Ný tækifæri og katalónsk menning á stúdentaráðstefnu Aurora
Möguleikar til að mennta stúdenta til að takast á við helstu áskoranir samtímans og tækifæri til persónulegs þroska var meðal þess sem stendur upp úr hjá Moses Osabutey og Musah Nsobila Mohammed, nemendum við Háskóla Íslands, sem tóku þátt í stúdentaráðstefnu Aurora-samstarfsins sem fram fór í Tarragona á Spáni fyrr á þessu ári.
Moses og Musha birta ferðasögu sína á enskum vef Háskóla Íslands undir yfirskriftinni “A trip of awaking new possibilities sandwiched with rich Catalan culture.”
Ráðstefnan fór fram við University Rovira i Virgili í Tarragona á Spáni sem er einn samstarfsskólanna innan Aurora. Markmið þess er í senn að stuðla að samstarfi á sviði rannsókna og menntunar meðal samstarfsskólanna níu og rjúfa múra milli landa og skapa nemendum tækifæri til náms utan heimalandsins.
Markmið þeirra Moses og Musha með því að sækja rástefnuna var að öðlast aukna þekkingu og efla tengslanetið en á henni var mikil áhersla lögð á styrkja þátttakendur persónulega og faglega. „Við fræddumst um katalónska menningu og tungu, tókum þátt í menningarlegum hraðstefnumótum, vinnustofum um inngildingu og fjölbreytileika og fræddumst frekar um Aurora-samstarfið,“ segja Moses og Musha í ferðasögu sinni.
Á ráðstefnunni var t.a.m. boðið upp á heimskaffi þar sem stúdentar Aurora-háskólanna glímdu við fjögur viðfangsefni sem kjarna Aurora. Þannig ræddu stúdentar um hvernig Aurora gæti grundvallað starf sitt í kringum þarfir stúdenta með það fyrir augum að hvetja þau til afreka að loknu námi en einnig hvernig Aurora-skólarnir gætu undirbúið stúdenta sína betur til að takast á við stærstu áskoranir samtímans, eins og loftslagsbreytingar.
Þá minnast Moses og Musha einnig á að mikilvægt hafi verið að læra „að láta í sér heyra” og kynna hugmyndir sínar fyrir kennurum og samstarfsfólki en margir hræðist slíkt. Á vinnustofu helgaðri því hafi verið lögð áhersla á góðan undirbúning, skýra framsetningu, tímastjórnun, líkamsstöðu og notkun þagnar við kynningar. „Þessi vinnustofa var persónulega mótandi og mun styrkja hæfni okkar við kynningar, meðal annars á starfi Aurora.“
Samhliða ráðstefnunni gafst Moses, Musha og öðrum þátttakendum gott tækifæri til að kynna sér ríka sögu og menningu Tarragona, þar á meðal hina einstöku mennsku turna sem tíðkast að byggja á hátíðum í borginni.
„Við viljum þakka skipuleggjendum fyrir frábært framtak. Við viljum sömuleiðis þakka Háskóla Íslands fyrir þetta tækifæri og fjárhagslegan stuðning. Að okkar sameiginlega mati reyndist förin á stúdentaráðstefnu Aurora 2024 kveikja að nýjum tækifærum í bland við kynni af hinni ríkulegu katalónsku menningu,” segja Moses Osabutey og Musah Nsobila Mohammed, fulltrúar HÍ á ráðstefnunni.