04/2012
HÁSKÓLARÁÐSFUNDUR
Ár 2012, fimmtudaginn 12. apríl var haldinn fundur í háskólaráði sem hófst kl 13.
Fundinn sátu Kristín Ingólfsdóttir, Börkur Hansen, Fannar Freyr Ívarsson, Guðrún Hallgrímsdóttir, Gunnlaugur Björnsson (varamaður fyrir Önnu Agnarsdóttur), Hilmar B. Janusson, Pétur Gunnarsson, Sigríður Ólafsdóttir, Tinna Laufey Ásgeirsdóttir og Þórður Sverrisson. Guðrún Sóley Gestsdóttir boðaði forföll og varamaður hennar einnig. Fundinn sátu einnig Jón Atli Benediktsson og Magnús Diðrik Baldursson sem ritaði fundargerð.
Fundargerð síðasta fundar var lögð fram og hún samþykkt.
1. Mál á döfinni í Háskóla Íslands.
Rektor greindi frá nokkrum viðburðum frá síðasta fundi ráðsins og framundan.
a) Úthlutað verður úr Watanabe styrktarsjóðnum við Háskóla Íslands mánudaginn 16. apríl nk. Að þessu sinni verða veittir fjórir styrkir, tveir til Japana sem munu dvelja við Háskóla Íslands og tveir til Íslendinga sem halda utan til Japans.
b) Þá vakti rektor athygli á ársskýrslu og starfsáætlun Samtaka evrópskra háskóla (European University Association, EUA), en ítarleg gögn um samtökin eru lögð fram til fróðleiks undir lið 11 c) á þessum fundi.
c) Rektor er um þessar mundir í heimsóknarferð til allra deilda og þverfræðilegra námsleiða við Háskóla Íslands. Er um þriðjungi heimsóknanna lokið og hafa þær verið mjög gagnlegar.
d) Loks nefndi rektor nokkur umbótaverkefni sem eru á döfinni í Háskóla Íslands, s.s. vinnu við uppfærslu og samræmingu verkferla og verklagsreglna, gerð gæðahandbókar og aðgerðir til að bæta upplýsingamiðlun.
2. Fjármál Háskóla Íslands.
a) Staða mála.
Fyrir fundinum lágu drög að ársreikningi Háskóla Íslands fyrir árið 2011. Inn á fundinn kom Gunnlaugur H. Jónsson, starfandi fjármálastjóri háskólans, og gerði grein fyrir ásreikningsdrögunum. Málið var rætt og svaraði Gunnlaugur spurningum ráðsmanna. Endanlegur ársreikningur verður lagður fram á næsta fundi ráðsins.
b) Aldarafmælissjóður Háskóla Íslands. Ráðstöfun fjár.
Jón Atli Benediktsson gerði grein fyrir fyrirliggjandi hugmyndum og tillögum um ráðstöfun fjár úr Aldarafmælissjóði Háskóla Íslands. Málið var rætt ítarlega og svaraði Jón Atli spurningum fulltrúa í háskólaráði.
c) Tilboð Isavia í hlut Háskóla Íslands í Tern Systems hf.
Fyrir fundinum lá ársreikningur Tern Systems hf. fyrir árið 2011 og minnisblað um tilboð ISAVIA í hlut Háskóla Íslands í félaginu. Inn á fundinn kom Ebba Þóra Hvannberg, prófessor og fulltrúi Háskóla Íslands í stjórn Tern Systems hf. og gerði grein fyrir málinu. Málið var rætt ítarlega og svaraði Ebba Þóra spurningum ráðsmanna. Á næsta fundi ráðsins verða lögð fram drög að samningi um sölu hlutar Háskóla Íslands í Tern Systems hf.
d) Málefni Happdrættis Háskóla Íslands.
Inn á fundinn kom Bryndís Hrafnkelsdóttir, forstjóri Happdrættis Háskóla Íslands, og skýrði ítarlega frá stöðu mála og framtíðarhorfum í rekstri Happdrættisins. Málið var rætt og svaraði Bryndís spurningum ráðsmanna.
3. Stefna Háskóla Íslands 2011-2016: Drög að endurskoðuðum viðmiðum og kröfum um gæði doktorsnáms.
Rektor og Jón Atli Benediktsson gerðu stuttlega grein fyrir málinu, en það verður á dagskrá háskólaþings 18. apríl nk. og kemur að því búnu aftur til háskólaráðs.
4. Stefna Háskóla Íslands 2011-2016: Drög að stefnu um opinn aðgang að ritverkum og lokaverkefnum starfsmanna og stúdenta. Tillaga starfshóps sem skipaður var 14. nóvember sl.
- Frestað.
