02/2016
HÁSKÓLARÁÐSFUNDUR
Ár 2016, fimmtudaginn 4. febrúar var haldinn fundur í háskólaráði sem hófst kl. 13.
Fundinn sátu Jón Atli Benediktsson, Ebba Þóra Hvannberg, Eiríkur Rögnvaldsson, Jakob Ó. Sigurðsson, Margrét Hallgrímsdóttir (kom inn á fundinn við upphaf dagskrárliðar 2), Nanna Elísa Snædal Jakobsdóttir, Orri Hauksson, Stefán Hrafn Jónsson og Tómas Þorvaldsson. Fundinn sátu einnig Magnús Diðrik Baldursson, sem ritaði fundargerð, og Þórður Kristinsson. Áslaug Friðriksdóttir og Iðunn Garðarsdóttir boðuðu forföll og varamenn þeirra einnig.
1. Setning fundar.
Rektor setti fundinn og greindi frá því að engin athugasemd hefði borist við fundargerð síðasta fundar og hefði hún því skoðast samþykkt og verið birt á háskólavefnum. Þá spurði rektor hvort einhver vildi gera athugasemd við dagskrá fundarins og var svo ekki. Bar rektor upp tillögu um að marsfundur háskólaráðs verði haldinn 17. mars í stað 3. mars eins og fundaáætlun ráðsins gerir ráð fyrir. Helsta mál á dagskrá marsfundarins verður afgreiðsla nýrrar stefnu Háskóla Íslands fyrir tímabilið 2016-2021. Þá spurði rektor hvort einhver teldi sig vanhæfan til að taka þátt í meðferð máls á dagskrá og var svo ekki. Engar athugasemdir voru gerðar við liðinn „bókfærð mál“ og skoðast hann því samþykktur.
2. Fjármál Háskóla Íslands. Staða, horfur, áætlun.
a) Rekstraráætlun Háskóla Íslands 2016, skipting fjárveitingar.
Inn á fundinn komu Guðmundur R. Jónsson, framkvæmdastjóri fjármála og reksturs, og Jenný Bára Jensdóttir, sviðsstjóri fjármálasviðs, og gerðu grein fyrir fyrirliggjandi drögum að rekstraráætlun Háskóla Íslands 2016. Málið var rætt og svöruðu Guðmundur og Jenný spurningum ráðsmanna. Fram kom að miðað við gögn frá síðasta fundi ráðsins hefur tekist að lækka áætlaðan rekstrarhalla umtalsvert með því að gæta ítrasta aðhalds. Enn er þó fyrirséður halli á rekstri Háskólans árið 2016, m.a. vegna þess að í fjárveitingu til skólans eru áhrif miðlægra kjarasamninga ekki að fullu bætt. Háskólaráð lítur svo á að verði halli á rekstri einstakra skipulagseininga á árinu 2016 verði viðkomandi einingum gert að skila samsvarandi rekstrarafgangi árið 2017.
– Rekstraráætlun Háskóla Íslands fyrir árið 2016 samþykkt einróma.
b) Endurskoðun deililíkans. Skipun starfshóps.
Rektor greindi frá fyrirhugaðri endurskoðun deililíkans Háskóla Íslands, sbr. síðasta fund. Málið var rætt.
– Rektor falið að skipa starfshóp til að fara yfir forsendur, kosti og galla núverandi deililíkans og setja fram tillögur um hvernig sníða megi af því mögulega vankanta. Ráðgert er að tillögur liggi fyrir í september nk.
c) Fjárlagaerindi Háskóla Íslands 2017.
Fyrir fundinum lágu drög að erindi Háskóla Íslands til mennta- og menningarmálaráðherra vegna fjárlagagerðar fyrir árið 2017. Guðmundur gerði grein fyrir málinu og var það rætt.
– Samþykkt einróma að fela rektor að ganga frá fjárlagaerindi í samræmi við fyrirliggjandi drög að bréfi og framkomin sjónarmið frá háskólaráði.
d) Lög um opinber fjármál nr. 123/2015, sbr. síðasta fund.
– Jenný og Guðmundur gerðu grein fyrir nýlegum lögum um opinber fjármál nr. 123/2015. Málið var rætt.
3. Drög samkomulags um uppbyggingu stúdentagarða og stækkun vísindagarðareits á háskólasvæði.
Inn á fundinn kom Eiríkur Hilmarsson, framkvæmdastjóri Vísindagarða Háskóla Íslands ehf. Fyrir fundinum lágu drög að samkomulagi á milli Háskóla Íslands, Vísindagarða Háskóla Íslands ehf. og Reykjavíkurborgar um uppbyggingu stúdentagarða og stækkun vísindagarðareits á háskólasvæði, dags. 21. janúar 2016. Eiríkur gerði grein fyrir málinu og var það rætt.
– Samþykkt einróma að fela rektor og stjórn Vísindagarða Háskóla Íslands ehf. að ganga frá samkomulaginu við Reykjavíkurborg.
4. Reglur um stjórnunar- og aðstöðugjald ásamt tillögu að verklagsreglum, sbr. síðasta fund.
Þórður Kristinsson gerði grein fyrir reglum um stjórnunar- og aðstöðugjald, sbr. síðasta fund og drögum að verklagsreglum um framkvæmd reglnanna. Málið var rætt og svaraði Þórður spurningum ráðsmanna.
– Reglur um stjórnunar- og aðstöðugjald og verklagsreglur um framkvæmd reglnanna samþykktar einróma.
