektor grein fyrir því.
c) Um verklag við fimm ára fjárhagsáætlanagerð fyrir Háskóla Íslands, sbr. fund ráðsins 2. mars sl.
Inn á fundinn komu Sigurður Jóhannesson, forstöðumaður Hagfræðistofnunar og Daði Már Kristófersson, forseti Félagsvísindasviðs, en þeir voru ásamt Ásthildi Margréti Otharsdóttur, fulltrúa í háskólaráði, skipaðir á síðasta fundi ráðsins í starfshóp til að vinna tillögur um hvernig staðið verður að gerð fjárhagsáætlana til fimm ára fyrir Háskóla Íslands. Þau Sigurður, Daði Már og Ásthildur gerðu grein fyrir stöðu vinnunar og var málið rætt ítarlega. Málið verður áfram á dagskrá háskólaráðs, en starfshópurinn mun skila tillögum sínum fyrir fund ráðsins sem ráðgerður er 1. júní nk.
3. Nefnd um störf háskólaráðs, sbr. 10. gr. starfsreglna ráðsins.
Rektor gerði grein fyrir málinu. Í 10. gr. starfsreglna háskólaráðs Háskóla Íslands segir að fyrir lok hvers starfsárs skuli ráðið taka saman greinargerð um störf sín á undangengnu starfsári og leggja mat á árangur og gera eftir atvikum tillögur til úrbóta. Háskólaráð skipar úr sínum röðum fjögurra manna nefnd sem annast matið og ritar greinargerðina. Í nefndinni er einn fulltrúi hvers hóps sem myndar háskólaráð, þ.e. einn fulltrúi háskólasamfélagsins, einn tilnefndur af mennta- og menningarmálaráðherra, einn valinn af háskólaráði og einn fulltrúi stúdenta. Varaforseti háskólaráðs er formaður nefndarinnar og situr hann jafnframt fyrir þann hóp sem hann er fulltrúi fyrir í ráðinu. Rektor bar upp tillögu um að nefndin verði skipuð, ásamt Eiríki Rögnvaldssyni, varaforseta háskólaráðs, þeim Ernu Hauksdóttur, Rögnu Sigurðardóttur og Tómasi Þorvaldssyni. Nefndin mun skila greinargerð sinni á fundi háskólaráðs í júní nk.
– Samþykkt einróma.
4. Starfsumhverfiskönnun 2016.
Inn á fundinn komu Guðbjörg Andrea Jónsdóttir, forstöðumaður Félagsvísindastofnunar og Ásta Möller, sviðsstjóri starfsmannasviðs. Guðbjörg Andrea gerði grein fyrir niðurstöðum starfsumhverfiskönnunar Háskóla Íslands sem gerð var á haustmisseri 2016. Málið var rætt og svöruðu þær Guðbjörg Andrea og Ásta spurningum ráðsmanna.
5. Niðurstaða samkeppni um heiti nýbyggingar Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum.
Fyrir fundinum lá skilagrein valnefndar um heiti á nýju húsi Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum ásamt lista yfir innsendar tillögur í hugmyndasamkeppni að heiti á húsinu sem haldin var í mars sl. Rektor gerði grein fyrir málinu og var það rætt. Fram kom að gætt skal trúnaðar um heitið þar til það hefur verið gert opinbert 20. apríl nk.
– Heiti það sem valnefnd lagði til samþykkt einróma.
6. Happdrætti Háskóla Íslands. Hlutverk, stefna og starfsemi.
Inn á fundinn kom Bryndís Hrafnkelsdóttir, forstjóri Happdrættis Háskóla Íslands, og greindi frá hlutverki, stefnu og starfsemi fyrirtækisins. Málið var rætt og svaraði Bryndís spurningum ráðsmanna.
7. Bókfærð mál.
a) Tilnefning varamanna fulltrúa háskólaráðs í fimm fastar dómnefndir Háskóla Íslands, sbr. 40. gr. reglna fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009, sbr. síðasta fund.
– Samþykkt.
b) Félagsvísindasvið. Niðurlagning námsleiðar í Stjórnmálafræðideild og og breyting á heiti námsleiðar í Félagsráðgjafardeild.
– Samþykkt.
c) Félagsvísindasvið. Alþjóðamálastofnun, breyting á reglum.
– Samþykkt.
d) Heilbrigðisvísindasvið. Inntökuskilyrði í hjúkrunarfræði.
– Samþykkt.
e) Heilbrigðisvísindasvið. Breyting á stærð lokaverkefnis til MS prófs í lyfjafræði.
– Samþykkt.
f) Heilbrigðisvísindasvið. Lífeðlisfræðistofnun, breyting á reglum.
– Samþykkt.
h) Hugvísindasvið. Nýjar reglur um meistaranám.
– Samþykkt.
j) Tillaga að breytingum á reglum um úthlutun úr Rannsóknasjóði Háskóla Íslands (75. gr. reglna HÍ nr. 569/2009).
– Samþykkt.
l) Stjórn RHnets.
– Samþykkt. Fulltrúar Háskóla Íslands í stjórn Rannsókna- og háskólanets Íslands ehf. verða áfram Anna Soffía Hauksdóttir, prófessor, Sæþór L. Jónsson, forstöðumaður Reiknistofnunar Háskóla Íslands og Þórður Kristinsson, ráðgjafi rektors. Varamenn verða áfram Fjóla Jónsdóttir, prófessor, Guðmundur R. Jónsson, framkvæmdastjóri miðlægrar stjórnsýslu og Sigrún Nanna Karlsdóttir, dósent. Skipunartíminn er eitt ár.
m) Stjórn Keilis.
– Samþykkt. Fulltrúar Háskóla Íslands í stjórn Keilis verða áfram Halldór Jónsson, sviðsstjóri vísinda- og nýsköpunarsviðs og Sæunn Stefánsdóttir, sérfræðingur á skrifstofu rektors og forstöðumaður Stofnunar rannsóknasetra Háskóla Íslands. Varamenn verða áfram Brynhildur Davíðsdóttir, prófessor og Hjálmtýr Hafsteinsson, dósent. Skipunartíminn er eitt ár.
8. Mál til fróðleiks.
a) Fréttabréf Félagsvísindasviðs, febrúar 2017.
b) Glærur rektors frá opnum fundi 13. mars 2017.
c) Ársskýrsla Rannsóknasetra Háskóla Íslands 2016.
d) Eftirfylgniskýrsla Ríkisendurskoðunar um skýrsluna „Stjórnun og rekstur Raunvísindastofnunar Háskóla Íslands“, dags. 16. mars 2017.
e) Samstarfssamningur Háskóla Íslands og Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins um kennslu og rannsóknir, dags. 27. mars 2017.
Fleira var ekki gert.
Fundi slitið kl. 15.35.