Skip to main content

5. háskólaþing 7. desember 2010

5. háskólaþing Háskóla Íslands haldið 7. desember 2010 í Hátíðasal Háskóla Íslands í Aðalbyggingu

Fundartími: Kl. 10.00-13.00

Dagskrá
Kl. 10.00 – 10.05    Rektor setur háskólaþing, fer yfir dagskrá og tímaáætlun og gerir grein fyrir fundargögnum.
Kl. 10.05 – 10.20    Dagskrárliður 1. Rektor reifar mál sem eru efst á baugi hjá Háskóla Íslands.
Kl. 10.20 – 11.30    Dagskrárliður 2. Stefna Háskóla Íslands fyrir tímabilið 2011-2016.
Kl. 11.30 – 11.50    Fundarhlé.
Kl. 11.50 – 13.00    Dagskrárliður 2 (frh.). Stefna Háskóla Íslands fyrir tímabilið 2011-2016.
Kl. 13.00    Rektor slítur háskólaþingi.

Kl. 10.00-10.05 - Fundarsetning
Rektor setti háskólaþing og bauð fundarmenn velkomna til starfa. Háskólaþing er haldið í samræmi við lög um opinbera háskóla nr. 85/2008 sem tóku gildi 1. júlí 2008 og var þetta 5. háskólaþing (sem áður hét háskólafundur) Háskóla Íslands. Sérstaklega bauð rektor velkomna þá fulltrúa starfsfólks, stúdenta og háskólaráðs sem mættir voru í fyrsta sinn á þingið sem og gesti frá öðrum stofnunum, þau Björn Zoëga, fulltrúa Landspítala, Gísla Sigurðsson, fulltrúa Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, Ingibjörgu Steinunni Sverrisdóttur landsbókavörð og Sigurð Ingvarsson, forstöðumann Tilraunastöðvar Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum.

Þá gerði rektor grein fyrir tímaáætlun og gögnum fundarins og fól Magnúsi Diðriki Baldurssyni, skrifstofustjóra rektorsskrifstofu og gæðastjóra háskólans að vera fundarritari.

Kl. 10.05-10.20 - Dagskrárliður 1: Rektor reifar mál sem eru efst á baugi hjá Háskóla Íslands

Rektor fór yfir helstu verkefni umliðins vetrar og stærstu mál framundan í starfi Háskóla Íslands.

Forsendur, hlutverk og stefna Háskóla Íslands
Byrjaði rektor á að fara stuttlega yfir helstu forsendur í starfsemi Háskóla Íslands, hlutverk hans, skipulag, stefnu og framtíðarsýn. Ytri rammi háskólastarfsins er markaður með lögum, relgugerðum, opinberum viðurkenningum og heimildum. Um er að ræða lög um háskóla nr. 63/2006, lög um opinbera háskóla nr. 85/2008 með áorðnum breytingum, reglur fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009, viðurkenningu mennta- og menningarmálaráðherra fyrir öll fræðasvið og undirflokka þeirra skv. skilgreiningu OECD og heimild til að bjóða doktorsnám á öllum fræðasviðum skólans. Innri rammi starfseminnar er aftur á móti markaður með Stefnu Háskóla Íslands 2006-2011 sem samþykkt var á háskólaþingi og í háskólaráði í maí 2006. Stefnan lýsir framtíðarsýn skólans og tilgreinir mælanleg markmið og aðgerðir. Um mitt ár 2008 tók gildi nýtt skipulag Háskóla Íslands sem þjónar því markmiði að styðja við stefnu og starfsemi hans. Á sama tíma tók formlega gildi sameining Háskóla Íslands og Kennaraháskóla Íslands. Tilgangur nýja skipulagsins er að styrkja þverfræðilega samvinnu í kennslu og rannsóknum, bæta þjónustu við nemendur og kennara, auka sveigjanleika og skilvirkni og efla fjármálastjórn á fræðasviðum og í deildum.

Nemendur og námsleiðir
Nemendum hefur fjölgað mikið á síðustu árum og eru þeir nú 13.981 talsins, þar af 10.291 í grunnnámi, 3.234 í meistaranámi og 456 í doktorsnámi. Námsleiðir við Háskóla Íslands eru 380 að tölu, 160 námsleiðir í grunnnámi og 220 í meistara- og doktorsnámi. Fjöldi erlendra nemenda við Háskóla Íslands er 1.097. Flestir koma erlendu nemendurnir frá Þýskalandi, Frakklandi, Svíþjóð, Finnlandi, Danmörku, Ítalíu, Spáni, Bandaríkjunum, Noregi og Kanada. Þegar litið er til helstu ákvörðunarstaða íslenskra nemenda Háskóla Íslands sem taka hluta af námi sínu erlendis er röðin aftur á móti þessi: Danmörk, Svíþjóð, Bandaríkin, Spánn, Frakkland, Bretland, Þýskaland, Ítalía, Noregur og Japan.

Starfsfólk
Heildarfjöldi fastráðinna starfsmanna er 1.259 og skiptast þeir í 643 akademíska starfsmenn og 616 aðra starfsmenn. Akademísku starfsmennirnir skiptast í 238 prófessora, 172 dósenta, 158 lektora og 75 aðjúnkta. Af akademískum starfsmönnum eru erlendir kennarar um 40 talsins. Fjöldi stundakennara er 2.284 og koma þeir víðsvegar að úr atvinnulífi og frá erlendum og innlendum háskólum og stofnunum. Fjöldi akademískra gestakennara er 37 og akademískir nafnbótahafar frá Landspítala eru 131. Þá starfa 44 nýdoktorar við Háskóla Íslands.

Fjárlagafrumvarp 2011
Rektor fór yfir fjárlagafrumvarp ríkisstjórnar Íslands fyrir árið 2011 og greindi enn fremur frá því að innan Háskóla Íslands er nú unnið að gerð tillagna um viðbrögð við áætluðum niðurskurði og gerð fjárhagsáætlunar fyrir tímabilið 2011-2013. Í þessu sambandi hefur m.a. verið leitað eftir tillögum frá háskólasamfélaginu og hafa fjölmargar gagnlegar ábendingar borist. Við útfærslu niðurskurðarins innan Háskóla Íslands verður lagt kapp á að halda útgjöldum innan ramma fjárlaga, standa vörð um gæði náms og rannsókna og tryggja áfram háskólamenntun á Íslandi sem stenst alþjóðlegar gæðakröfur og samanburð. Mikilsverðasta framlag Háskóla Íslands til íslensks samfélags er að halda áfram að auka árangur í vísindum og verðmætasköpun fyrir íslenskt samfélag. Með þessu aukast jafnframt möguleikar á erlendu samstarfi sem í reynd stækkar íslenskt menntakerfi án frekari útgjalda.

Styrkir úr samkeppnissjóðum vegna rannsókna
Mikill árangur hefur náðst í sókn vísindamanna Háskóla Íslands í erlenda og innlenda samkeppnissjóði vegna rannsókna og hafa sjálfsaflatekjur skólans vegna rannsókna aukist úr 253 m.kr. árið 2004 í 952 m.kr. árið 2009.

Dæmi um styrki úr erlendum samkeppnissjóðum sem eru hærri en 30 m.kr. á árinu 2009:
·    Kerfislíffræðisetur, 179 m.kr. Um er að ræða fimm ára verkefni styrkt af Evrópska rannsóknaráðinu, alls um 2,4 milljónir evra. Verkefnið er unnið í samstarfi Verkfræði- og náttúruvísindasviðs og Heilbrigðisvísindasviðs. Verkefnisstjóri er Bernharð Örn Pálsson, prófessor.
·    Deepfisherman, 48 m.kr. Hér er á ferðinni þriggja ára rannsóknaverkefni 12 Evrópuþjóða og Namibíu sem ætlað er að kanna ýmsa þætti tengda veiðum á djúpsjávarfiskistofnum. Íslenskir þátttakendur í verkefninu eru Hafrannsóknastofnun og Hagfræðistofnun Háskóla Íslands.
·    Rannsóknir á kæfisvefni, 200 m.kr. Verkefnið er styrkt af National Institutes of Health (NIH) og verkefnisstjóri er Þórarinn Gíslason prófessor, en meðal annarra þátttakenda er Alan I. Pack, prófessor við University of Pennsylvania og gestaprófessor við Háskóla Íslands.
·    EU 4 SEAS, 30 m.kr. Um er að ræða styrk úr 7. rammaáætlun ESB til að kanna áhrif ESB á milliríkjasamstarf umhverfis fjögur innhöf Evrópu, þ.e. Eystrasalt, Kaspíahaf, Miðjarðarhaf og Svartahaf. Þátttakendur eru Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands og sjö aðrar rannsóknastofnanir í Evrópu.
·    COBECOS, 30 m.kr. Verkefnið var styrkt af Evrópusambandinu og lauk því á árinu 2009. Stjórn verkefnisins var á höndum Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands og tóku þátt í því tólf aðilar frá sex aðildarlöndum ESB, auk Noregs og Íslands.
·    Icelandic Online, 30 m.kr. Verkefnisstjóri er Birna Arnbjörnsdóttir, prófessor á Hugvísindasviði. Þátttakendur eru Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur, Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, Málvísindastofnun, Hugvísindasvið Háskóla Íslands, Háskólinn í Helsinki, Kaupmannahafnar háskóli og Háskólinn í Bergen.

