02/2013
HÁSKÓLARÁÐSFUNDUR
Ár 2013, fimmtudaginn 7. febrúar var haldinn fundur í háskólaráði sem hófst kl. 11.00.
Fundinn sátu Kristín Ingólfsdóttir, Anna Rut Kristjánsdóttir, Börkur Hansen, Ebba Þóra Hvannberg, Guðrún Hallgrímsdóttir, Jakob Ó. Sigurðsson, Kristinn Andersen, Margrét Hallgrímsdóttir, Sigvaldi Fannar Jónsson (varamaður fyrir Maríu Rut Kristinsdóttur), Tinna Laufey Ásgeirsdóttir og Þorfinnur Skúlason. Fundinn sátu einnig Jón Atli Benediktsson og Magnús Diðrik Baldursson sem ritaði fundargerð.
Rektor bauð fulltrúa í háskólaráði velkomna og setti fundinn. Áður en gengið var til dagskrár greindi rektor frá því að engar athugasemdir hefðu borist við fundargerð síðasta fundar og hefði hún því skoðast samþykkt og verið birt á háskólavefnum. Rektor lagði til að sú breyting yrði gerð á dagskrá þessa fundar að röð dagskrárliða 6 og 7 yrði víxlað. Þá greindi rektor frá því að Tinna Laufey Ásgeirsdóttir hefði óskað eftir að taka upp mál undir liðnum „önnur mál“ og var dagskrá fundarins samþykkt svo breytt. Engar athugasemdir voru gerðar við liðinn „bókfærð mál“ og skoðast þau því staðfest.
1. Mál á döfinni í Háskóla Íslands.
Rektor gerði grein fyrir nokkrum málum og viðburðum frá síðasta fundi háskólaráðs og framundan.
a) Tveir starfsmenn Háskóla Íslands hafa látist frá síðasta fundi, þau Hekla Sigmundsdóttir, dósent við Læknadeild á Heilbrigðisvísindasviði, og Jón Reykdal, lektor við Kennaradeild á Menntavísindasviði.
b) Rektor sótti fyrir skömmu fund Samtaka evrópskra háskóla (European University Association, EUA) í Istanbul þar sem nokkur mikilvæg mál voru til umfjöllunar. Má þar nefna vísindaáætlun Evrópusambandsins Horizon 2020 sem taka mun við af 7. Rammaáætluninni og væntanlegar fjárveitingar til hennar. Á fundinum kom einnig fram að samstarfsvettvangur evrópskra háskóla sem stunda kennslu og rannsóknir á sviði orkuvísinda (European Platform of Universities Engaged in Energy Research, EPUE), sem Háskóli Íslands er aðili að, sótti um styrk í 7. rammaáætlunina að fjárhæð 1,5 milljónir evrur og er ákvörðunar um styrkveitinguna að vænta í apríl nk. Loks var á fundinum rætt um opin vefstudd námskeið (Massive Open Online Courses, MOOCs) sem fjölgar nú ört um allan heim. Minnti rektor á að á síðasta fundi háskólaráðs var samþykkt skipun starfshóps innan Háskóla Íslands sem mun taka saman skýrslu og tillögur um þetta efni.
c) Rektor greindi frá því að allt frá stofnun Háskóla Íslands hafa skólanum borist margar veglegar gjafir frá velunnurum hans, nú síðast húseign við Bjarkargötu og peningagjöf, sbr. dagskrárlið 3 á þessum fundi. Hefur rektor falið Magnúsi Diðrik Baldurssyni, skrifstofustjóra rektorsskrifstofu, að taka saman skrá yfir þessar gjafir og gefendur þeirra og mun í framhaldinu verða mótuð stefna um hvernig halda megi þeim á lofti, m.a. í tengslum við uppbyggingu hollvinastarfs við skólann.
d) Miðvikudaginn 13. febrúar nk. verður áfram haldið fyrirlestraröðinni „Fyrirtæki verður til“ og verður þá kynnt tölvuleikjafyrirtækið CCP. Mun framkvæmdastjóri fyrirtækisins, Hilmar Veigar Pétursson, halda fyrirlesturinn undir heitinu „Veruleiki sýndarveruleikans“.
e) Sunnudaginn 24. febrúar nk. verður haldið upp á 150 ára afmæli Þjóðminjasafns Íslands. Við þessi tímamót er m.a. unnið að breytingum á lögum um safnið sem gera ráð fyrir nánara samstarfi þess við Háskóla Íslands.
