Skip to main content

Háskólaráðsfundur 7. október 2010

09/2010

HÁSKÓLARÁÐSFUNDUR

Ár 2010, fimmtudaginn 7. október var haldinn fundur í háskólaráði sem hófst kl. 13.00.

Fundinn sátu Kristín Ingólfsdóttir, Anna Agnarsdóttir, Börkur Hansen, Fannar Freyr Ívarsson, Guðrún Sóley Gestsdóttir, Guðrún Hallgrímsdóttir, Hilmar B. Janusson, Pétur Gunnarsson, Sigríður Ólafsdóttir, Tinna Laufey Ásgeirsdóttir og Þórður Sverrisson. Fundinn sat einnig Jón Atli Benediktsson. Fundargerð ritaði Magnús Diðrik Baldursson.

Áður en gengið var til dagskrár greindi rektor stuttlega frá nokkrum viðburðum í starfi háskólans frá síðasta fundi ráðsins. Í fyrsta lagi hefur söfnunarátak fyrir væntanlega byggingu húss Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur gengið afar vel og hafa safnast um 250 m.kr. frá afmæli Vigdísar í apríl sl. og von er á frekari framlögum. Í öðru lagi hefur ávöxtun Háskólasjóðs Eimskipafélags Íslands verið góð eftir efnahagshrunið sem gefur von til þess að brátt verði aftur unnt að úthluta styrkjum til doktorsnema. Í þriðja lagi greindi rektor frá samstarfsverkefni Stanford háskóla, NASA og Raunvísindastofnunar, en í því felst m.a. að Stanford-háskóli greiðir laun stjarneðlisfræðings á Raunvísindastofnun. Í fjórða lagi skýrði rektor frá því að Bryndís Hrafnkelsdóttir viðskiptafræðingur hefur verið ráðin nýr forstjóri Happdrættis Háskóla Íslands í stað Brynjólfs Sigurðssonar sem hefur látið af störfum vegna aldurs. Í fimmta lagi sagði rektor frá yfirstandandi átaki í vefmálum Háskólans. Gert er ráð fyrir að allt efni á háskólavefnum verði uppfært á íslensku og ensku fyrir komandi áramót og að í kjölfarið verði eldri vefkerfum lokað. Í sjötta lagi vakti rektor athygli á nýútkominni Árbók Háskóla Íslands 2009 og þremur nýjum samstarfssamningum Háskóla Íslands, við Hafrannsóknastofnunina, Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins og Reykjalund.

Fundargerð síðasta fundar var lögð fram og hún samþykkt.

1.     Mál á dagskrá

1.1    Fjármál Háskólans. Staða og horfur í ljósi fjárlagafrumvarps fyrir árið 2011.
Inn á fundinn komu Guðmundur R. Jónsson, framkvæmdastjóri fjármála og reksturs og formaður fjármálanefndar og Sigurður J. Hafsteinsson, sviðsstjóri fjármálasviðs og gerðu grein fyrir stöðu og horfum í fjármálum Háskóla Íslands í ljósi fjárlagafrumvarps Alþingis fyrir árið 2011. Málið var rætt ítarlega og svöruðu Guðmundur og Sigurður spurningum fulltrúa í háskólaráði.

1.2    Fjárhagsstaða Háskólans 2010, yfirlit eftir átta mánuði.
Guðmundur R. Jónsson og Sigurður J. Hafsteinsson gerðu grein fyrir rekstri og fjárhagsstöðu Háskóla Íslands eftir fyrstu átta mánuði ársins. Málið var rætt og svöruðu Guðmundur og Sigurður framkomnum spurningum.  

1.3    Tillaga starfshóps háskólaráðs um rannsóknir og fjármál, sbr. fund ráðsins 8. apríl sl.
Inn á fundinn kom Halldór Jónsson, sviðsstjóri vísindasviðs, og gerði grein fyrir tillögunum. Málið var rætt ítarlega og svaraði Halldór spurningum ráðsmanna.
- Samþykkt einróma að fela fjármálanefnd, vísindanefnd, kennslumálanefnd og gæðanefnd að veita umsögn um tillöguna.