Dæmi um styrki úr innlendum samkeppnissjóðum og markáætlunum og öndvegisstyrki:
·    GEORG – alþjóðlegur rannsóknaklasi í jarðhita, 70 m.kr. 2009. Verkefnisstjóri er Sigurður Magnús Garðarsson, professor við Umhverfis- og byggingaverkfræðideild.
·    EDDA – öndvegissetur í jafnréttis- og margbreytileikarannsóknum, 38 m.kr. 2009. Verkefnisstjóri er Irma Erlingsdóttir, forstöðumaður Rannsóknastofu í kvenna- og kynjafræðum.
·    Reiknisetur fyrir hönnun efna og íhluta, 25 m.kr. 2009. Verkefnisstjóri er Hannes Jónsson, prófessor við Raunvísindadeild.
·    Breytingar í stærð og samsetningu skella í hálsæðavegg og tengsl orsakaþátta, 25 m.kr. 2009. Verkefnisstjóri er Vilmundur Guðnason, prófessor við Læknadeild og Hjartavernd.
·    Hagkvæm máltækni utan ensku, 15 m.kr. 2009. Verkefnisstjóri er Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor við Íslensku- og menningardeild.

Öndvegisstyrkir 2010:
·    Afburðasetur í ljósskauteindatækni, 20,5 mkr. Verkefnisstjóri er Ivan Shelykh, prófessor við Raunvísindadeild. Aðrir þátttakendur eru Snorri Þ. Ingvarsson, prófessor við Raunvísindadeild, Sveinn Ólafsson, vísindamaður og Friðrik Magnus, nýdoktor á Raunvísindastofnun, Alexey Kavokin, University of Southampton og Guillaume Malpuech, Université Blaise Pascal.
·    Endurtekin mynstur þróunar höfuðbeina bleikju, erfðir og þroskunarfræðileg gangvirki, 16,4 mkr. Verkefnisstjóri er Sigurður S. Snorrason, prófessor við Líf- og umhverfisvísindadeild. Aðrir þátttakendur eru Zophonías O. Jónsson, dósent og Arnar Pálsson, dósent við Líf- og umhverfisvísindadeild, Sigríður Rut Franzdóttir, nýdoktor við Læknadeild, Bjarni K. Kristjánsson, dósent og Skúli Skúlason, prófessor við Háskólann á Hólum og Ian A. Johnston, prófessor við University of St. Andrews.

Háskólasjóður hf. Eimskipafélags Íslands
Stefnt er að því að úthluta að nýju styrkjum til doktorsnema á aldarafmæli Háskóla Íslands árið 2011. Umsóknarfrestur er til 15. janúar og er gert ráð fyrir að allt að 60 m.kr. verði til úthlutunar. Sjóðurinn hefur frá árinu 2006 veitt styrki til nær 60 doktorsverkefna við Háskóla Íslands.

Alþjóðlegt meistaranám í norrænum miðaldafræðum
Hugvísindasvið hefur hlotið ríflega 20 m.kr. styrk frá Norrænu ráðherranefndinni til að byggja upp alþjóðlegt meistaranám í norrænum miðaldafræðum. Verkefninu er stjórnað af Háskóla Íslands, í samvinnu við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, Háskólann í Ósló, Háskólann í Árósum og Árnastofnun við Háskólann í Kaupmannahöfn. Verkefnisstjórar eru Torfi H. Tulinius prófessor og Gísli Sigurðsson rannsóknaprófessor.

Fyrsti samningur um sameiginlegar prófgráður við bandarískan háskóla
Háskóli Íslands og University of Colorado undirrituðu nýlega samstarfssamning um sameiginlegt framhaldsnám í jarðvísindum, til meistara- og doktorsgráðu. University of Colorado er meðal fremstu háskóla í Bandaríkjunum á sviði umhverfisvísinda. Tengslin á milli háskólanna tveggja hafa eflst verulega undanfarin ár, einkum í gegnum rannsóknastofnun er nefnist Institute of Arctic and Alpine Research (INSTAAR). Sem stendur eru tveir bandarískir doktorsnemar við rannsóknir hjá Háskóla Íslands, undir handleiðslu Áslaugar Geirsdóttur prófessors. Þeir munu útskrifast með sameiginlega doktorsgráðu frá báðum háskólunum.

Alþjóðlegt samstarf stækkar og eflir Háskóla Íslands
Samstarf Háskóla Íslands við alþjóðlega háskóla í fremstu röð hefur aukist og styrkst mikið á síðustu árum. Meðal samstarfsháskóla má nefna:
• Harvard University, USA
• California Institute of Technology, USA
• University of California, USA
• Columbia University, USA
• University of Minnesota, USA
• University of Manitoba, Kanada
• Oxford University, UK
• Kaupmannahafnarháskóla, Danmörku
• Karolinska Institutet, Svíþjóð
• Fudan University, Shanghai, Kína
• Peking University, Beijing, Kína

Árangur stefnu Háskóla Íslands í vísindum
Mikill árangur hefur náðst við framkvæmd þeirra vísindamarkmiða sem sett eru í stefnu Háskóla Íslands. Þannig hefur, á tímabilinu 2005-2009, fjöldi birtra vísindagreina í svonefndum ISI-tímaritum aukist um 84%, fjöldi greina í öðrum ritrýndum tímaritum hefur aukist um 29%, fjöldi tilvitnana í rannsóknaniðurstöður  vísindamanna Háskóla Íslands hefur aukist um 96% og rannsóknastyrkir úr erlendum samkeppnissjóðum hafa aukist um 300%. Þegar horft er til fjölda birtinga í öndvegistímaritum, þ.e. tímaritum með hæsta áhrifastuðulinn á hverju sviði (10%), hefur þeim fjölgað úr 91 árið 2007 í 162 árið 2009.  

Forsíðugrein í Nature
Nýlega birtist forsíðugrein eftir íslenska vísindamenn í hinu virta bandaríska vísindatímariti Nature um eldsumbrotin í Eyjafjallajökli vorið 2010. Byggir greinin á rannsókn sem Freysteinn Sigmundsson vísindamaður og Sigrún Hreinsdóttir dósent leiddu. Aðrir höfundar frá Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands eru Þóra Arnardóttir, Rikke Pedersen, Níels Óskarsson, Amandine Auriac, Judicael Decriem, Páll Einarsson, Martin Hensch og Benedikt G. Ófeigsson. Rannsóknin var unnin í samvinnu við Tækniháskólann í Delft í Hollandi, Veðurstofu Íslands, Háskólann í Gautaborg og Háskólann í Wisconsin í Madison, í Bandaríkjunum. Óhætt er að segja að birting þessarar forsíðugreinar sé staðfesting á afburðaárangri í rannsóknum.

Heiðursdoktorar
Fimm heiðursdoktorar voru kjörnir við Háskóla Íslands á árinu 2010. Hans Olov Adami var sæmdur heiðursdoktorsnafnbót frá Læknadeild í júní, Sigfús J. Johnsen var kjörinn heiðursdoktor frá Jarðvísindadeild í ágúst og á fullveldisdaginn 1. desember var þremur rithöfundum, þeim Álfrúnu Gunnlaugsdóttur, Matthíasi Johannessen og Thor Vilhjálmssyni veitt heiðursdoktorsnafnbót fyrir sköpunarstarf þeirra. Þess má geta í þessu sambandi að 24 ár eru liðin frá því að rithöfundur var síðast sæmdur heiðursdoktorsnafnbót við Háskóla Íslands, en aðrir rithöfundar í hópi heiðursdoktora eru Snorri Hjartarson (1986), Gunnar Gunnarsson (1974), Þórbergur Þórðarson (1974) og Halldór Kiljan Laxness (1972).

Hagnýtingarverðlaun Háskóla Íslands
Fyrir skömmu voru hagnýtingarverðlaun Háskóla Íslands veitt í 12. sinn. Hagnýtingarverðlaunin eru veitt á grundvelli samkeppni og er markmiðið að laða fram hagnýtanlegar hugmyndir sem til hafa orðið innan háskólans og samstarfsstofnana hans. Fyrstu verðlaun hlaut að þessu sinni verkefnið handrit.is sem er rannsóknagagnagrunnur um íslensk og norræn handrit. Aðstandendur verkefnisins eru Sigurgeir Steingrímsson vísindamaður á Árnastofnun, Örn Hrafnkelsson, forstöðumaður handritadeildar Landsbókasafns og Matthew Driscoll forstöðumaður Árnastofnunar í Kaupmannahöfn. Önnur verðlaun voru veitt fyrir verkefnið Ný tækni til flúrljómunarrannsókna á lifandi frumum og eru bakhjarlar þess Björn Agnarsson, doktorsnemi, og Kristján Leósson, vísindamaður við Raunvísindastofnun Háskóla Íslands. Loks fóru þriðju verðlaun til verkefnisins frasar.net sem er danskt-íslenskt máltæki. Verðlaunahafi er Auður Hauksdóttir, dósent við Deild erlendra tungumála, bókmennta og málvísinda.

Aukið innlent samstarf
Háskóli Íslands vinnur með skipulegum hætti að því að efla og treysta samstarf sitt við aðra innlenda háskóla og rannsóknastofnanir. Nýleg dæmi um þetta eru samstarfssamningur milli Háskóla Íslands og Reykjalundar sem var undirritaður í september sl. og samningur við Hafrannsóknarstofnun sem var gerður í október sl. Þá er hafinn undirbúningur að skipulegu samstarfi á milli opinberra háskóla á Íslandi og verður þeirri vinnu áfram haldið.

Byggingarverkefni og nýframkvæmdir
Áfram er unnið af kappi að undirbúningi nýbyggingar Landspítala þar sem jafnframt verður framtíðarstaðsetning Heilbrigðisvísindasviðs. Í fyrsta áfanga byggingarinnar er gert ráð fyrir um 10.000 ferm. undir starfsemi Háskóla Íslands. Miðað er við að kostnaðarhlutur háskólans verði aðallega fjármagnaður með framlagi Happdrættis Háskóla Íslands og með sölu eigna.

Nýbygging Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum
Góður gangur er í undirbúningi nýbyggingar undir Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum. Gert er ráð fyrir um 3.000 ferm. byggingu vestan Suðurgötu gegnt Háskólatorgi. Í byggingunni verður alþjóðleg tungumálamiðstöð og þar verður einnig framtíðarstaðsetning Deildar erlendra tungumála, bókmennta og málvísinda við Háskóla Íslands. Áætlað er að byggingin verði fjármögnuð að einum þriðju hluta af Happdrætti Háskóla Íslands og að tveimur þriðju hlutum með frjálsum framlögum.

