Skip to main content

Háskólaráðsfundur 17. mars 2016

04/2016

HÁSKÓLARÁÐSFUNDUR

Ár 2016, fimmtudaginn 17. mars var haldinn fundur í háskólaráði sem hófst kl. 13.

Fundinn sátu Jón Atli Benediktsson, Davíð Þorláksson (varamaður fyrir Áslaugu Friðriksdóttur), Ebba Þóra Hvannberg, Eiríkur Rögnvaldsson, Iðunn Garðarsdóttir, Jakob Ó. Sigurðsson, Margrét Hallgrímsdóttir, Nanna Elísa Snædal Jakobsdóttir, Orri Hauksson, Stefán Hrafn Jónsson og Tómas Þorvaldsson. Fundinn sátu einnig Elín Blöndal og Magnús Diðrik Baldursson sem ritaði fundargerð.

1.    Setning fundar.
Rektor setti fundinn og greindi frá því að engin athugasemd hefði borist við fundargerð síðasta fundar og hefði hún því skoðast samþykkt og verið birt á háskólavefnum. Þá spurði rektor hvort einhver vildi gera athugasemd við dagskrá fundarins og var svo ekki. Jafnframt spurði rektor hvort einhver teldi sig vanhæfan til að taka þátt í meðferð máls á dagskrá og var svo ekki. Engar athugasemdir voru gerðar við liðinn „bókfærð mál“ og skoðast hann því samþykktur.

Áður en gengið var til dagskrár greindi rektor frá stöðu mála varðandi málefni Laugarvatns í kjölfar ákvörðunar háskólaráðs um staðsetningu náms í íþrótta- og heilsufræði.

2.    Fjármál Háskóla Íslands. Staða, horfur, áætlun.
a)    Drög að ársreikningi Háskóla Íslands 2015.
Inn á fundinn komu Guðmundur R. Jónsson, framkvæmdastjóri fjármála og reksturs og Jenný Bára Jensdóttir, sviðsstjóri fjármálasviðs, og gerðu grein fyrir drögum að ársreikningi Háskóla Íslands, dags. 9. mars 2016. Málið var rætt og svöruðu þau Jenný og Guðmundur spurningum ráðsmanna.

3.    Niðurstöður háskólaþings 3. mars 2016.
Rektor gerði grein fyrir málinu.
– Niðurstöður háskólaþings 3. mars 2016 staðfestar.

4.    Stefna Háskóla Íslands 2016-2021.
Inn á fundinn komu Sigurður Magnús Garðarsson prófessor og Steinunn Gestsdóttir prófessor, formenn stýrihóps stefnumótunar Háskólans. Gerðu þau grein fyrir málinu og fóru yfir hvernig tekið var tillit til athugasemda og ábendinga sem fram komu á háskólaþingi 3. mars sl. í fyrirliggjandi lokadrögum að nýrri stefnu Háskóla Íslands fyrir tímabilið 2016-2021. Málið var rætt ítarlega og svöruðu þau Sigurður Magnús og Steinunn spurningum ráðsmanna. Þökkuðu fulltrúar í háskólaráði öllum sem komið hafa að stefnumótunarstarfinu, stýrihópnum, stefnumótunarhópi Háskólans, stúdentum, starfsmönnum og öðrum hagsmunaaðilum.
– Stefna Háskóla Íslands 2016-2021 samþykkt einróma.

5.    Um kostnaðarliði skrásetningargjalds.
Elín Blöndal, lögfræðingur Háskóla Íslands, og Guðmundur R. Jónsson gerðu grein fyrir málinu og var það rætt.
– Samþykkt að þar sem málshefjandi, Ísak Einar Rúnarsson, hefur dregið beiðni sína um úrskurð háskólaráðs varðandi skrásetningargjald Háskóla Íslands til baka sé málinu lokið af hálfu ráðsins. Það er sameiginleg niðurstaða Háskóla Íslands og Stúdentaráðs að skrásetningargjaldið skuli renna óskipt til Háskóla Íslands og ekki dregið að hluta frá reiknaðri fjárveitingu til kennslu skv. reiknilíkani mennta- og menningarmálaráðuneytis, enda er um að ræða þjónustugjald sem stendur undir hluta kostnaðar við margvíslega þjónustu er nemendur njóta og fellur ekki undir hefðbundna kennslu.

6.    Málefni stundakennara.
Elín Blöndal gerði grein fyrir málinu. Málið var rætt ítarlega og svaraði Elín spurningum fulltrúa í háskólaráði.
– Rektor falið að fylgja málinu eftir.