1.4    Stefnumótun Háskóla Íslands 2011-2016. Staða mála.
Jón Atli Benediktsson, aðstoðarrektor vísinda og kennslu, gerði grein fyrir stöðu mála og helstu áhersluatriðum yfirstandandi vinnu við mótun nýrrar stefnu Háskóla Íslands fyrir tímabilið 2011-2016. Málið var rætt og svaraði Jón Atli spurningum fulltrúa í háskólaráði. Málið verður áfram á dagskrá háskólaráðs.

1.5    Framkvæmd Stefnu Háskóla Íslands 2006-2011. Árangur og staða. Skýrsla Háskóla Íslands til mennta- og menningarmálaráðuneytis haustið 2010.
Fyrir fundinum lá skýrsla Háskóla Íslands til mennta- og menningarmálaráðuneytisins um framkvæmd Stefnu Háskóla Íslands 2006-2011 og þeim glæsilega árangri sem starfsfólk skólans hefur náð. Þrátt fyrir að afkastatengdum viðbótarsamningi við mennta- og menningarmálaráðuneytið til að fjármagna stefnu Háskóla Íslands hafi verið frestað vegna efnahagsþrenginga, heldur skólinn áfram að gera árlega grein fyrir árangri. Rektor gerði grein fyrir málinu.  

1.6    Fyrirspurn til háskólaráðs um fyrirhugaða endurskoðun matskerfis rannsókna, dags. 10. september sl.  
Fyrir fundinum lágu drög að svari við fyrirspurninni og gerði rektor grein fyrir því. Málið var rætt. Óskaði rektor eftir því að fulltrúar í háskólaráði komi athugasemdum við drögin á framfæri við sig eigi síðar en mánudaginn 11. október nk.

1.7    Umsögn gæðanefndar háskólaráðs um umfjöllun um háskólasamfélagið í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.
Fyrir fundinum lágu drög að umsögn gæðanefndar háskólaráðs um umfjöllun um háskólasamfélagið í 8. bindi skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna 2008 og tengda atburði. Drögin hafa verið kynnt forsetum fræðasviða, formönnum starfsnefnda háskólaráðs, formönnum kjarafélaga kennara, formanni Stúdentaráðs og höfundum háskólakafla skýrslunnar. Jón Atli Benediktsson gerði grein fyrir málinu og var það rætt ítarlega.
- Rektor og formanni gæðanefndar falið að ganga frá umsögninni í samræmi við umræðu fundarins.

Jón Atli Benediktsson vék af fundi.

2.    Erindi til háskólaráðs

2.1    Sumarnám og sumarpróf. Tillaga kennslumálanefndar háskólaráðs.
Rektor gerði grein fyrir málinu og var það rætt stuttlega.
- Tillögu kennslumálanefndar um sumarnám og sumarpróf vísað til fræðasviða og Stúdentaráðs til umsagnar. Málið verður tekið til afgreiðslu á næsta fundi.

2.2    Stjórnir, nefndir og ráð:
a) Tilnefning fulltrúa háskólaráðs í fastar dómnefndir fræðasviða Háskóla Íslands.
Fyrir fundinum lá tillaga um skipun fulltrúa háskólaráðs í fastar dómnefndir fræðasviða Háskóla Íslands og varamanna þeirra. Eins og fram kemur í tillögunni sitja þessir fulltrúar jafnframt í dóm- og framgangsnefndum fræðasviðanna. Málið var rætt.
- Eftirfarandi skipun fulltrúa háskólaráðs í fastar dómnefndir og dóm- og framgangsnefndir fræðasviða Háskóla Íslands og varamanna þeirra samþykkt samhljóða, en einn sat hjá.

Félagsvísindasvið:
Runólfur Smári Steinþórsson, prófessor við Viðskiptafræðideild, formaður,
Jón Gunnar Bernburg, prófessor við Félags- og mannvísindadeild, varamaður Runólfs Smára,
Stefanía Óskarsdóttir stjórnmálafræðingur, varaformaður,
Guðrún Rósa Þórsteinsdóttir, forstöðumaður Rannsóknastofnunar Háskólans á Akureyri, varamaður Stefaníu.
    