Hús íslenskra fræða
Áfram er haldið undirbúningi byggingar Húss íslenskra fræða. Húsið verður staðsett vestan Suðurgötu í námunda við Þjóðarbókhlöðu. Áformað er að byggingin verði 6.000-7.000 ferm. og verður þar framtíðarstaðsetning Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og Íslensku- og menningardeildar Háskóla Íslands. Hlutur háskólans verður fjármagnaður af Happdrætti Háskóla Íslands.

Nýbygging fyrir Menntavísindasvið
Ennfremur er í undirbúningi nýbygging fyrir Menntavísindasvið vestan Suðurgötu, en fræðasviðið er nú til húsa við Stakkahlíð og á Laugarvatni. Nú stendur yfir endurskoðun þarfagreiningar en gert er ráð fyrir um 14.000-15.000 ferm. byggingu vestan Suðurgötu. Gert er ráð fyrir að framkvæmdin verði fjármögnuð með sölu eigna í Stakkahlíð.

Vísindagarðar Háskóla Íslands í Vatnsmýri
Fyrir liggur nýtt deiliskipulag fyrir lóð Vísindagarða í Vatnsmýri sem er sveigjanlegra en eldra skipulag og auðveldar uppbyggingu Vísindagarðanna í áföngum.

Aldarafmæli Háskóla Íslands 2011
Undirbúningur dagskrár aldarafmælis Háskóla Íslands er langt á veg kominn. Meðal annars er gert ráð fyrir að hvert hinna fimm fræðasviða Háskóla Íslands hafi einn mánuð til ráðstöfunar fyrir sérstaka dagskrá og munu sviðin m.a. bjóða til sín heimsþekktum öndvegisfyrirlesurum. Heilbrigðisvísindasvið ríður á vaðið með dagskrá í janúar og verður öndvegisfyrirlesari sviðsins Elízabeth Blackburn, prófessor við UCSF, Nóbelsverðlaunahafi í læknavísindum árið 2009. Í mars fer fram fjölbreytt dagskrá Hugvísindasviðs og verður öndvegisfyrirlesari sviðsins Noam Chomsky, prófessor í málvísindum við MIT og þjóðfélagsrýnir. Í apríl er komið að Verkfræði- og náttúruvísindasviði og hefur sviðið m.a. boðið David Suzuki, prófessor við University of British Columbia, þáttagerðarmanni og náttúruverndarsinna, að halda öndvegisfyrirlestur. September verður mánuður Menntavísindasviðs og mun þá Linda Darling-Hammond, prófessor við Stanford háskóla, School of Education, flytja fyrirlestur. Síðast í röðinni verður Félagsvísindasvið sem stendur fyrir afmælisdagskrá í október. Öndvegisfyrirlesari sviðsins verður Robert D. Putnam, prófessor við Harvard háskóla, School of Government.

Á afmælisárinu verður að auki boðið upp á margvíslegar ráðstefnur, málþing, sýningar vettvangsferðir og aðra viðburði. Um vorið hefst sérstök dagskrá á landsbyggðinni og munu þá Háskóli unga fólksins, Vísindavefurinn o.fl. aðilar ferðast um landið og efna til fjölbreyttrar dagskrár í tengslum við rannsóknasetur Háskóla Íslands á landsbyggðinni og samstarfsaðila á hverjum stað. Hápunktur afmælisársins verður hátíðarmálþing um áskoranir framtíðarinnar 7. október og afmælishátíð og árshátíð Háskóla Íslands sem verður haldin í Hörpu, hinu nýja tónlistar- og ráðstefnuhúsi við Reykjavíkurhöfn 8. október.

Kl. 10.20-11.30 - Dagskrárliður 2: Stefna Háskóla Íslands fyrir tímabilið 2011-2016

Fyrir þinginu lágu drög að nýrri stefnu Háskóla Íslands fyrir tímabilið 2011-2016. Jón Atli Benediktsson, aðstoðarrektor vísinda og kennslu og formaður heildarstefnuhóps, gerði grein fyrir málinu.

Heildarstefnuhópur
Heildarstefnuhópur Háskóla Íslands var skipaður 9. júlí sl. Í hópnum eru:
·    Jón Atli Benediktsson, aðstoðarrektor vísinda og kennslu, formaður
·    Daði Már Kristófersson, dósent við Hagfræðideild Félagsvísindasviðs
·    Guðbjörg Linda Rafnsdóttir, prófessor við Félags- og mannvísindadeild Félagsvísindasviðs
·    Hannes Petersen, dósent við Læknadeild Heilbrigðisvísindasviðs
·    Unnur Anna Valdimarsdóttir, dósent í lýðheilsuvísindum við Heilbrigðisvísindasvið
·    Hólmfríður Garðarsdóttir, dósent við Deild erlendra tungumála, bókmennta og málvísinda við Hugvísindasvið
·    Höskuldur Þráinsson, prófessor við Íslensku- og menningardeild Hugvísindasviðs
·    Erlingur Jóhannsson, prófessor við Íþrótta-, tómstunda- og þroskaþjálfadeild Menntavísindasviðs
·    Steinunn Gestsdóttir, dósent við Uppeldis- og menntunarfræðideild Menntavísindasviðs
·    Guðrún Marteinsdóttir, prófessor við Líf- og umhverfisvísindadeild Verkfræði- og náttúruvísindasviðs
·    Gunnar Stefánsson, dósent við Iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideild Verkfræði- og náttúruvísindasviðs
·    Hilmar B. Janusson, efnafræðingur og framkvæmdastjóri rannsókna- og þróunarsviðs Össurar hf., fulltrúi utan Háskóla Íslands
·    Margrét Hallgrímsdóttir þjóðminjavörður, fulltrúi utan Háskóla Íslands
·    Sigurður Kári Árnason, tilnefndur af stjórn Stúdentaráðs
·    Herdís Ólöf Kjartansdóttir, tilnefnd af stjórn Stúdentaráðs
·    Með hópnum starfa Halldór Jónsson, sviðsstjóri vísindasviðs og Magnús Diðrik Baldursson, skrifstofustjóri rektorsskrifstofu og gæðastjóri háskólans

Vinna heildarstefnuhóps
·    Heildarstefnuhópurinn fundaði reglulega á tímabilinu frá ágúst til nóvember sl.
·    Helstu umræðuefni hópsins:
- Nýlegar stefnur háskóla í Evrópu og Bandaríkjunum
- Stefna Háskóla Íslands 2006-2011 og árangur hennar
- Hlutverk Háskóla Íslands
- Röðun háskóla skv. alþjóðlegum mælikvörðum
- Rannsóknir og nýsköpun – áherslusvið rannsókna
- Tengsl kennslu og rannsókna
- Samfélagsleg ábyrgð
- Mannauðsmál
- Gæðamál
- Fjármál
·    Einnig var málið á dagskrá vikulegra funda rektors með forsetum fræðasviða

Vinna heildarstefnuhóps
·    Fyrstu drög heildarstefnu send til umsagnar í lok október sl.
·    Umsagnir veittu:
- Öll fræðasvið
- Sameiginleg stjórnsýsla
- Allar starfsnefndir háskólaráðs
- Stúdentaráð
- Nokkrir einstaklingar sendu inn sjálfstæðar umsagnir

Vinna heildarstefnuhóps
·    Auk þess var haft samráð við:
- Formenn kennslumálanefndar, vísindanefndar, fjármálanefndar, sviðsstjóra starfsmannasviðs
- Emeriti
- Erlenda starfsmenn
- Landsbókasafn – Háskólabókasafn
- Stúdenta
- Ýmsa aðra aðila innanlands og utan
·    Allar umsagnir voru yfirfarnar vandlega og fyrstu drög endurskoðuð af heildarstefnuhópi
·    Endurskoðuð drög lögð fyrir háskólaþing

Drög stefnu Háskóla Íslands 2011-2016
·    Langtímamarkmið: Að komast í hóp fremstu háskóla á alþjóða vísu
- Fyrsti áfangi að þessu markmiði var Stefna Háskóla Íslands 2006-2011
- Annar áfangi er væntanleg Stefna Háskóla Íslands 2011-2016
·    Grunngildi: Sömu og áður, að viðbættu gildi um samfélagslega ábyrgð
·    Fjögur aðalmarkmið sett:
- Rannsóknir og nýsköpun
- Nám og kennsla
- Mannauður
- Ábyrgð gagnvart samfélaginu og umheiminum
·    Fyrir hvert aðalmarkmið eru skilgreindir lykilmælikvarðar

I.hluti: Rannsóknir og nýsköpun
Frjótt rannsóknaumhverfi
·    Samstarf við fremstu háskóla og háskóladeildir heims verði eflt með skipulegum hætti
·    HÍ beiti sér fyrir auknu samstarfi við innlendar rannsóknastofnanir, háskóla, fyrirtæki og menningarstofnanir
·    Markvisst verði unnið að aukinni sókn í innlenda og erlenda samkeppnissjóði
·    Stoðþjónusta við styrkumsóknir í samkeppnissjóði, einkaleyfaumsóknir og hagnýtingu rannsóknaniðurstaðna verði efld
·    Hlúð verði að öflugum vísindamönnum og rannsóknahópum með það að markmiði að efla HÍ í alþjóðlegu fræða- og vísindasamfélagi
·    HÍ beiti sér fyrir því að árangurstengdur samningur við stjórnvöld um fjármögnun stefnu skólans verði virkjaður á nýjan leik á aldarafmæli HÍ
·    HÍ beiti sér fyrir því að ríkisvaldið efli samkeppnissjóði rannsókna í landinu