7.    Framkvæmdir.
a)    Undirritun samkomulags á milli Vísindagarða Háskóla Íslands ehf. og Reykjavíkurborgar vegna byggingar stúdentagarða á reit við Gamla Garð og á lóð Vísindagarða.

Inn á fundinn kom Guðrún Björnsdóttir, framkvæmdastjóri Félagsstofnunar stúdenta, og gerði grein fyrir samkomulagi á milli Vísindagarða Háskóla Íslands ehf. og Reykjavíkurborgar vegna byggingar stúdentagarða á reit við Gamla Garð og á lóð Vísindagarða. Málið var rætt og svaraði Guðrún spurningum og athugasemdum fulltrúa í háskólaráði.

b)    Hús Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum. Staða mála.
Guðmundur R. Jónsson gerði grein fyrir stöðu mála varðandi byggingu Húss Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum. Málið var rætt.

8.    Stjórnskipulag og stjórnsýsla Háskóla Íslands: Áfangaskýrsla 1 – rektorsskrifstofa. [Kl. 15.20-15.50. Kynning og umræða]
Inn á fundinn komu Ómar H. Kristmundsson prófessor og Ásta Möller, verkefnisstjóri á skrifstofu rektors, og gerðu grein fyrir skýrslunni Stjórnskipulag og stjórnsýsla Háskóla Íslands: Áfangaskýrsla 1 – rektorsskrifstofa. Málið var rætt og svöruðu þau Ómar og Ásta spurningum fulltrúa í háskólaráði.

9.    Rannsóknamisseri, sbr. fund ráðsins 4. febrúar sl.
Fyrir fundinum lá tillaga fjármálanefndar um fyrirkomulag farareyris í rannsóknamisserum. Rektor, Guðmundur R. Jónsson og Elín Blöndal gerðu grein fyrir málinu og var það rætt.
– Tillaga fjármálanefndar samþykkt einróma og nær hún til rannsóknamissera sem hefjast frá og með 1. janúar 2017.

10.    Bókfærð mál.
a)    Skipan Hugverkanefndar.

– Samþykkt. Nefndin verður áfram skipuð Kristni Andersen prófessor (tilnefndur af rektor Háskóla Íslands), Sigríði Ólafsdóttur lífefnafræðingi (tilnefnd af rektor Háskóla Íslands) og Torfa Magnússyni lækni (tilnefndur af forstjóra Landspítala). Skipunartími nefndarinnar er þrjú ár.

b)    Skipan Heiðursdoktorsnefndar.
– Samþykkt. Nefndin er skipuð Einari Stefánssyni prófessor (skipaður án tilnefningar), sem er formaður, Björgu Thorarensen prófessor (tilnefnd af Félagsvísindasviði), Elínu Soffíu Ólafsdóttur prófessor (tilnefnd af Heilbrigðisvísindasviði), Oddnýju G. Sverrisdóttur prófessor (tilnefnd af Hugvísindasviði), Ólafi Páli Jónssyni prófessor (tilnefndur af Menntavísindasviði) og Hafliða Pétri Gíslasyni prófessor (tilnefndur af Verkfræði- og náttúruvísindasviði). Skipunartími nefndarinnar er til ársloka 2018.

c)    Tillaga Heilbrigðisvísindasviðs að breytingum á reglum nr. 1145/2011 um Lífvísindasetur Háskóla Íslands.
– Samþykkt.

d)    Tillaga Heilbrigðisvísindasviðs f.h. Hjúkrunarfræðideildar að endurskoðuðum (nýjum) reglum um diplómanám í hjúkrunarfræði.
– Samþykkt.

11.    Mál til fróðleiks.
a)   Ársskýrsla Hugverkanefndar fyrir árið 2015.
b)   Úthlutun úr Rannsóknasjóði Háskóla Íslands.
c)   Úthlutun úr Tækjakaupasjóði Háskóla Íslands.
d)   Ársskýrsla RHnets.
e)   Rafrænt fréttabréf Félagsvísindasviðs, febrúar 2016.
f)    Starfsáætlun jafnréttisnefndar fyrir árið 2016.
g)   Ávarp rektors við brautskráningu kandídata í Háskólabíói 20. febrúar sl.
h)   Dagskrá Kennslumálaþings 18. mars nk.
i)    Kynning rektors á málþingi um uppbyggingu Landspítala 15. mars 2016.

Fleira var ekki gert.
Fundi slitið kl. 16.00.