Heilbrigðisvísindasvið:
Bjarni Þjóðleifsson, prófessor emeritus, formaður,
Már Másson, prófessor við Lyfjafræðideild, varamaður Bjarna,
Unnur Þorsteinsdóttir, deCODE genetics, varaformaður.
[Árún K. Sigurðardóttir, prófessor við Háskólann á Akureyri, varamaður Unnar.]*
    
Verkfræði- og náttúruvísindasvið:
Jóhannes R. Sveinsson, prófessor við Rafmagns- og tölvuverkfræðideild, formaður,
Viðar Guðmundsson, prófessor við Raunvísindadeild, varamaður Jóhannesar,
Áslaug Helgadóttir, prófessor við Landbúnaðarháskóla Íslands, varaformaðir,
Ragnheiður I. Þórarinsdóttir, yfirverkefnisstjóri hjá Orkustofnun, varamaður Áslaugar.

Hugvísindasvið:
Guðrún Kvaran, prófessor við Íslensku- og menningardeild, formaður,
Arnfríður Guðmundsdóttir, prófessor við Guðfræði- og trúarbragðafræðideild, varamaður Guðrúnar,
Guðmundur Heiðar Frímannsson, prófessor við Háskólann á Akureyri, varaformaður.
[Sigurður Kristinsson, dósent við Háskólann á Akureyri, varamaður Guðmundar Heiðars.]*

Menntavísindasvið:
Kristján Kristjánsson, prófessor við Uppeldis- og menntunarfræðideild, formaður,
Sigurður Konráðsson, prófessor við Kennaradeild, varamaður Kristjáns,
Kristín Aðalsteinsdóttir, prófessor við Háskólann á Akureyri, varaformaður,
Berit H. Johnsen, dósent við Háskólann í Ósló, varamaður Kristínar.

Skipunartíminn er þrjú ár.
* Samþykkt á fundi háskólaráðs 4. nóvember 2010.

b) Tilnefning fulltrúa Háskóla Íslands í stjórn Landsbókasafns Íslands-Háskólabókasafns 2010-2014.
- Samþykkt einróma að fulltrúar Háskóla Íslands í stjórn Landsbókasafns Íslands-Háskólabókasafns verði Anna Agnarsdóttir prófessor og Rögnvaldur Ólafsson, formaður stjórnar Stofnunar fræðasetra Háskóla Íslands. Varafulltrúar verði Arnfríður Guðmundsdóttir prófessor og Guðmundur Freyr Úlfarsson prófessor. Tilnefningin er til næstu fjögurra ára. Anna Agnarsdóttir vék af fundi undir þessum dagskrárlið.

c) Skipan nýs fulltrúa Háskóla Íslands í hugverkanefnd og ákvörðun um formann nefndarinnar.
- Samþykkt einróma að nýr fulltrúi Háskóla Íslands í hugverkanefnd verði Kristján Leósson vísindamaður og að hann verði jafnframt formaður nefndarinnar. Skipunin gildir út skipunartíma nefndarinnar sem er til 1. september 2011.

d) Tilnefning fulltrúa Háskóla Íslands í stjórn Mannerfðafræðistofnunar Íslands.
- Samþykkt einróma að fulltrúi Háskóla Íslands í stjórn Mannerfðafræðistofnunar Íslands verði Guðmundur Þorgeirsson, prófessor og deildarforseti Læknadeildar. Varamaður verði Sigurður Guðmundsson, forseti Heilbrigðisvísindasviðs. Tilnefningin er til næstu fimm ára.

3.    Mál til fróðleiks

3.1    Árbók Háskóla Íslands 2009.

3.2    Niðurstöður eftirfylgniúttektar á [fyrrum] hugvísindadeild, dags. 24. ágúst sl. Viðbrögð Háskóla Íslands.

3.3    Tilnefning fulltrúa Háskóla Íslands í Íslenska málnefnd 2010-2014.

3.4    Samstarfsamningur Háskóla Íslands og Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins, undirritaður 13. september 2010.

3.5    Samstarfsamningur Háskóla Íslands og Reykjalundar, undirritaður 30. september 2010.

3.6    Samstarfsamningur Háskóla Íslands og Hafrannsóknastofnunarinnar, undirritaður 1. október 2010.

Fleira var ekki gert.
Fundi slitið kl. 16.20.