Árangur í rannsóknum
·    Hvatt verði til fjölgunar gæðabirtinga á öllum fræðasviðum HÍ
·    Í hvata- og gæðakerfum HÍ verði í auknum mæli tekið mið af gæðabirtingum eins og þær eru skilgreindar á hverju fræðasviði
·    HÍ gegnir forystuhlutverki í rannsóknum á íslenskri menningu og þjóðfélagi og leggur áherslu á að miðla niðurstöðum þeirra á innlendum og erlendum vettvangi
·    Vefur HÍ verði styrktur sem megin upplýsingagátt fyrir innlenda og erlenda notendur
·    Gert verði átak í að bæta upplýsingar um námsframboð fyrir erlenda stúdenta og kynningu á starfi og árangri HÍ á erlendum vettvangi
·    Verðmætin sem fólgin eru í rannsóknum HÍ verði virkjuð markvisst í þágu nýsköpunar og frumkvöðla- og þróunarstarfs

Öflugt meistara- og doktorsnám
·    Stefnt er að því að árlegur fjöldi brautskráðra doktora verði hlutfallslega sambærilegur við fjölda þeirra í nágrannalöndum okkar, eða 60-70 á ári
·    HÍ beiti sér fyrir því að ríkisvaldið komi að heildstæðri fjármögnun doktorsnámsins með skýrar gæðakröfur að leiðarljósi
·    Hlutfall brautskráðra doktora frá HÍ sem hafa sameiginlega doktorsgráðu með erlendum rannsóknaháskólum verði a.m.k. 10% árlega
·    Virkni doktorsnema í námi verði tryggð með því að styrkja umgjörð þess, bæta aðstöðu til námsins og skýra ábyrgð leiðbeinenda
·    Miðstöð framhaldsnáms við HÍ verði efld og fest í sessi, m.a. með því að fá henni ríkara eftirlits- og samræmingarhlutverk í tengslum við framkvæmd doktorsnámsins
·    Meistaranám verði eflt, m.a. með fullnægjandi framboði námskeiða og skipulegu samstarfi við erlenda háskóla

II. hluti: Nám og kennsla
Samþætting kennslu og rannsókna – öflugt grunnnám
·    Fræðasvið og deildir HÍ marki sér skýra kennslustefnu sem kveði m.a. á um samþættingu rannsókna og kennslu á öllum námsstigum
·    Nemendur fái tækifæri til að kynnast hæfustu rannsakendum og kennurum skólans þegar á fyrsta ári í grunnnámi
·    Lögð verði áhersla á fjölbreytta kennsluhætti sem hvetja nemendur til virkrar þátttöku í náminu
·    Stuðlað verði með markvissum hætti að auknu samstarfi deilda og fræðasviða, styrkja þverfræðilegt samstarf og nýta sem best mannauð og fjármuni háskólans
·    Hlutfallið á milli fjölda fastra kennara (ársverk) og virkra nemenda verði bætt. Sérstakt átak verði gert í deildum þar sem þörfin er brýnust

Þátttaka, ástundun og ábyrgð í námi
·    HÍ endurskoði stefnu sína um inntöku nýnema. Inntökukröfur verði endurskilgreindar og markvisst unnið að því að auka námsástundun, bæta námsframvindu og draga úr brottfalli
·    Skilgreindur verði hámarkstími til að ljúka prófgráðu í öllum deildum og á öllum námsstigum. Einnig verði skilgreindur samanlagður hámarkstími sem hver nemandi hefur til að ljúka fyrstu prófgráðu
·    Lögð verði aukin áhersla á símat og fjölbreytilegar matsaðferðir og með því dregið úr vægi lokaprófa
·    Nemendur séu ávallt upplýstir um þær kröfur sem til þeirra eru gerðar sem námsmanna og háskólaborgara, m.a. um þátttöku í stjórnun skólans
·    Félög nemenda gæti að orðspori HÍ í tengslum við atburði og útgáfur á þeirra vegum
·    HÍ leggur áherslu á að allir nemendur njóti stuðnings í námi sínu og séu vel upplýstir um einstök námskeið og námsleið sína í heild

Árangur í kennslu
·    Við HÍ verði beitt fjölbreyttum aðferðum til að meta gæði náms og kennslu, s.s. með könnunum og skipulegum samráðsfundum nemenda og kennara í öllum deildum
·    Fjöldi námseininga (ECTS) og vinnuálag nemenda í einstökum námskeiðum verði samræmt
·    Kennsluferilskrár kennara verði þróaðar áfram til að auka gæði náms og þær notaðar með markvissum hætti til að umbuna fyrir árangur í kennslu
·    Fylgst verði reglubundið með afdrifum brautskráðra nemenda í frekara námi og starfi

Tengsl við fyrri skólastig
·    Tengsl HÍ við framhaldsskóla og grunnskóla landsins verði styrkt. HÍ leggi sig fram um að veita ungu fólki fræðslu og vekja áhuga þess á vísindum, m.a. með Vísindavefnum og Háskóla unga fólksins
·    Til að tryggja að nemendur í framhaldsskólum séu upplýstir og færir um að hefja krefjandi háskólanám mun HÍ skilgreina og kynna hæfnikröfur sem nýnemar verða að uppfylla í hinum ólíku deildum skólans
·    Ennfremur leitast háskólinn við að upplýsa nemendur um atvinnumöguleika að námi loknu

III. hluti: Mannauður
·    Gerðar eru miklar kröfur um hæfni við ráðningu og framgang á milli starfsheita. HÍ vill laða til sín starfsfólk með fjölbreyttan bakgrunn
·    HÍ leggur metnað sinn í að taka vel á móti nýjum starfsmönnum og nemendum
·    Sérstaklega verði hugað að móttöku og upplýsingagjöf til erlendra starfsmanna og nemenda
·    Nýir kennarar fái stuðning við að undirbúa rannsókna- og kennsluferil sinn við HÍ, t.d. með sérstökum stuðningi Rannsóknasjóðs HÍ
·    Fræðasvið og deildir komi á samráðsvettvangi með fulltrúum atvinnu- og þjóðlífs, m.a. til að fjalla um menntunarþarfir og gengi brautskráðra nemenda
·    Erlendir starfsmenn og stúdentar verði hvattir til að sækja námskeið í íslensku
·    Erlendir meistara- og doktorsnemar gangist eftir því sem við á undir stöðupróf í ensku áður en þeir hefja nám

IV. hluti: Ábyrgð gagnvart samfélaginu og umheiminum
·    Fræði- og vísindamenn HÍ eru virkir þátttakendur í opinberri umræðu og stuðla að uppbyggingu íslensks samfélags í krafti sérþekkingar sinnar
·    HÍ leggur áherslu á að efla tengsl við atvinnulíf í landinu svo að nám og rannsóknir taki ávallt mið af raunverulegum aðstæðum í samfélaginu hverju sinni
·    HÍ vill efla rannsóknir á grunnstoðum íslensks samfélags, m.a. í tengslum við uppbyggingu íslenskrar stjórnsýslu og réttarkerfis.
·    Öll fræðasvið og deildir setji sér markmið og skilgreini leiðir til að flétta saman siðfræði og faglegt nám, efla siðferðilega dómgreind og þjálfa gagnrýna hugsun
·    HÍ setji formlegar starfsreglur um þjónusturannsóknir og kostuð störf sem kveði m.a. á um fræðilegt sjálfstæði gagnvart verkkaupa og kostunaraðila
·    HÍ mun setja sér metnaðarfulla umhverfisstefnu og vill auka skilning og þekkingu fólks á sjálfbærni jafnt innan skólans sem utan
·    Fræðsla fyrir almenning verði efld með víðtækri miðlun vísinda og nýsköpunar, s.s. á vettvangi Vísindavefsins, Háskóla unga fólksins og með opnum fyrirlestrum, málþingum og öðrum viðburðum
·    HÍ mæti þörfum samfélagsins fyrir endur- og símenntun með fjölbreyttu námsframboði á vettvangi deilda og Endurmenntunarstofnunar

Rektor þakkaði Jóni Atla fyrir kynninguna og gaf orðið laust.

Forseti Félagsvísindasviðs þakkaði heildarstefnuhópnum fyrir mjög gott starf. Sagði hann að Félagsvísindasvið hefði í umsögn sinni um fyrstu drög stefnunnar sett fram ýmis sjónarmið sem komið hefði verið til móts við að miklu leyti. Þá sagði forsetinn stefnu Háskóla Íslands hafa tvö meginmarkmið, þ.e. í fyrsta lagi að styrkja stöðu skólans sem alþjóðlegs rannsóknaháskóla í fremstu röð og í öðru lagi að undirstrika sérstakar skyldur hans gagnvart íslensku samfélagi. Með síðarnefnda markmiðinu væri ekki aðeins átt við samfélagslega og siðferðilega ábyrgð, heldur ekki síður rannsóknir á íslensku samfélagi, tungu og menningu. Slíkar rannsóknir væru í mörgum tilvikum aðeins stundaðar við Háskóla Íslands og af því leiddi sérstakar skyldur við íslenskt samfélag sem fjármagnar skólann. Önnur birtingarmynd þessarar skuldbindingar háskólans við íslenskt samfélag væri að félagsvísindin mennta fólk til að gegna mörgum undirstöðustörfum samfélagsins og á þetta ekki síst við eftir efnahagshrunið. Einnig lýsti forseti Félagsvísindasviðs ánægju sinni með þau metnaðarfullu markmið sem sett eru í nýju stefnunni á sviði náms og kennslu. Loks vék hann að spurningunni, hvernig stefnan verður fjármögnuð. Sagði hann að þótt metnaðarfull markmið Háskóla Íslands kosti mikla peninga væri engin ástæða til að hvika frá settu marki. Engu að síður þyrfti skólinn að vera sveigjanlegur og væri það skynsamlegt að kveða ekki á um forgangsröð markmiða í stefnunni. Jafnframt þyrfti háskólinn að beita sér fyrir auknum framlögum og í tengslum við fjármál skólans væru mörg verkefni framundan, þ. á m. endurskoðun reiknilíkans og deililíkans. Þegar öllu væri á botninn hvolft skipti þó mestu máli að háskólafólk stæði saman og að fræðasvið og deildir virtu ólík sjónarmið.