f) Nýverið var lokið úthlutun styrkja úr Rannsóknasjóði Háskóla Íslands og Rannsóknasjóði Vísinda- og tækniráðs og fylgir yfirlit yfir styrkþega með fundargögnum þessa fundar (liðir 9a og 9e).
g) Brautskráning kandídata fer fram í Háskólabíói laugardaginn 23. febrúar nk. og munu væntanlega um 500 kandídatar taka við prófskírteinum sínum að þessu sinni.
h) Föstudaginn 1. mars nk. munu kennslumálanefnd, gæðanefnd, Stúdentaráð og Kennslumiðstöð Háskóla Íslands gangast fyrir málþingi og vinnustofum í Aðalbyggingu um fjölbreytta kennsluhætti.
i) Laugardaginn 9. mars verður Háskóladagurinn haldinn á Háskólatorgi og í nærliggjandi byggingum Háskóla Íslands. Drög að dagskrá fylgja með fundargögnum undir lið 9b).
j) Í apríl nk. verða sýndir á RÚV sex sjónvarpsþættir um vísindin við Háskóla Íslands og hefur Jón Örn Guðbjartsson, sviðsstjóri markaðs- og samskiptasviðs, haft veg og vanda af gerð þáttanna. Var fulltrúum í háskólaráði sýnt myndskeið með brotum úr þáttunum.
2. Fjármál Háskóla Íslands. Staða, horfur og áætlun.
a) Drög að ársuppgjöri Háskóla Íslands 2012.
Inn á fundinn komu Guðmundur R. Jónsson, framkvæmdastjóri fjármála og reksturs, og Jenný Bára Jensdóttir, sviðsstjóri fjármálasviðs. Fyrir fundinum lágu drög að ársuppgjöri Háskóla Íslands fyrir 2012. Málið var rætt og svöruðu þau Guðmundur og Jenný spurningum fulltrúa í háskólaráði. Fram kom að uppgjörinu verður lokið á næstunni og er staðan í meginatriðum óbreytt frá því sem kynnt var fyrir háskólaráði á síðasta fundi.
b) Fjárhagsáætlun Háskóla Íslands fyrir árið 2013.
Guðmundur og Jenný gerðu grein fyrir drögum að fjárhagsáætlun Háskóla Íslands fyrir árið 2013. Málið var rætt og svöruðu Guðmundur og Jenný spurningum ráðsmanna. Fram kom að fjárhagsáætlun Háskóla Íslands fyrir árið 2013 verður í jafnvægi.
c) Deililíkan og mögulegar aðgangstakmarkanir.
Á fundinum var lagt fram minnisblað um mögulegar aðgangstakmarkanir við einstakar deildir og leiðir til að fást við fjárhagslegar afleiðingar þeirra. Guðmundur og Jenný gerðu grein fyrir málinu og var það rætt ítarlega.
Að lokinni umræðu um þennan dagskrárlið vék rektor að fyrirspurn Ebbu Þóru Hvannberg frá síðasta fundi ráðsins um kostnað vegna stjórnsýslu og húsnæðis. Var lagt fram minnisblað með yfirliti um húsnæðiskostnað og framlag vegna húsnæðis einstakra fræðasviða. Ennfremur upplýsingar um launakostnað allra starfsmanna á fræðasviðum sundurliðað í akademíska starfsmenn og aðra starfsmenn.
3. Gjöf Áslaugar Hafliðadóttur til Háskóla Íslands.
Fyrir fundinum lá minnisblað um gjöf Áslaugar Hafliðadóttur og undirbúning stofnunar styrktarsjóðs Áslaugar Hafliðadóttur við Háskóla Íslands. Rektor gerði grein fyrir málinu og var það rætt.
- Samþykkt að veita umboð til sölu fasteignarinnar Bjarkargötu 12 og að stofnaður verði styrktarsjóður við Háskóla Íslands í nafni Áslaugar Hafliðadóttur til minningar um foreldra hennar, Sesselju Eiríksdóttur og Hafliða Jón Hafliðason. Styrktarsjóðurinn verði undir hatti Styrktarsjóða Háskóla Íslands þar sem vistaðir eru sjálfstæðir sjóðir sem hafa verið ánafnaðir skólanum og starfa skv. staðfestri skipulagsskrá. Stofnfé sjóðsins verði peningagjöf Áslaugar Hafliðadóttur ásamt andvirði fasteignarinnar að Bjarkargötu 12. Tillaga að skipulagsskrá sem kveður á um nafn sjóðsins, hlutverk, hvernig sjóðurinn framfylgi hlutverki sínu, skipun stjórnar og annað sem tiltekið er í stofnskrá, verður lögð fyrir háskólaráð síðar.
