Skip to main content

Háskólaráðsfundur 11.september 2014

08/2014

HÁSKÓLARÁÐSFUNDUR

Ár 2014, fimmtudaginn 11. september var haldinn fundur í háskólaráði sem hófst kl. 13.00.

Fundinn sátu Kristín Ingólfsdóttir, Áslaug María Friðriksdóttir, Eiríkur Rögnvaldsson, Hákon Hrafn Sigurðsson (varamaður fyrir Ebbu Þóru Hvannberg), Iðunn Garðarsdóttir, Jakob Ó. Sigurðsson, Margrét Hallgrímsdóttir, Nanna Elísa Snædal Jakobsdóttir, Orri Hauksson, Stefán Hrafn Jónsson og Tómas Þorvaldsson. Fundinn sat einnig Magnús Diðrik Baldursson sem ritaði fundargerð.

Rektor setti fundinn og greindi frá því að engar athugasemdir hefðu borist við fundargerð síðasta fundar og hefði hún því skoðast samþykkt og verið birt á háskólavefnum. Jafnframt spurði rektor hvort einhver teldi sig vanhæfan að til að taka þátt í meðferð máls á dagskrá og var svo ekki. Engar athugasemdir voru gerðar við liðinn „bókfærð mál“ og skoðast hann því samþykktur. Rektor greindi frá því að hún myndi vilja taka upp mál undir liðnum „önnur mál“ er varðar rektorsembættið.

1. Nýskipað háskólaráð Háskóla Íslands boðið velkomið.
Rektor bauð nýtt háskólaráð fyrir tímabilið 2014-2016 hjartanlega velkomið til starfa.

2. Kjör varaforseta háskólaráðs, sbr. 4. gr. reglna fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009.
Rektor bar upp tillögu um að Ebba Þóra Hvannberg, prófessor í tölvunarfræði við Iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideild við Verkfræði- og náttúruvísindasvið og fulltrúi háskólasamfélagsins í háskólaráði, verði varaforseti ráðsins tímabilið 2014-2016.
– Samþykkt einróma.

3. Mál á döfinni í Háskóla Íslands.
Rektor gerði grein fyrir nokkrum málum og viðburðum frá síðasta fundi háskólaráðs og framundan.
a) Fjárlagafrumvarp ársins 2015 var lagt fram á Alþingi í fyrradag. Fjallað verður um málið undir dagskrárlið 6 á þessum fundi.
b) Á rannsóknaþingi Vísinda- og tækniráðs 20. september sl. hlaut Ingibjörg Gunnarsdóttir, prófessor í næringarfræði við Matvæla- og næringarfræðideild á Heilbrigðisvísindasviði Háskóla Íslands, Hvatningarverðlaun Vísinda- og tækniráðs.
c) Rektor gerði að umtalsefni framlag jarðvísindamanna Háskóla Íslands í tengslum við eldgosið í Holuhrauni norðan Vatnajökuls, en auk vísindastarfa sinna þeir mikilsverðu samfélagslegu hlutverki, m.a. sem ráðgjafar vegna almannavarna og með því að útskýra jarðhræringarnar fyrir stjórnvöldum, almenningi og innlendum og erlendum fjölmiðlum.
d) Rektor greindi frá nýafstaðinni ferð sinni til Kína þar sem hún sótti m.a. alþjóðlega ráðstefnu kvenrektora. Í ferðinni undirritaði rektor f.h. Háskóla Íslands samstarfssamning við Tsinghua-háskóla sem talinn er annar besti háskóli í Kína, næstur á eftir Beijing-háskóla sem Háskóli Íslands hefur einnig gert samning við.
e) Um þessar mundir stendur yfir úttekt á árangri sameiningar Kennaraháskóla Íslands og Háskóla Íslands og stöðu kennaramenntunar, en þegar skólarnir sameinuðust formlega 1. júlí 2008 var gert ráð fyrir að slík úttekt færi fram. Úttektin fór fram með sjálfsmati Háskóla Íslands og ytra mati alþjóðlegs sérfræðingahóps og er gert ráð fyrir að skýrsla hópsins liggi fyrir á næstunni.