Forseti Heilbrigðisvísindasviðs þakkaði framsögumanni og stefnuhópnum fyrir góða vinnu. Sagði hann lofsvert að í endurskoðuðum stefnudrögum hefði verið tekið tillit til margvíslegra sjónarmiða fræðasviða háskólans, þótt það leiddi af eðli máls að ýmsir hefðu viljað að komið hefði verið enn lengra til móts við sig. Í því sambandi bæri þó til þess að líta að fræðasviðin hefðu tækifæri til að útfæra einstök stefnumið í stefnuskjölum sínum. Þá vék forsetinn sérstaklega að kaflanum um grunngildi og sagði koma til álita að „fagmennska“ yrði tiltekin sérstaklega í því sambandi. Næst beindi hann sjónum að rannsóknahlutanum. Sagði forsetinn mikilvægt að halda því sífellt á lofti hversu miklum árangri Háskóli Íslands hefði náð á sviði rannsókna á síðustu árum. Öllum væri kunnugt um afrek Íslendinga á sviði íþrótta, en þetta ætti ekki síður við á sviði vísinda. Kæmi þetta t.d. skýrt fram í því að Ísland mælist í öðru sæti á heimsvísu þegar metin eru áhrif vísindabirtinga. Svipuð mynd blasti við þegar einstök fræðasvið væru skoðuð og röðuðu þau sér öll í efstu 10 sætin. Sýndi þetta að öll fræðasvið háskólans væru sterk á sviði rannsókna og engin ástæða til að gera upp á milli þeirra. Öllu máli skipti að halda ótrauð áfram og setja markið hátt. Þá sagði forseti Heilbrigðisvísindasviðs það vera fagnaðarefni hve rík áhersla vær lögð á kennslu og nám í nýju stefnunni. Kennsla væri ekki víkjandi stærð í skólanum heldur ætti að leggja hana að jöfnu við rannsóknir. Einnig vék forsetinn að inntökukröfum í Háskóla Íslands og þeirri spurningu, hvort nauðsynlegt væri að herða þær, enda lægi fyrir að talsverður hluti nýnema heltist úr lestinni á fyrsta námsári og kæmist ekki á annað námsár. Að endingu sagðist forsetinn sakna þess að ekki væri minnst á stjórnsýslu háskólans í nýju stefnunni. Hún skipti miklu máli og ætti að skipa háan sess í skólanum.

Forseti Verkfræði- og náttúruvísindasviðs fagnaði því að ný stefna Háskóla Íslands setti markið hátt. Mikilvægt væri að halda á lofti gildi háskólastarfs og gætu Íslendingar lært af Þjóðverjum í því efni. Sagði forsetinn að á Bretlandseyjum væri algengt að fólk vissi jafnvel ekki hvar í heimaborg sinni háskólinn hefði aðsetur, en t.d. í Bonn væru allir meðvitaðir um háskólann sinn og í kynningarbæklingum um borgina væri hampað nóbelsverðlaunahöfum sem starfað hefðu við skólann. Þetta sýndi metnað og þroskað gildismat sem mikilvægt væri að efla hér á landi. Þá lýsti forseti Verkfræði- og náttúruvísindasviðs ánægju sinni yfir því að í nýrri stefnu Háskóla Íslands væri sérstakur kafli um samfélagslega ábyrgð og hnattræna vitund, þótt útfæra hefði mátt þessa þætti nánar í kaflanum um rannsóknir. Sama mætti segja um kaflann um nám og kennslu þar sem kveða hefði mátt á um að nemendur ættu að skilja hnattræna ábyrgð og þekkja sjálfbærnihugtakið, enda myndi slík þekking skipta sköpum í framtíðinni.

Deildarforseti Kennaradeildar þakkaði heildarstefnuhópnum fyrir góða vinnu og sagði stefnuplaggið vera skýrt, læsilegt og vel upp byggt. Gott væri að samfélagsleg ábyrgð væri hafin til verðskuldaðs vegs og virðingar í plagginu og einnig væri kennslukaflinn til mikillar prýði. Benti deildarforsetinn þó á tvö atriði sem huga mætti betur að. Í fyrsta lagi væri varasamt að einblína á það hlutverk framhaldsskólans að búa fólk undir háskólanám því það væri ekki síður hlutverk hans að koma nemendum til almennrar menntunar. Helsti vandi framhaldsskólans væri mikið brottfall nemenda og væri mikilvægt að vinna gegn því með því að opna fleiri leiðir fyrir nemendur en í háskólanám. Í öðru lagi þyrfti að huga vel að því hvernig háskólinn tæki á móti nýnemum og að þeim verði kennd þau vinnubrögð sem krafist er í háskólanámi. Að síðustu vék deildarforseti Kennaradeildar að kaflanum um samfélagslega ábyrgð og sagði að þar kæmi til álita að bæta við lykilmælikvarða um fjölda þróunarverkefna sem starfsmenn háskólans tækju þátt í. Einnig þyrfti að tryggja að mat á störfum akademískra starfsmanna tæki mið af þessum þætti.

Forseti Hugvísindasviðs tók undir þakkirnar til framsögumanns og heildarstefnuhóps og sagðist vera sammála stefnuplagginu í flestum atriðum. Sagði forsetinn að það myndi styrkja stefnuplaggið enn frekar ef umfjöllunin um ábyrgð í tengslum við opinbera umræðu yrði tengd betur við ábyrgð í tengslum við rannsóknir og kennslu. Þá væri ástæðulaust að takmarka umfjöllunina um eflingu rannsókna á grunnstoðum íslensks samfélags við stjórnsýslu og réttarkerfi heldur mætti bæta við menntakerfi og menningu. Einnig vakti forseti Hugvísindasviðs athygli á að í plagginu væri víða talað um „fræði- og vísindamenn“. Þetta væri óþörf tvítekning og færi betur á því að tala almennt um vísindamenn. Um kennsluhlutann sagði forsetinn það orka tvímælis að gera þátttöku í kennslukönnun að skyldu. Ef þetta yrði hins vegar látið standa óbreytt væri órökrétt að miða árangur við hlutfall þeirra sem tækju þátt í könnuninni. Þá væri ástæðulaust að takmarka skyldusókn námskeiða í kennsluháttum og kennsluaðferðum við nýja kennara, heldur þyrftu allir kennarar á reglulegri endurmenntun að halda.

Forseti Viðskiptafræðideildar sagði að æskilegt væri að fækka markmiðum og árangursmælikvörðum í stefnuplagginu. Ef lagt yrði upp með 50 markmið væri hætta á að þau misstu marks. Ef markmiðin væru hins vegar ekki fleiri en 5 að tölu væri um réttnefndar og raunhæfar áherslur að ræða. Til dæmis um markmið sem mætti fella niður nefndi deildarforsetinn markmiðið um að styrkja faglega ábyrgð deilda. Hér væri á ferð málefni sem væri á forræði deildanna sjálfra og ekki ástæða til að háskólinn segði þeim fyrir verkum um það. Einnig mætti að ósekju fella niður markmiðið um að nemendur á fyrsta námsári kynntust hæfustu rannsakendunum. Þetta ætti að vera deildunum í sjálfsvald sett, auk þess sem erfitt væri að tilgreina hverjir væru hæfustu rannsakendurnir. Svipuðu máli gegndi um ákvæðið um hámarkshlutfall stundakennslu af heildarkennslumagni og um ákvæði stefnunnar um að öll fræðasvið setji sér markmið um að efla siðferðilega dómgreind. Eftirláta ætti deildum háskólans hvort og hvernig þær hygðust gera þetta.

Formaður heildarstefnuhópsins brást við framkomnum athugasemdum. Varðandi ábendinguna um að kveða mætti á um fagmennsku í stefnutextanum benti hann á að þetta væri sannarlega gert framarlega í plagginu. Um athugasemdina um að hlutur stjórnsýslunnar mætti vera meiri í stefnuskjalinu sagði hann það síður en svo stafa af vanmati. Þvert á móti lægi fyrir að mikið myndi mæða á stjórnsýslu háskólans við eftirfylgni stefnunnar og því væri mikið traust lagt á hana og hún í reynd undirliggjandi víða í textanum. Einnig vék formaðurinn að þeirri ábendingu að fjalla mætti meira um sjálfbærni í stefnunni. Sagði hann að þetta mætti vissulega til sanns vegar færa, en mestu máli skipti þó að í stefnunni væri kveðið á um að mörkuð skyldi sérstök stefna um sjálfbærni og þar yrðu þessum málaflokki gerð ítarleg skil. Þá þakkaði formaður heildarstefnuhópsins forseta Kennaradeildar fyrir góða ábendingu um fjölþætt hlutverk framhaldsskólans og tengsl háskólans við framhaldsskólana í landinu og beindi því til sérfræðinga Menntavísindasviðs að setja fram tillögu um hvernig orða mætti þetta markmið betur. Einnig vék formaðurinn að athugasemdinni um mikilvægi þess að matskerfi háskólans meti þróunarstarf að verðleikum. Sagði hann þennan starfsþátt vera viðurkenndan, þótt vissulega mætti rökræða hvort gera ætti honum hærra undir höfði. Þakkaði formaðurinn fyrir ábendingu um hvernig mætti brúa samfélagslega ábyrgð annars vegar og rannsóknir og kennslu hins vegar. Varðandi ákvæðið um aukna þátttöku nemenda í kennslukönnunum sagði hann það ekki síst sett fram í hvatningarskyni. Um ákvæði stefnunnar um námskeið fyrir kennara sagði formaður heildarstefnuhópsins mikilvægt að kennarar tækju þátt í endurmenntun á sviði kennslu og að slík námskeið gætu verið gagnleg þótt þau væru ekki mjög löng. Varðandi athugasemdina um að markmið stefnunnar væru of mörg benti hann á að þau væru álíka mörg og í fyrri stefnu og reynslan hefði sýnt að mjög vel hefði tekist að halda utanum framkvæmdina. Um ábendinguna um að stefnan fæli í sér íhlutun í málefni deilda sagði formaðurinn að stefnan efaðist ekki um faglega ábyrgð deilda heldur væri markmið stefnunnar þvert á móti að efla hana. Varðandi athugasemdina um fjölda stundakennara sagði hann það almennt óæskilegt að stundakennarar beri uppi kennslu að verulegu leyti og mikilvægt að hafa hátt hlutfall fastra kennara til að geta sinnt nemendum sem best auk þess sem stundakennarar hefðu ekki rannsóknahlutverk.

