Skip to main content
8. maí 2024

Árangursrík skurðsýnataka úr lungum sjúklinga með lungnatrefjun

Árangursrík skurðsýnataka úr lungum sjúklinga með lungnatrefjun - á vefsíðu Háskóla Íslands

Á dögunum birtist í tímaritinu Journal of Thoracic Diseases vísindagrein eftir vísindamenn við HÍ og Landspítala um árangur skurðaðgerða þar sem tekið er sýni til sjúkdómsgreiningar úr lungum íslenskra sjúklinga með lungnatrefjun. Um er að ræða mismunandi en sjaldgæfa sjúkdóma þar sem bandvefsmyndum verður í lungunum sem skerðir loftskipti og getur valdið öndunarbilun. Bæði aðgerð og svæfingu hjá þessum sjúklingahópi getur fylgt áhætta og þessari greiningaraðferð er því ekki beitt alls staðar erlendis. Á Landspítala voru allar aðgerðirnar gerðar í svæfingu í gegnum þrjú smá göt með aðstoð brjóstholssjár sem tengd var við sjónvarpsskjá. Fylgikvillar reyndust fátíðir, allir sjúklingarnir lifðu aðgerðina og fékkst greining í 93% tilfella, en rétt greining er forsenda þess að hægt sé að veita áhrifaríkustu lyfjameðferð sem er einstaklingsmiðuð fyrir hvern og einn sjúkling.

Við lungnatrefjun verður bandvefsmyndun (trefjun) í lungum sem á ensku kallast Interstitial lung diseases (ILD) og á íslensku millivefslungnasjúkdómar. Þetta er sjaldgæft sjúkdómsástand og greinast nokkrir sjúklingar árlega hér á landi. Sjúkdómurinn getur verið af ýmsum orsökum, m.a. tengst gigtarsjúkdómum, ryki og sýkingum. Í langflestum tilfellum er orsökin þó ekki þekkt. Við trefjunina truflast loftskipti um lungun sem getur valdið mæði og súrefnisskorti, jafnvel öndunarbilun. Önnur einkenni eru hósti og slappleiki. 

Oftast vaknar grunur um millivefssjúkdóma við myndrannsóknir á lungum. Er þá stundum reynt að staðfesta greininguna með sýnatöku í berkjuspeglun, sem þó gefur ekki greiningu nema í hluta tilfella. Þá getur skurðaðgerð komið til greina þar sem fleygur er tekinn úr lunganu, en smásjárskoðun á honum gefur næstum alltaf nákvæma vefjagreiningu. Þótt þessari aðgerð geti fylgt áhætta þá hefur verið stefnan hér á landi sl. tvo áratugi að ná skurðsýni hjá sem flestum þessara sjúklinga. Forsendur slíkrar nálgunar er að aðferðin sé nákvæm og hættulítil. Nákvæm greining gerir kleift að einstaklingsmiða  meðferð hvers og eins sjúklings, en sumir fá ónæmisbælandi lyf og aðrir fá lyf sem draga úr bandvefsmyndun. Þannig má hægja á þessum sjúkdómum og bæta líðan sjúklinga og forða þeim frá lungnaígræðslu sem gripið er til í verstu tilfellunum sem síðasta úrræði.
 

Frá aðgerð þar sem sýni er tekið til sjúkdómsgreiningar sjúklings með lungnatrefjun. MYND/Landspítali

Rannsóknin náði til 68 sjúklinga sem gengust undir aðgerðina 2008-2020 og var meðalaldur 58 ár og 59% sjúklinga voru karlar. Farið var í gegnum myndrannsóknir af lungum, vefjagreiningar lungnasýna og reiknuð út lifun sjúklinga. Í 60% tilfella hafði berkjuspeglun ekki gefið greiningu og í hinum 40% tilfellanna var talið rétt að staðfesta greiningu lungnatrefjunar með skurðsýni. Aðgerðin var ávallt gerð í gegnum eitt 1,5 cm stórt gat og tvö 0,5-1 cm stór göt og notast við brjóstholssjá sem tengd var sjónvarpsskjá. Tekið var u.þ.b. 2-4 cm stórt sýni úr öðru hvoru lunganu. Fékkst greining í tæplega 93% tilfella, sem þykir hátt hlutfall. Aðeins einn sjúklingur fékk alvarlegan fylgikvilla og 10% minniháttar fylgikvilla sem oftast var saklaus loftleki. Allir sjúklingarnir lifðu aðgerðina og voru 95,6% á lífi ári frá aðgerð og 74% fimm árum frá aðgerð. Var niðurstaða höfunda að í langflestum tilvikum sé hægt að ná nákvæmari greiningu með skurðsýnatöku með aðstoð brjóstholssjár og að aðgerðin sé örugg og legutími stuttur.

Fyrsti höfundur greinarinnar er Leifur Þráinsson, sem nú stundar sérnám í hjarta- og lungnaskurðlækningum við Sahlgrenska-háskólasjúkrahúsið í Gautaborg en starfaði áður sem sérnámlæknir á skurðsviði Landspítala. Leiðbeinendur hans í verkefninu, sem unnið var við hjarta- og lungnaskurðdeild Landspítala, var Tómas Guðbjartsson, hjarta- og lungnaskurðlæknir og prófessor við Læknadeild HÍ, og Gunnar  Guðmundsson, sérfræðingur og prófessor í lungnalækningum.

Greinin í Journal of Thoracic Diseases.

 Leifur Þráinsson