4. Kynning á skipulagi og starfi Háskóla Íslands, hlutverk háskólaráðs og starfsreglur þess.
Rektor fór yfir stjórnkerfi, skipulag, stefnu, hlutverk og starfsemi Háskóla Íslands sem og hlutverk og starfsreglur háskólaráðs. Málið var rætt og svaraði rektor spurningum ráðsmanna.

5. Starfsáætlun háskólaráðs 2014-2015. Undirbúningur.
Rektor gerði grein fyrir málinu. Háskólaráð gerir árlega starfsáætlun fyrir komandi starfsár og jafnframt er árangur undangenginnar áætlunar metinn. Starfsáætlunin byggir á Stefnu Háskóla Íslands 2011-2016 en tekur einnig til þróunarmála og annarra mikilvægra málaflokka. Rektor kynnti tillögur sínar að nokkrum áherslumálum næstu starfsáætlunar og bauð ráðsmönnum að koma á framfæri við tillögum á milli funda. Málið verður áfram á dagskrá háskólaráðs. 

Margrét Hallgrímsdóttir þurfti að víkja af fundi.

6. Fjármál Háskóla Íslands. Staða, horfur, áætlun.
a) Fjárhagsstaða Háskóla Íslands eftir fyrstu sex mánuði ársins 2014.
b) Fjárlagafrumvarp fyrir árið 2015. Staða mála.
c) Stefnumótun um fjármögnun Háskóla Íslands til framtíðar. Markmið og leiðir, sbr. fund ráðsins 5. júní sl.

Fyrir fundinum lá yfirlit um fjárhagsstöðu Háskóla Íslands eftir fyrstu sex mánuði ársins 2014. Inn á fundinn komu Guðmundur R. Jónsson, framkvæmdastjóri fjármála og reksturs, og Jenný Bára Jensdóttir, fjármálastjóri háskólans, og gerðu grein fyrir stöðu og horfum í fjármálum Háskóla Íslands. Málið var rætt og svöruðu þau Guðmundur og Jenný spurningum fulltrúa í háskólaráði.

Að umræðu lokinni samþykkti háskólaráð einróma svohljóðandi ályktun:

„Háskólaráð Háskóla Íslands lýsir yfir þungum áhyggjum af áframhaldandi óviðunandi rekstrarumhverfi háskólans sjöunda árið í röð verði fjárveitingar til skólans eins og kynnt er í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2015.

Í nýútkominni skýrslu OECD, „Education at a Glance 2014“, kemur fram að framlög til háskólastigsins á Íslandi fara enn lækkandi í samanburði við meðaltal OECD ríkja og sérstaklega miðað við Norðurlönd. Er svo komið að Háskóli Íslands þyrfti að hafa um 6 milljarða króna (tæp 40% af heildartekjum háskólans árið 2013) hærri heildartekjur svo OECD meðaltali væri náð og um 11 milljarða króna (um 70% af heildartekjum háskólans 2013) vantar í samanburði við Norðurlöndin.

Háskóli Íslands fagnar því að auknu fé sé veitt í samkeppnissjóði Vísinda- og tækniráðs í fjárlagafrumvarpi 2015 og ánægjulegri hækkun nokkurra reikniflokka vegna kennslu. Hins vegar verður ekki betur séð en að sú reikniaðferð sem notuð hefur verið af stjórnvöldum undanfarin ár til þess að áætla fjölda ársnema í fjárlögum hafi verið aftengd. Reiknireglan byggir á vegnu meðaltali fjölda ársnema undanfarinna þriggja ára. Allar áætlanir Háskóla Íslands ganga út frá því að reiknireglan sé notuð. Þannig vantar 440 m.kr. í kennslufjárveitingu til Háskóla Íslands fyrir árið 2015 sem samsvarar því að ekki sé greitt með yfir 500 ársnemum.

Háskólaráð bendir enn fremur á að hækkun skrásetningargjalds við skólann árið 2014 úr 60.000 kr. í 75.000 kr. var látin skila sér að mjög litlu leyti til skólans.

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er kveðið á um að fylgt verði ákvæðum samnings um Aldarafmælissjóð HÍ varðandi stefnumótun um fjármögnun til ársins 2020. Vinna við stefnu um fjármögnun 2015-2020 átti skv. samningnum að hefjast á haustmisseri 2013. Háskólaráð leggur ríka áherslu á að ekki verði frekari tafir á að viðræður hefjist.