Kl. 11.30-11.50 - Fundarhlé

Að loknu fundarhléi tók fulltrúi Félags prófessora til máls. Sagðist hann vera mjög ánægður með nýju stefnuna sem væri í senn metnaðarfull og raunhæf. Þótt háskólinn stæði nú frammi fyrir niðurskurði væri um tímabundna erfiðleika að ræða og mikilvægt að missa ekki sjónar á langtímamarkmiðum skólans og hefjast handa við uppbyggingu um leið og rofaði til að nýju. Lagði fulltrúinn áherslu á að fagfélögin yrðu höfð með í ráðum við þær ákvarðanir sem framundan væru. Einnig vék hann að ábendingu forseta Heilbrigðisvísindasviðs um að ekki ætti að gera upp á milli fræðigreina. Sagði fulltrúinn að þótt þetta væri vissulega rétt, skipti mestu máli að öll fræðasvið og allar fræðigreinar byggðu á alþjóðlegum viðmiðum um fagleg gæði, hvort sem í hlut ættu rannsóknir eða kennsla. Endaði fulltrúinn mál sitt á að lýsa því yfir að Félag prófessora væri reiðubúið að vinna með háskólanum að því að ná markmiðum sínum með alþjóðleg viðmið að leiðarljósi.

Forseti Menntavísindasviðs vitnaði í Bandaríkjamanninn Clar Kerr, höfund bókarinnar „The Uses of the University“, sem heldur því m.a. fram að hlutverk háskóla sé ekki eitt heldur séu háskólar margslungnar stofnanir sem hafi mörg markmið. Sagði forsetinn þetta endurspeglast í hinu nýja stefnuplaggi sem tækist þó vel að samrýma hin ólíku markmið án málalenginga. Ýmislegt í plagginu væri opið og óútfært og væri það bæði kostur og galli. Þannig væri t.d. gagnlegt að rígbinda ekki mælikvarðana heldur að taka fram að þeir væru opnir fyrir endurskoðun, þótt stefnumiðin væru áfram þau sömu. Mikilvægast væri þó að ná sátt um plaggið. Þá benti forseti Menntavísindasviðs á nokkur atriði sem hugleiða mætti frekar. Þannig mætti koma því betur í orð að starf háskólans snúist um menntun, þ.e. nám og kennslu. Einnig taldi forsetinn sýnina á samfélagslegt hlutverk háskólans vera óþarflega þrönga. Vissulega skipti miklu máli að háskólafólk taki þátt í samfélagslegri umræðu, en þó ætti ekki að láta þar við sitja heldur ganga lengra, því með kennslu og rannsóknum væri í reynd verið að mennta framtíðar þjóðfélagsþegna landsins. Á sama hátt væri umfjöllunin um nýsköpun óþarflega þröng. Nýsköpun snérist ekki aðeins um hugverk og hagnýtingu þeirra heldur væru háskólakennarar að endurskapa veruleikann hver á sínu sviði og það væri ekki síður nýsköpun. Þá vék forsetinn aftur að hlut fagmennsku sem hann hafði komið inn á fyrr í umræðunni. Sagði hann algengt að fólk misskildi fagmennsku sem eitthvað sem alþjóðleg viðmið giltu ekki um. Þetta væri rangt viðhorf og hefði þess verið getið í umsögn Menntavísindasviðs um fyrri drög stefnunnar. Á fræðasviðinu væri starfandi vettvangsráð sem hefði það hlutverk að tengja starfið við fagstéttirnar. Ennfremur vakti hann máls á því að í stefnunni ætti að leggja meiri áherslu á að námsframboð háskólans væri endurskoðað í sífellu. Loks vék forseti Menntavísindasviðs að rannsóknamatskerfi háskólans og sagði mikilvægt að tryggja að það dragi ekki í sundur á milli þeirra sem væru virkastir og hinna sem ekki væru komnir á flug í rannsóknum. Þótt það væri sumpart skiljanlegt að hvatakerfi gætu virkað þannig að þeir sem fengju mest út úr þeim kæmust með því í aðstöðu til að fá enn meira, skipti meira máli að horfa á heildina og sjá til þess að allt starf háskólans væri í lagi, ekki aðeins sumt. Í því fælist m.a. að leita allra leiða til að hvetja þá sem skiluðu minni afköstum til að bæta frammistöðu sína og vaxa í starfi.

Forseti Læknadeildar sagði öllu máli skipta að nýja stefnan væri rökrétt framhald af þeirri fyrri. Þar hefði staðið upp úr það markmið að efla Háskóla Íslands sem rannsóknaháskóla og að koma honum í hóp fremstu háskóla á alþjóðavísu. Í því sambandi skipti ekki mestu hvort miðað væri við hundrað bestu háskóla í heimi eða eitthvað annað, heldur metnaðurinn sem kæmi fram í því að bera sig saman við það besta. Þetta markmið væri ekki í mótsögn við þjóðlegar áherslur eins og skýrt kæmi fram í nýlegum greinum í bandaríska vísindatímaritinu Nature þar sem fjallað væri um eldgos og Íslenska erfðagreiningu – hvort tveggja væru í senn alþjóðleg og íslensk viðfangsefni.

Forseti Lagadeildar þakkaði heildarstefnuhópnum fyrir stefnuskjalið sem hann sagði hafa um margt tekist vel þótt það væri ekki hafið yfir gagnrýni. Nefndi deildarforsetinn nokkur atriði í því sambandi. Í fyrsta lagi væri metnaður stefnunnar ekki í samræmi við fjárhagslegan raunveruleika háskólans. Vissulega mætti stefnan ekki einskorðast við skammtímahugsun um niðurskurðinn framundan. Engu að síður myndi beinna áhrifa niðurskurðarins væntanlega gæta talsverðan hluta gildistíma stefnunnar, auk þess sem langtímaáhrifin myndu vara enn lengur. Í ljósi þessa veitti stefnan ekki þá leiðsögn sem nauðsynleg væri til að takast á við kreppuna. Nefndi forsetinn tvö dæmi máli sínu til stuðnings. Í fyrsta lagi gæfi stefnan enga vísbendingu um hvernig ætti að bera sig að við töku erfiðra ákvarðana á borð við uppsagnir starfsmanna. Í öðru lagi væri í stefnunni kveðið á um að hlutfall kennara og nemenda skyldi bætt um leið og tækifæri gæfist, en ekki tekið fram í hvaða deildum fjölga ætti kennurum. Frá sjónarhóli Lagadeildar, þar sem hlutfall kennara og nemenda væri um 1:50, vektu þessi óljósu skilaboð þá spurningu, hvort til stæði að hlífa deildinni við frekari niðurskurði og starfsmönnum deildarinnar við uppsögnum. Þá vék deildarforsetinn að því ákvæði skjalsins að á stefnutímabilinu yrðu inntökukröfur í Háskóla Íslands endurskoðaðar. Sagði hann að þetta yrði að orða skýrar því eins og ákvæðið væri sett fram þýddi það að marka skyldi stefnu um að marka stefnu. Sýndi þetta að stefnan forðaðist að takast á við erfiðar ákvarðanir og að skýran leiðarvísi vantaði um þær, þ.e. að grunngildunum frátöldum. Næst beindi forseti Lagadeildar orðum sínum að umfjöllun stefnunnar um kennslu og rannsóknir. Sagði hann að þótt það væri lofsvert að fjallað væri sérstaklega um tengsl kennslu og rannsókna í stefnunni, þá væri rannsóknaþátturinn þó enn ríkjandi eins og í fyrri stefnu. Í því sambandi nefndi forsetinn sérstaklega það ákvæði stefnunnar að nemendur fengju tækifæri þegar á fyrsta námsári til að kynnast hæfustu rannsakendunum og kennurunum. Í Lagadeild væri ekkert vandamál að leiða fram bestu kennarana á fyrsta námsári nemenda. Þannig kenndi t.d. fastráðinn og reyndur kennari stærsta námskeiðið á fyrsta ári. Vandinn væri hins vegar sá að þessi kennari þyrfti að annast 300 nemendur vegna þess hve fáir kennarar væru við deildina. Vissulega væri mikilvægt að Háskóli Íslands væri sterkur rannsóknaháskóli, en það mætti ekki bitna á kennslunni. Því skipti miklu hvort stefnan yrði til þess að styrkja enn frekar rannsóknaþáttinn eða hvort fé yrði fært frá rannsóknaþættinum til kennsluþáttarins. Að endingu vék forseti Lagadeildar að verklagi við undirbúning og afgreiðslu stefnunnar. Sagði hann að  lengri tíma hefði þurft til að vinna stefnuna og hvatti til þess að fulltrúum á háskólaþingi yrði gefinn kostur á að setja fram breytingartillögur um ýmis stærri og smærri mál.