5. Tillögur fræðasviða um samkennslu og tölfræðihlaðborð, sbr. fund ráðsins 8. desember sl.
Rektor gerði grein fyrir málinu og bar upp tillögu um að starfshópi háskólaráðs, sem upphaflega vann fyrstu tillögur um málið, verði falið að veita umsögn um tillögur fræðasviðanna. Í starfshópnum eru Gunnlaugur Björnsson og Sigríður Ólafsdóttir, fulltrúar í háskólaráði, og Daði Már Kristófersson, dósent við Hagfræðideild. Hópurinn hafi samráð við fulltrúa fræðasviðanna og skili umsögn sinni fyrir fund háskólaráðs í júní.
- Samþykkt einróma.
6. Samstarfssamningur fræðasviða og deilda um menntun framhaldsskólakennara.
Inn á fundinn kom Þórður Kristinsson, sviðsstjóri kennslusviðs. Rektor og Jón Atli Benediktsson gerðu grein fyrir málinu, sem felur í sér aukið samstarf á milli Menntavísindasviðs og hinna fræðasviðanna. Málið var rætt.
7. Tillögur að breytingu á reglum og að nýjum reglum í kjölfar gildistöku nýrra laga, sameiginlegra reglna og breytts skipulags Háskóla Íslands.
a) Miðstöð framhaldsnáms, breyting á 66. gr. reglna Háskóla Íslands nr. 569/2009.
Rektor bar upp tillögu um málinu verði frestað þar sem tillaga að endurskoðuðum Viðmiðum og kröfum um gæði doktorsnáms við Háskóla Íslands, sbr. lið 3, verður á dagskrá háskólaþings 18. apríl nk. og mun væntanlega kalla á frekari endurskoðun ákvæða um Miðstöð framhaldsnáms í reglum háskólans.
- Samþykkt.
8. Tillögur fræðasviða/deilda um að veita ekki heimild til undanþágu frá inntökuskilyrðum 2012-2013.
Fyrir fundinum lágu tillögur frá Lagadeild Félagsvísindasviðs, Hjúkrunarfræðideild Heilbrigðisvísindasviðs og öllum deildum Verkfræði- og náttúruvísindasviðs um að veita ekki heimild til undanþágu frá inntökuskilyrðum kennsluárið 2012-2013. Þórður Kristinsson gerði grein fyrir málinu og svaraði spurningum fulltrúa í háskólaráði.
- Samþykkt samhljóða, en einn sat hjá.
9. Nefndir, stjórnir og ráð.
a) Nefnd til að yfirfara reglur Háskóla Íslands.
Rektor gerði grein fyrir málinu og var það rætt. Rektor bar upp tillögu um að skipaður verði starfshópur sem hafi það verkefni að gera tillögur um heildarendurskoðun og samræmingu reglna Háskóla Íslands. Í starfshópnum verði Róbert R. Spanó, prófessor og forseti Lagadeildar, formaður, Þórður Kristinsson, sviðsstjóri kennslusviðs, Trausti Fannar Valsson, lektor við Lagadeild, og Kristín Helga Markúsdóttir, lögfræðingur starfsmannasviðs. Starfshópurinn geri háskólaráði grein fyrir stöðu vinnunnar 15. október 2012 og skili tillögum sínum eigi síðar en 1. febrúar 2013.
- Samþykkt einróma.
10. Drög að skýrslu starfshóps Vísinda- og tækniráðs um einföldun á vísinda- og nýsköpunarkerfinu.
Fyrir fundinum lágu drög að skýrslu starfshóps Vísinda- og tækninefndar Vísinda- og tækniráðs um einföldun á vísinda- og nýsköpunarkerfinu, dags. 26. mars 2012. Jón Atli Benediktsson gerði grein fyrir málinu og var það rætt ítarlega. Rektor greindi frá því að Háskóli Íslands hefur frest til 25. apríl nk. til að gefa umsögn og gera athugasemdir við skýrsludrögin og beindi því til ráðsmanna að senda sér athugasemdir og ábendingar fyrir 20. apríl nk.
11. Mál til fróðleiks.
a) Dagskrá háskólaþings 18. apríl 2012.
b) Auglýsing eftir framboðum og ábendingum um fulltrúa háskólasamfélagsins í háskólaráði 2012-2014 ásamt lista yfir frambjóðendur.
c) Ársskýrsla EUA 2011 (Annual Report 2011) og Áherslur í starfi EUA (Work Programme 2012).
d) Skýrsla Ríkisendurskoðunar til Alþingis: Rannsóknaframlög til háskóla (apríl 2012).
Fleira var ekki gert.
Fundi slitið kl. 16.30.