4. Innri endurskoðun Háskóla Íslands.
Fyrir fundinum lá greinargerð og tillaga um málefni innri endurskoðunar við Háskóla Íslands og drög að erindisbréfi innri endurskoðanda. Guðmundur, Jenný og Magnús Diðrik gerðu grein fyrir málinu og var það rætt.
- Samþykkt einróma að ráðið verði í starf innri endurskoðanda við Háskóla Íslands. Um fullt starf verði að ræða sem heyri beint undir háskólaráð. Framlögð starfslýsing innri endurskoðanda, sem hefur verið yfirfarin í samráði við Ríkisendurskoðun, var einnig samþykkt.
5. Endurskoðaðar starfsreglur og erindisbréf Hugverkanefndar Háskóla Íslands og Landspítala-háskólasjúkrahúss, ásamt tillögu að breytingu á 7. gr. reglna fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009. Fyrir fundinum lágu drög að endurskoðuðum starfsreglum og erindisbréfi Hugverkanefndar Háskóla Íslands og Landspítala-háskólasjúkrahúss. Inn á fundinn kom Halldór Jónsson, sviðsstjóri vísinda- og nýsköpunarsviðs og gerði ásamt Jóni Atla Benediktssyni grein fyrir málinu. Málið var rætt ítarlega og svöruðu Jón Atli og Halldór spurningum og athugasemdum ráðsmanna. Fram kom tillaga um að bætt verði við starfsreglurnar ákvæði um að Hugverkanefnd meti reglulega hvort viðhalda eigi skráðum hugverkaréttindum, þ.m.t. einkaleyfum, Háskóla Íslands.
- Endurskoðaðar starfsreglur og erindisbréf Hugverkanefndar Háskóla Íslands og Landspítala-háskólasjúkrahúss samþykkt einróma svo breytt, ásamt samsvarandi breytingu á 7. gr. reglna fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009.
6. Kynning á helstu nýbyggingum sem á döfinni eru við Háskóla Íslands.
Inn á fundinn kom Sigurlaug I. Lövdahl, skrifstofustjóri rekstrar- og framkvæmdasviðs, og gerði grein fyrir helstu nýbyggingum og framkvæmdum sem framundan eru, þ.e. Húsi íslenskra fræða, húsi Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum, byggingu Heilbrigðisvísindasviðs í tengslum við nýjan Landspítala, byggingu Stúdentagarða og stækkum Háskólatorgs, auk nokkurra stærri viðhaldsverkefna.
7. Málefni Vísindagarða Háskóla Íslands ehf.
Inn á fundinn kom Hilmar B. Janusson, forseti Verkfræði- og náttúruvísindasviðs og formaður stjórnar Vísindagarða Háskóla Íslands ehf. Greindu rektor og Hilmar frá því að samheitalyfjafyrirtækið Alvogen hefði áhuga á að skoða þann möguleika að reisa á lóð Vísindagarða í Vatnsmýrinni 6.000-8.000m2 lyfjaþróunarsetur. Starfsemi fyrirtækisins tengist ýmsum greinum þar sem þekking og mannauður er fyrir hendi innan Háskóla Íslands, s.s. lyfjafræði, líffræði, sameindalíffræði, ferilverkfræði og viðskiptafræði. Fram kom að Alvogen er jafnframt að skoða kosti þess að reisa þróunarsetrið í tveimur öðrum löndum. Málið var rætt ítarlega og svaraði Hilmar spurningum og athugasemdum ráðsmanna. Lýstu ráðsmenn ánægju með þessi áform og mögulega aðkomu Alvogen.
8. Bókfærð mál.
a) Tillögur fræðasviða um nýjar námsleiðir, ásamt viðeigandi breytingum á reglum fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009.