Kjörinn fulltrúi Hugvísindasviðs gerði að umtalsefni fjölgun doktorsnema við Háskóla Íslands. Sagði fulltrúinn að ef horft væri 20-30 ár fram í tímann gæti blasað við sú staða að meirihluti fulltrúa á háskólaþingi væri með doktorsgráðu frá Háskóla Íslands! Vissulega væri lofsvert að háskólinn hefði náð miklum árangri við að ná markmiðum sínum, en ef svo yrði áfram þyrfti að horfast í augu við að skólinn myndi brautskrá um 300 doktora á stefnutímabilinu og vafalítið myndu þeir verða uppistaðan í næstu kynslóð kennara við skólann. Til mótvægis við þessa þróun þyrfti að leggja áherslu á að fjölga samningum við erlenda háskóla um sameiginlegar doktorsgráður og tryggja með því að nemendur tækju hluta af námi sínu erlendis. Þá vek fulltrúinn að tungumáli doktorsritgerða og sagði að þótt á flestum fræðasviðum tíðkaðist að doktorsnemar skrifuðu ritgerðir sínar á ensku, væri á Hugvísindasviði enn algengt að doktorsritgerðir væru á íslensku. Þetta gerði að verkum að ritgerðirnar væru ekki aðgengilegar nema um 300.000 manns, nema þær yrðu þýddar á ensku sem væri kostnaðarsamt.

Kjörinn fulltrúi Heilbrigðisvísindasviðs þakkaði heildarstefnuhópnum fyrir frábæra vinnu og sagði stefnuskjalið bæði vandað og metnaðarfullt. Sagðist fulltrúinn vera ósammála þeirri skoðun forseta Lagadeildar að stefnan þyrfti að veita leiðsögn um samdrátt og uppsagnir í kjölfar efnahagskreppunnar. Þvert á móti ætti að leggja allt kapp á að halda áfram á þeirri braut sem þegar hefði verið mörkuð og setja markið hátt í Háskóla Íslands. Það væri hlutverk skólans að setja sér metnaðarfulla stefnu á sviði kennslu og rannsókna, en það væri ábyrgð stjórnvalda að fjármagna stefnuna. Lagði fulltrúinn til að fyrirliggjandi lokadrög að stefnu Háskóla Íslands fyrir tímabilið 2011-2016 yrðu samþykkt óbreytt.  

Forseti Matvæla- og næringarfræðideildar vék að tengslum Háskóla Íslands við framhaldsskólastigið, sem forseti Kennaradeildar hafði gert að umtalsefni. Sagði fyrrnefndi forsetinn að þótt það væri ekki eina hlutverk framhaldsskólans að undirbúa nemendur undir háskólanám væri það staðreynd að brotthvarf háskólanema úr námi, einkum á fyrsta námsári, væri töluvert og því þyrfti háskólinn að huga vandlega að því hvað hann gæti gert til að stuðla að því að fleiri nemendur stæðust námskröfur til að geta flust á annað námsár. Ýmsar aðgerðir kæmu til greina, s.s. almennar aðgangstakmarkanir og skýr skilgreining á kröfum um undirbúning fyrir einstakar námsgreinar. Fara þyrfti yfir þetta mál á næstunni í samráði við mennta- og menningarmálaráðuneytið. Einnig sagði forseti Matvæla- og næringarfræðideildar nauðsynlegt að auka enn frekar sveigjanleika starfsskyldna háskólakennara, kennslu, rannsókna og stjórnunar. Þetta þyrfti þó að gera af varkárni og í sátt við félög kennara. Þá tók forsetinn undir með kjörnum fulltrúa Heilbrigðisvísindasviðs og forseta Læknadeildar um að gríðarleg tækifæri væru á Íslandi til að stunda rannsóknir sem sannarlega ættu erindi út fyrir landsteinana. Nærtækt dæmi um þetta væri efnahagshrunið sem opnaði fyrir rannsóknir á flestum ef ekki öllum fræðasviðum og gæfi sóknarfæri á vettvangi alþjóðlegra samkeppnissjóða fyrir rannsóknastyrki. Loks vék deildarforsetinn að orðum forseta Menntavísindasviðs um hættuna á að þeir sem þegar væru sterkastir á sviði rannsókna væru líklegastir til að bera mest úr bítum við úthlutanir úr rannsóknasjóðum. Sagði deildarforsetinn mikilvægt að vinna gegn slíku með því að tryggja að mats- og hvatakerfi rannsókna hlúi að efnilegum sprotum þótt þeir létu ekki mikið yfir sér í fyrstu.

Fulltrúi Endurmenntunarstofnunar þakkaði heildarstefnuhópnum fyrir gott starf og lýsti ánægju með áhersluna á samfélagslega ábyrgð í stefnunni. Beindi fulltrúinn orðum sínum sérstaklega að ákvæði stefnunnar um að fræðasvið og deildir komi á samráðsvettvangi með fulltrúum atvinnu- og þjóðlífs. Sagði fulltrúinn Endurmenntunarstofnun hafa langa og góða reynslu af slíkum samráðsvettvangi með fulltrúum víða að úr atvinnulífinu. Þá sagðist fulltrúinn efins um að skilgreina ætti hámarksnámstíma fyrir nemendur til að ljúka prófgráðu við Háskóla Íslands. Alltént þyrfti að tryggja þeim nemendum sem það vildu að þeir gætu skráð sig í hlutanám eða lokið t.d. meistaraprófi á lengri tíma.

Kjörinn fulltrúi Menntavísindasviðs þakkaði fyrir gott stefnuplagg. Sagði fulltrúinn stefnuna setja fram ýmis ögrandi markmið og væri það vel. Einnig væri ánægjulegt nýmæli að í stefnunni væri sérstakur kafli um ábyrgð gagnvart samfélaginu og umheiminum. Sagði fulltrúinn að gera hefði mátt meira úr kaflanum um grunngildi Háskóla Íslands og að hann endurspeglaði betur efnislegar áherslur samfélagskaflans. Til dæmis hefði komið til álita að gera sjálfbærni að grunngildi og sama gilti um fagmennsku. Einnig hefði mátt gera grunngildunum hærra undir höfði með því að enda stefnuplaggið á því að taka þau saman þannig að þau lægju sem rauður þráður frá upphafi til enda stefnunnar.  

Forseti Hagfræðideildar rifjaði upp að hann hefði unnið við fjárlagagerð í fjármálaráðuneytinu fyrir tæpum aldarfjórðungi. Sagði hann það hafa verið sitt síðasta verk í því starfi að skrifa greinargerð um fjárveitingar til Háskóla Íslands, en á þeim tíma hafði verið lenska að hópur einstaklinga sem starfaði við skólann kæmu á framfæri við ráðuneytið séróskum sínum varðandi fjárveitingar. Hefði þetta dregið úr skilvirkni og áhrifamætti fjárbeiðna skólans. Sagði deildarforsetinn þetta sýna hversu mikilvægt væri að tryggja að samhljómur væri um stefnu Háskóla Íslands. Einnig fjallaði deildarforsetinn um skyldur rannsóknaháskólans til að sinna íslenskum rannsóknaefnum. Sagði hann mikilvægt að rækja þessar skyldur því það væri íslenskur almenningur sem fjármagnaði háskólann með skattfé og þessi sami almenningur þyrfti að hafa tilfinningu fyrir því að starfsemi skólans væri í hans þágu. Til væru hundruð rannsóknaháskóla í heiminum og óvíst hvort íslenskir skattborgarar vildu greiða fyrir skóla sem hefði ekki vel skilgreint samfélagslegt hlutverk. Háskólinn þyrfti að líta svo á að hann hefði frumkvæðisskyldu gagnvart rannsóknum og þróun á íslensku samfélagi.

Utanaðkomandi fulltrúi í háskólaráði sagði það vera grunnskyldu Háskóla Íslands við samfélagið að skila því vel menntuðu fólki og nýrri þekkingu. Þetta tvennt væri það sem mestu skipti. Þegar rætt væri um aðra þætti í stefnu háskólans, s.s. um þátttöku háskólafólks í opinberri umræðu og þátttöku háskólans í umræðu um þróun og hlutverk framhaldsskólans í menntakerfinu, þá væri sú umræða gagnslaus nema framlag til umræðunnar byggðist á rannsóknarniðurstöðum. Háskólamenn hefðu framlag sem byggðist á rannsóknaniðurstöðum umfram framlag almennings til umræðunnar. Varðandi mannauðsmál sagði fulltrúinn mestu skipta að hafa hugfast að Háskóli Íslands væri fyrst og fremst fólkið sem þar starfaði, kennarar, nemendur og annað starfsfólk. Því skipti höfuðmáli að ráða til skólans framúrskarandi fræðimenn og laða að honum efnilega nemendur. Með vísan til þess sem kjörinn fulltrúi Hugvísindasviðs sagði fyrr á þinginu um ráðningu akademískra starfsmanna sem hefðu lokið doktorsprófi frá Háskóla Íslands sagði háskólaráðsfulltrúinn mikilvægt að gera það að fastri reglu að auglýsa öll störf á alþjóðlegum vettvangi. Á sama hátt þyrfti að stuðla markvisst að því að laða til skólans efnilegustu nemendurna og velja þá úr hópi umsækjenda. Með þessu móti yrðu nemendahóparnir smærri og kennslugæðin meiri.