5. Svar mennta- og menningarmálaráðuneytis við fyrirspurn um lagalegar forsendur skrásetningargjalds.
Þórður gerði grein fyrir málinu og var það rætt.
– Kennslumálanefnd og fjármálanefnd, í samráði við Stúdentaráð o.fl., falið að vinna áfram að málinu í samræmi við samþykkt háskólaráðs frá 3. september sl. Stefnt skal að því að niðurstaða liggi fyrir á fundi ráðsins í mars.
6. Málefni íþrótta- og heilsufræði við Háskóla Íslands, sbr. síðasta fund.
Inn á fundinn komu Ástríður Stefánsdóttir, deildarforseti Íþrótta-, tómstunda- og þroskaþjálfadeildar og Ásta Möller, verkefnisstjóri á skrifstofu rektors. Rektor gerði grein fyrir stöðu mála varðandi málefni íþrótta- og heilsufræði við Háskóla Íslands. Fram kom að rektor hefur á milli funda átt viðræður við helstu aðila sem að málinu koma, þ. á m. starfsfólk námsbrautarinnar, þingmenn suðurkjördæmis, sveitarstjórnarmenn í Bláskógarbyggð og forsvarsmenn Háskólafélags Suðurlands. Farið var ítarlega yfir málið og mögulegar mótvægisaðgerðir ef námið verður flutt frá Laugarvatni. Stefnt er að því að taka ákvörðun í málinu eftir tvær vikur.
7. Úttekt á rannsóknamisserum 2006-2014.
Fyrir fundinum lá yfirlit um rannsóknamisseri 2006-2014 og umsögn Félags prófessora við ríkisháskóla og Félags háskólakennara, dags. 21. janúar sl. Guðmundur R. Jónsson gerði grein fyrir málinu og var það rætt.
8. Bókfærð mál.
a) Stjórn Happdrættis Háskóla Íslands.
– Samþykkt að skipan stjórnar Happdrættis Háskóla Íslands verði óbreytt frá fyrra ári. Stjórnin er skipuð Eyvindi G. Gunnarssyni, prófessor við Lagadeild, sem er formaður, Jennýju Báru Jensdóttur, sviðsstjóra fjármálasviðs og Kristbjörgu Eddu Jóhannsdóttur, framkvæmdastjóra Manna og músa ehf.
b) Fulltrúar Háskóla Íslands í stjórn Keilis ehf.
– Samþykkt að tilnefna Halldór Jónsson, sviðsstjóra vísinda- og nýsköpunarsviðs og Sæunni Stefánsdóttur, sérfræðing á skrifstofu rektors, til að vera áfram fulltrúar Háskóla Íslands í stjórn Keilis ehf. Varamenn verða Brynhildur Davíðsdóttir prófessor og Hjálmtýr Hafsteinsson dósent.
c) Fulltrúar Háskóla Íslands í stjórn Rannsókna- og háskólanets Íslands hf. (RHnet).
– Samþykkt að tilnefna Þórð Kristinsson, sviðsstjóra kennslusviðs, Sæþór L. Jónsson, forstöðumann Reiknistofnunar Háskóla Íslands, og Önnu Soffíu Hauksdóttir prófessor, sem fulltrúa Háskóla Íslands í stjórn Rannsókna- og háskólanets Íslands hf. (RHnet). Varamenn verða Guðmundur R. Jónsson, framkvæmdastjóri fjármála og reksturs, Fjóla Jónsdóttir prófessor og Sigrún Nanna Karlsdóttir dósent.
d) Formaður Heiðursdoktorsnefndar.
– Samþykkt að skipa Einar Stefánsson prófessor, formann Heiðursdoktorsnefndar Háskóla Íslands. Skipunartíminn er þrjú ár.
e) Nýr forseti Hugvísindasviðs tekur sæti í fjármálanefnd frá 1. janúar 2016.
– Guðmundur Hálfdanarson, forseti Hugvísindasviðs, tekur sæti í fjármálanefnd háskólaráðs í stað Ástráðs Eysteinssonar sem látið hefur af störfum sem forseti fræðasviðsins.
f) Tillaga Félagsvísindasviðs f.h. Viðskiptafræðideildar um 90 eininga nám á meistarastigi í fjármálum.
– Samþykkt.
g) Tillaga Menntavísindasviðs f.h. Kennaradeildar um M.Ed.-próf í framhaldsmenntun grunnskólakennara (fyrir starfandi kennara með eldra kennarapróf).
– Samþykkt.
h) Endurnýjaður samstarfssamningur Háskóla Íslands og Þjóðminjasafns Íslands.
– Samþykkt. Margrét Hallgrímsdóttir tók ekki þátt í afgreiðslu málsins.
i) Leiðrétting á 5. gr. reglna nr. 153/2010 um takmörkun á inntöku nemenda í tilteknar námsgreinar við Háskóla Íslands.
– Samþykkt.
j) Tillaga Heilbrigðisvísindasviðs að breytingu á reglum nr. 1252/2011 um doktorsnám og doktorspróf við Heilbrigðisvísindasvið Háskóla Íslands.
– Samþykkt.
8. Mál til fróðleiks.
a) Rafrænt Fréttabréf Félagsvísindasviðs fyrir janúar 2016.
a) Styrkir til Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum.
b) Dagskrá ráðstefnunnar Fræði og fjölmenning 2016 sem haldin verður í Háskóla Íslands laugardaginn 6. febrúar nk.
Fleira var ekki gert.
Fundi slitið kl. 15.40.