- Tillaga Verkfræði- og náttúruvísindasviðs um stofnun námsleiða í lífupplýsingafræði til MS-prófs (120 ein.), lífverkfræði til MS-prófs (120 ein.), doktorsnáms í lífupplýsingafræði (230 ein.) og doktorsnáms í lífverkfræði (230 ein.) við Iðnaðarverkfærði-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideild og Líf- og umhverfisvísindadeild staðfest ásamt viðeigandi breytingum á 123. og 128. gr. reglna nr. 569/2009.
b) Tillaga Heilbrigðisvísindasviðs að breytingu á reglum um inntöku nýnema í læknisfræði og sjúkraþjálfun í læknadeild Háskóla Íslands, nr. 1042/2003.
- Staðfest.
c) Tillaga Félagsvísindasviðs f.h. Hagfræðideildar um breytingu á reglum um meistaranám (15. gr. reglna nr. 643/2011) og reglum um doktorsnám (32. gr. reglna nr. 500/2011) er varða deildina.
- Staðfest.
d) Tillaga að breytingu á reglum um starfsskyldur kennara og sérfræðinga við Háskóla Íslands nr. 605/2006, sbr. samþykkt á síðasta fundi.
- Eftirfarandi staðfest:
Bókstafsliðir b, c og d í grein 3.1., Almennar starfsskyldur háskólakennara og sérfræðinga, breytist og orðist þannig:
b. Starfsskyldur lektora og dósenta í hálfu starfi (50%) eða meira skiptast almennt í 52% kennslu, 42% rannsóknir og 6% stjórnun fyrir árin 2012 og 2013. Frá og með árinu 2014 skiptast starfsskyldur þeirra í 50% kennslu, 50% rannsóknir og stjórnun sem skiptist á milli kennslu og rannsókna. Því til viðbótar komi til afsláttur á kennsluskyldu fyrir nánar skilgreind stjórnunarstörf, sbr. 2. mgr. töluliðar 2.3. í 2. gr. þessara reglna.
c. Starfsskyldur lektora og dósenta sem eru í minna en hálfu starfi (50%) eru óbreyttar árin 2012 og 2013, 71% kennsla, 23% rannsóknir og 6% stjórnun. Frá og mep árinu 2014 skiptast starfsskyldur þeirra í 74% kennslu, 26% rannsóknir og stjórnun sem skiptist á milli kennslu og rannsókna. Því til viðbótar komi til afsláttur á kennsluskyldu fyrir nánar skilgreind stjórnunarstörf, sbr. 2. mgr. töluliðar 2.3. í 2. gr. þessara reglna.
d. Starfsskyldur aðjúnkta í hálfu starfi (50%) eða meira skiptast almennt í 65% kennslu, 31% rannsóknir og 4% stjórnun fyrir árin 2012 og 2013. Frá og með árinu 2014 skiptast starfsskyldur þeirra í 67% kennslu, 33% rannsóknir og stjórnun sem skiptist á milli kennslu og rannsókna. Því til viðbótar komi til afsláttur á kennsluskyldu fyrir nánar skilgreind stjórnunarstörf, sbr. 2. mgr. töluliðar 2.3. í 2. gr. þessara reglna.
Ákvæði til bráðabirgða: Vegna uppgjörs áranna 2012 og 2013 þarf viðkomandi kennari að vera í aðalstarfi við Háskóla Íslands.
e) Endurskoðaðar verklagsreglur um akademísk gestastörf við Háskóla Íslands.
- Staðfest.
f) Skipan fulltrúa atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis í stjórn Tilraunastöðvar Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum.
- Staðfest að Sigurborg Daðadóttir, yfirdýralæknir, taki sæti Halldórs Runólfssonar, fyrrv. yfirdýralæknis, í stjórn Tilraunastöðvar Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum, en Halldór hefur óskað eftir lausn.
9. Mál til fróðleiks.
a) Úthlutun úr Rannsóknasjóði Háskóla Íslands 2013.
b) Háskóladagurinn 9. mars 2013.
c) Fréttabréf Félagsvísindasviðs, janúar 2013.
d) Fréttabréf Verkfræði- og náttúruvísindasviðs, janúar 2013.
e) Úthlutun úr Rannsóknasjóði Vísinda- og tækniráðs fyrir styrkárið 2013.
10. Önnur mál.
a) Málefni Rannsóknasjóðs Háskóla Íslands, sbr. síðasta fund.
Tinna Laufey Ásgeirsdóttir hélt áfram umræðu frá síðasta fundi um reglur og sjónarmið við úthlutun styrkja úr Rannsóknasjóði Háskóla Íslands. Málið var rætt og svaraði Jón Atli spurningum.
Fleira var ekki gert.
Fundi slitið kl. 14.00.