Kjörinn fulltrúi Menntavísindasviðs lagði orð í belg varðandi nokkur einstök atriði stefnunnar. Í fyrsta lagi gat fulltrúinn um orðalagið „vísindaleg áhrif rannsóknastarfs“ og sagði mikilvægt að hafa í huga að þessi áhrif gætu verið af tvennum toga, annars vegar áhrif á aðra vísindamenn og hins vegar áhrif á starfsvettvang. Leggja þyrfti báðar merkingar til grundvallar í stefnunni. Í öðru lagi sagði hann kröfuna um að við upphaf doktorsnáms liggi fyrir „raunhæfa áætlun um fjármögnun og framvindu” vekja þá spurningu hvort við núverandi aðstæður sé forsvaranlegt að hvetja nemendur til að fara í doktorsnám nema fjölga jafnframt námsstyrkjum. Í þriðja lagi mætti víkka út lykilmælikvarðann um „fjölda samstarfs- og þróunarverkefna með aðilum úr atvinnu- og þjóðlífi“ þannig að hann næði einnig til þróunarverkefna í skólum. Spurði fulltrúinn í þessu sambandi hvort háskólasjúkrahúsið teldist til „atvinnulífs“ í þeirri merkingu sem hér væri lögð til grundvallar. Í fjórða lagi nefndi fulltrúi Menntavísindasviðs hvort ekki mætti tengja rannsókna- og fræðasetur Háskóla Íslands við markmiðin um að „aðstaða til rannsóknatengdrar kennslu verði bætt, m.a. með markvissri notkun upplýsingatækni, fjarkennslu og samstarfi við fremstu rannsóknaháskóla heims” og að Háskóli Íslands leitast við að tryggja „öllum nemendum jöfn tækifæri til menntunar“. Í fimmta lagi þyrfti að gæta þess að skilgreina ekki hugtakið „atvinnulíf“ of þröngt í markmiðinu um að „fylgst verði reglubundið með afdrifum brautskráðra nemenda í frekara námi og starfi, m.a. í því skyni að meta gæði og árangur námsins, þróa námsframboð og styrkja tengsl við atvinnulíf og fyrrverandi nemendur”. Eðlilegt væri að telja stofnanir á borð við spítala og skóla einnig til atvinnulífs. Í sjötta lagi vék fulltrúinn að markmiðum háskólans um að auka námstækifæri innflytjenda og sagði mikilvægt að gera sér grein fyrir því að hér væri á ferðinni mjög fjölbreytilegur hópur, s.s. skiptinemar, fólk af erlendum uppruna sem væri búsett á Íslandi en treysti sér ekki til að stunda nám á íslensku, erlendir framhaldsnemar, nemendur sem kæmu sem makar starfsmanna háskólans o.fl. Einnig þyrfti að hafa hugfast að í grunnnámi við háskólann væri framboð náms á ensku mjög takmarkað og úr því þyrfti að bæta ef ætlunin væri að tryggja öllum nemendum jöfn tækifæri til menntunar. Í sjöunda lagi beindi fulltrúinn orðum sínum að markmiðinu um að „Háskóli Íslands vill efla rannsóknir á grunnstoðum íslensks samfélags, m.a. í tengslum við uppbyggingu íslenskrar stjórnsýslu og réttarkerfis“ og sagði nauðsynlegt að það tæki einnig til menntakerfisins, heilbrigðiskerfisins og almennt þess sem við kölluðum velferðarkerfi.

Forseti Hjúkrunarfræðideildar ræddi tengsl sköpunar og hagnýtingar þekkingar. Sagði forsetinn varasamt að leggja of þröngan skilning í hagnýtingarhugtakið því háskólar gerðu ævinlega hvort tveggja, að skapa nýja þekkingu með rannsóknum og að hagnýta hana með því að hafa áhrif á samfélagið og breyta því. Gott dæmi um þetta væri hjúkrunarfræðin sem hefði gerbreytt möguleikum íslensks samfélags til að njóta hjúkrunar og þar með heilbrigðiskerfinu öllu. Þá vék forseti Hjúkrunarfræðideildar að orðum forseta Lagadeildar um að stefnan þyrfti að vera leiðarvísir um hvernig bregðast ætti við kreppu og niðurskurði fjárveitinga. Sagði fyrrnefndi deildarforsetinn mikilvægt að ný stefna Háskóla Íslands væri metnaðarfull, en þó þyrfti e.t.v. til viðbótar að móta innri stefnu um viðbrögð við kreppu og ógnunum. Slík innri stefna gæti auðveldað ákvarðanatöku um skiptingu takmarkaðra fjárveitinga. Ljóst væri að þar sem ríkisvaldið hefði frestað gildandi rannsóknasamningi við háskólann þyrfti að fjármagna rannsóknastarfið með því að taka peninga frá kennslu og færa til rannsókna. Slík ráðstöfun orkaði tvímælis því með því að taka fé frá kennslu yrði grafið undan þeirri menntun sem stæði undir rannsóknastarfi framtíðarinnar.

Formaður heildarstefnuhópsins brást að endingu við nokkrum framkomnum spurningum og athugasemdum. Varðandi athugasemd forseta Menntavísindasviðs um „vettvangsráð“ benti hann á að gert væri ráð fyrir því í stefnunni. Um ábendingu fræðasviðsforsetans um mikilvægi þess að yfirvega námsframboð deilda í sífellu sagði formaðurinn að megináhersla stefnunnar væri einmitt á að styrkja innviði háskólastarfsins og í því sambandi væri m.a. sérstaklega kveðið á um að endurskoðun hæfniviðmiða og yfirvegun námsins út frá þeim. Um ábendingu forseta Menntavísindasviðs um að ekki mætti skilja nýsköpunarhugtakið of þröngt sagði formaðurinn að við gerð stefnunnar hefði verið tekið mið af nýrri skýrslu starfshóps háskólaráðs um nýsköpun og þar væri einmitt lögð áhersla á víða skilgreiningu hugtaksins „nýsköpun“ sem tæki til allra fræðasviða. Um gagnrýni forseta Lagadeildar á vinnulag við þróun nýju stefnunnar vísaði formaður heildarstefnuhópsins til inngangsorða sinna um að víðtækt samráð hefði verið haft við fjölmarga aðila innan og utan háskólans, auk þess sem drög að stefnuskjali hefðu verið send fræðasviðum og deildum til umsagnar og heildarstefnuhópurinn hefði lagt sig fram um að koma til móts við framkomnar umsagnir. Um ábendingu forseta Lagadeildar um inntökukröfur sagði formaðurinn að málið hefði verið á dagskrá síðasta háskólaþings og hefði það einnig verið rætt ítarlega í heildarstefnuhópnum. Hins vegar væri ljóst að innleiðing almennra aðgangstakmarkana við Háskóla Íslands væri flókið mál sem þyrfti að skoða sérstaklega. Í því sambandi þyrfti m.a. að hafa í huga að miðað við núverandi fjármögnunarkerfi háskólanáms á Íslandi gæti fækkun nemenda haft í för með sér skerðingu fjárveitinga. Einnig benti formaðurinn á að skv. gildandi lögum og reglum gætu deildir háskólans óskað eftir takmörkun á fjölda nemenda og tíðkaðist það nú þegar í nokkrum deildum skólans, einkum á Heilbrigðisvísindasviði. Varðandi athugasemdir kjörins fulltrúa Hugvísindasviðs um doktorsnám benti formaðurinn á að öflugt doktorsnám við Háskóla Íslands skipti sköpum við að laða til skólans öflugt rannsóknafólk. Þá hefði hefði verið sett á laggirnar við skólann sérstök Miðstöð framhaldsnáms sem hefði það hlutverk að tryggja gæði doktorsnámsins. Að lokum þakkaði formaðurinn fulltrúum á háskólaþingi fyrir góðar umræður og gagnlegar ábendingar. Einnig þakkaði hann heildarstefnuhópnum, forsetum fræðasviða, umsagnaraðilum og þeim sem komu að lokafrágangi stefnuplaggsins fyrir þeirra framlag.

Rektor þakkaði einnig öllum sem hefðu með einum eða öðrum hætti komið að gerð nýrrar stefnu Háskóla Íslands fyrir tímabilið 2011-2016. Sagðist rektor skilja áhyggjur sumra þingfulltrúa yfir því að á brattann væri að sækja varðandi fjárveitingar ríkisins. Mikilvægast væri þó að Háskóli Íslands hlypist ekki undan merkjum heldur setti fram metnaðarfulla stefnu og legði þannig fram ómetanlegan skerf til endurreisnar íslensks efnahags- og atvinnulífs. Ljóst væri að fyrri stefna hefði skilað raunverulegum verðmætum og ný stefna myndi gera það einnig.

Að lokum bar rektor upp þá tillögu um málsmeðferð að fulltrúum á háskólaþingi verði boðið að senda inn skriflegar athugasemdir fyrir vikulok. Á grundvelli innsendra athugasemda og með hliðsjón af umræðum og ábendingum á háskólaþingi verði rektor, forsetum fræðasviða og háskólaráði falið að ganga frá stefnuskjalinu.

- Samþykkt einróma.

Til máls tóku undir þessum lið, auk rektors og Jóns Atla Benediktssonar, Ólafur Þ. Harðarson, Sigurður Guðmundsson, Kristín Vala Ragnarsdóttir, Anna Kristín Sigurðardóttir, Ástráður Eysteinsson, Snjólfur Ólafsson, Gísli Már Gíslason, Jón Torfi Jónasson, Guðmundur Þorgeirsson, Róbert R. Spanó, Anna Agnarsdóttir, Elín Soffía Ólafsdóttir, Inga Þórsdóttir, Kristín Jónsdóttir, Allyson Macdonald, Þórólfur Matthíasson, Sigríður Ólafsdóttir, Ólafur Páll Jónsson og Guðrún Kristjánsdóttir.

Að lokum þakkaði rektor framsögumönnum og þingfulltrúum fyrir góðar og málefnalegar umræður og bauð þeim að þiggja hressingu í anddyri Hátíðasalar.

Útsend gögn og gögn sem lögð voru fram á 5. háskólaþingi 7. desember 2010:

1.    Dagskrá og tímaáætlun 5. háskólaþings 7. desember 2010.
2.    Listi yfir fulltrúa á háskólaþingi.
3.    Fundargerð 4. háskólaþings 7. maí 2010.
4.    Drög að Stefnu Háskóla Íslands 2011-2016.