Einkar mikilvægt er að standa vörð um árangur Háskóla Íslands og tryggja að skólinn geti áfram lagt sitt af mörkum til þekkingarsköpunar í nýjum og eldri atvinnugreinum í þágu íslensks samfélags. Á undanförnum árum hefur Háskóla Íslands þrátt fyrir allt tekist að treysta stöðu sína á meðal hinna bestu í harðri alþjóðlegri samkeppni eins og fram hefur komið á matslista Times Higher Education World University Rankings. Hafa ber í huga að staða Háskóla Íslands á listanum byggir að hluta á árangri í vísindum á árunum fyrir hrun og eru áhrif niðurskurðar fjárveitinga til skólans því ekki komin fram að fullu.

Öflugur og traustur háskóli er grundvöllur framtíðar hagvaxtar á Íslandi eins og í öðrum löndum. Þeir háskólar sem bestum árangri ná eru í löndum þar sem fjárframlög hafa verið aukin markvisst til að styrkja samkeppnishæfni viðkomandi ríkja.“

Umræðu um c-lið var frestað til næsta fundar.

7. Stefna Háskóla Íslands 2011-2016: Stefnumótun í alþjóðamálum.
– Frestað.

8. Lóðamál Háskóla Íslands.
a) Samningur um lóðir Háskóla Íslands, dags. 1. september 2014.
b) Framtíðarskipulag Vatnsmýrar. Áfangaskýrsla verkefnisstjórnar: Vísindaþorpið í Vatnsmýri – Reykjavik Science City, maí 2014.

Fyrir fundinum lá samningur um lóðir Háskóla Íslands, dags. 1. september 2014, og áfangaskýrsla verkefnisstjórnar: Vísindaþorpið í Vatnsmýri – Reykjavík Science City, dags. maí 2014. Guðmundur R. Jónsson gerði grein fyrir málinu og var það rætt.

9. Endurskoðun á reglum um Rannsóknasjóð Háskóla Íslands og úthlutun doktorsstyrkja. Drög lögð fram til kynningar. Afgreiðsla á næsta fundi.
Inn á fundinn kom Jón Atli Benediktsson, aðstoðarrektor vísinda og kennslu, og gerði grein fyrir málinu. Fram kom að drögin voru send til umsagnar fræðasviða föstudaginn 5. september sl. með ósk um viðbrögð fyrir 19. september nk. Málið var rætt og svaraði Jón Atli spurningum og athugasemdum ráðsmanna. Bauð Jón Atli fulltrúum í háskólaráði til sérstaks fundar um þær reglur sem gilda um Rannsóknasjóð Háskóla Íslands og úthlutun doktorsstyrkja.
– Stefnt er að afgreiðslu málsins á næsta fundi.

10. Bókfærð mál.
a) Endurskoðaðar verklagsreglur um viðurkenningu Háskóla Íslands fyrir lofsverðan árangur í starfi.

– Samþykkt.

11. Mál til fróðleiks.
a) Dagatal Háskóla Íslands 2014-2015.
b) Nefndir, stjórnir og ráð sem háskólaráð hefur aðkomu að.
c) Samantekt um störf kennslumálanefndar háskólaráðs 2009-2014.
d) Úthlutun styrkja úr Kennslumálasjóði vorið 2014.
e) Hugskeyti, innanhússfréttabréf Hugvísindasviðs, júní 2014.
f) Innanhússfréttabréf Félagsvísindasviðs, júní 2014.
g) Fréttabréf starfsfólks Heilbrigðisvísindasviðs, ágúst 2014.

12. Önnur mál. Rektorskjör 2015.
Samkvæmt 8. gr. laga um opinbera háskóla nr. 85/2008 er kjörtímabil rektors fimm ár, en engin takmörk eru á því hversu mörg tímabil sami einstaklingur getur gegnt starfinu. Tilkynnti rektor að 1. júlí 2015 hefði hún gegnt embætti rektors í tvö kjörtímabil og myndi ekki sækja aftur um starfið. Mun rektor tilkynna þetta á opnum fundi með starfsfólki háskólans í næstu viku.

Fleira var ekki gert.
Fundi slitið kl. 16.00.