Skip to main content

Fundargerð háskólaráðs 22. desember 2008

18/2008

HÁSKÓLARÁÐSFUNDUR

Ár 2008, mánudaginn 22. desember var haldinn fundur í háskólaráði sem hófst kl. 13.00.

Fundinn sátu: Kristín Ingólfsdóttir, Anna Agnarsdóttir, Elín Ósk Helgadóttir, Gunnar Einarsson, Gunnlaugur Björnsson, Hilmar B. Janusson, Sigríður Ólafsdóttir, Sigrún Ingibjörg Gísladóttir, Valgerður Bjarnadóttir, Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir og Þórður Sverrisson. Fundargerð ritaði Magnús Diðrik Baldursson.

1. Mál á dagskrá

1.1    Fjármál Háskólans.

Inn á fundinn komu Guðmundur R. Jónsson, formaður fjármálanefndar háskólaráðs, Jón Atli Benediktsson, þróunarstjóri og aðstoðarmaður rektors og Þórður Kristinsson, sviðsstjóri kennslusviðs. Rektor gerði grein fyrir stöðu mála varðandi endurskoðað fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar sem liggur fyrir Alþingi til samþykktar, drögum að fjárhagsáætlun Háskólans fyrir árið 2009 og tillögum um viðbrögð við þeim niðurskurði á fjárveitingum til skólans sem í fjárlagafrumvarpinu felst. Í máli rektors kom m.a. fram að í framlögðum tillögum um viðbrögð við boðuðum niðurskurði er áhersla lögð á þrennt: Í fyrsta lagi að standa vörð um störf, í öðru lagi að tryggja stúdentum kennslu í samræmi við gæðakröfur Háskólans og í þriðja lagi að halda áfram að byggja upp öflugan rannsóknaháskóla í samræmi við stefnu Háskóla Íslands. Til að ná þessum markmiðum er í tillögunum m.a. gert ráð fyrir endurskoðun fastlaunasamninga og yfirvinnu, þ.m.t. hjá yfirstjórn og sameiginlegri stjórnsýslu, tilfærslu á starfsskyldum, endurskipulagningu námskeiða, lækkun ferðakostnaðar, lækkuðum útgjöldum vegna tækjakaupa og frestun hluta áforma samkvæmt afkastatengdum samningi við stjórnvöld vegna framkvæmdar stefnu Háskólans. Málið var rætt ítarlega. Að umræðu lokinni bar rektor upp til samþykktar framlagðar tillögur um viðbrögð við boðuðum niðurskurði í framlögum til Háskóla Íslands.

- Samþykkt einróma.

Í framhaldi af samþykktinni bar rektor upp tillögu um þrjár bókanir. Fyrsta bókunin varðar afnám kennsluafsláttar við 55 og 60 ára aldur og hljóðar svo:

„Á vegum háskólaráðs verði mótaðar reglur um tilfærslu starfsþátta, óháð aldri, sem miði að því að koma til móts við þá kennara sem sýna afburða árangur í rannsóknum, sbr. 32. gr. reglna fyrir Háskóla Íslands nr. 458/2000.“

- Samþykkt einróma.

Önnur bókunin varðar breytingu á forsendum og úthlutunarreglum um greiðslu styrkja úr Sáttmálasjóði til greiðslu fargjalda og dagpeninga og hljóðar svo:

„Til að fá styrk úr Sáttmálasjóði til ferða á alþjóðlegar vísindaráðstefnur þarf viðkomandi að vera með framlag á ráðstefnunni. Ef tilefni ferðar er samstarf skal rökstyðja það sérstaklega og lýsa vandlega samstarfsverkefninu. Hámarkslengd einstakrar ferðar eru tveir dagar umfram lengd ráðstefnu, þó ekki meira en 7 dagar. Heildarfjöldi daga á ári er 7.“

- Samþykkt einróma.

Þriðja bókunin varðar breytingar á viðmiði vegna endurnýjunar á tölvubúnaði starfsmanna Háskóla Íslands og hljóðar svo:

„Í stað þess að miða við að minnsta kosti þriggja ára endurnýjunartíma á tölvum skal miðað við að minnsta kosti fjögur ár.“

- Samþykkt einróma.

Loks bar rektor upp til samþykktar framlagðan ramma um skiptingu fjár og verkefna innan Háskóla Íslands fyrir árið 2009.

- Samþykkt einróma með fyrirvara um samþykkt Alþingis á fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnar Íslands fyrir árið 2009 og um frágang verkaskiptingar og tilfærslu fjár vegna sameiningar Háskóla Íslands og Kennaraháskóla Íslands. Aukið framlag til Háskólans fyrir árið 2009, 130 m.kr., renni til fræðasviða og deilda vegna fjölgunar nemenda á vormisseri 2009.

Að afgreiðslu lokinni greindi rektor frá því að hún hafi boðað starfsfólk Háskóla Íslands til opins kynningarfundar um fjármál skólans á árinu 2009 strax eftir háskólaráðsfundinn.

1.2 Inntaka nemenda í janúar 2009. Staða mála.

Rektor og Þórður Kristinsson gerðu grein fyrir málinu. Greindu þau m.a. frá því að farið hafi verið yfir málið með forsetum fræðasviða og að á hverju fræðasviði hefði verið athugað nákvæmlega með deildarforsetum hvort mögulegt sé að bæta við nemendum. Augljóst væri að það væri íþyngjandi fjárhagslega með tilliti til kennslu, húsnæðis, aðstöðu og þjónustu við stúdenta og kennara. Þótt álag myndi aukast væri þó ófrávíkjanlegt að tryggja sem fyrr að námskröfur verði ekki skertar. Fyrir liggi að allar umsóknir um grunnnám uppfylla inntökuskilyrði en verið sé að fara yfir umsóknir um framhaldsnám m.t.t. inntökuskilyrða. Málið var rætt ítarlega og svöruðu rektor og Þórður spurningum ráðsmanna.
- Samþykkt einróma að fyrirliggjandi umsóknir um grunnnám verði samþykktar. Áfram verði leitað leiða með stjórnvöldum til að Háskólanum verði bættur sá kostnaður sem af því mun hljótast. Einnig var samþykkt einróma að samþykkja umsóknir um framhaldsnám m.t.t. inntökuskilyrða og með fyrirvara um að aðlögun getur reynst nauðsynleg á einstökum námsleiðum vegna verklegs náms og vegna þjálfunar utan Háskólans.

Að lokum óskaði rektor ráðsmönnum gleðilegra jóla og þakkaði þeim fyrir frábært samstarf og ómetanleg störf þeirra í þágu Háskóla Íslands á árinu sem er að líða.

Fleira var ekki gert.

Fundi slitið kl. 14.00.