Talmeinafræði - Undirbúningsnám
Talmeinafræði, forkröfur
Undirbúningsnám – 75 einingar
Undirbúningsnámi í talmeinafræði er ætlað að gera nemendum sem hyggja á meistaranám í talmeinafræði við HÍ kleift að uppfylla faglegar forkröfur sem gerðar eru um tiltekin námskeið í íslenskri málfræði og sálfræði.
Skipulag náms
- Haust
- Tal- og málmeinE
- Inngangur að málfræði
- Tölfræði I
- Vor
- Máltaka barna
- Málkerfið – hljóð og orð
- Tölfræði II
- Þroskasálfræði
- Mælinga- og próffræði
Tal- og málmein (AMV415G)
Í námskeiðinu fá nemendur yfirlit yfir helstu viðfangsefni talmeinafræðinga á Íslandi. Um er að ræða fjölbreytt efni, allt frá greiningu og meðferð málstols og kyngingartregðu hjá fullorðnum einstaklingum yfir í málþroskaröskun og framburðarfrávik barna á leikskólaaldri. Unnið er út frá nauðsynlegri grunnþekkingu og yfir í hagnýtari nálganir á viðfangsefnið. Einnig verður lögð áhersla á að nemendur geti kynnt sér fræðilega umræðu og ritrýndar greinar á sviði talmeinafræði.
Inngangur að málfræði (ÍSL110G)
Kynnt verða helstu viðfangsefni málvísinda og undirstöðuatriði í íslenskri málfræði. Fjallað verður um valin atriði innan höfuðgreina málvísinda og helstu hliðargreinar þeirra auk þess sem gefið verður yfirlit yfir þróun málvísinda í gegnum aldirnar. Meginmarkmið námskeiðsins er að efla skilning nemenda á eðli tungumála og kynna þeim helstu grundvallarhugtök og aðferðir málvísinda. Kennsla felst í fyrirlestrum kennara og umræðum nemenda og kennara um efnið. Nemendur vinna heimaverkefni reglulega yfir misserið, taka tvö heimakrossapróf og ljúka námskeiðinu með lokaprófi í stofu á háskólasvæðinu.
Tölfræði I (SÁL102G)
Meginefni námskeiðsins er lýsandi tölfræði og myndræn framsetning gagna. Fjallað verður m.a. um helstu mælitölur lýsandi tölfræði, myndræna framsetningu gagna, einfalda línulega aðhvarfsgreiningu, fylgni, úrtaksgerð, grunnatriði líkindafræði og úrtakadreifingar.
Námskeiðið er ekki kennt í fjarnámi. Ætlast er til þess að nemendur mæti í alla fyrirlestra.
Máltaka barna (ÍSL508G)
Gefið verður yfirlit yfir málfræðilegar rannsóknir á máltöku barna. Byrjað verður á að kynna líffræðilegar forsendur máltöku (málstöðvar í heilanum, markaldur í máli, o.fl.). Rætt verður um kenningar um máltöku og saga barnamálsrannsókna rakin. Síðan verður fjallað um hvernig börn ná valdi á höfuðþáttum móðurmáls síns, þ.e. hljóð- og hljóðkerfisfræði, beygingar- og orðmyndunarfræði, setningafræði, merkingarfræði og þróun orðaforða. Að lokum verða frávik í málþroska rædd (stam, lesblinda og sértækar málþroskaraskanir) og fjallað um tvítyngi og máltöku annars og erlendra mála. Markmið námskeiðsins er að varpa ljósi á hvernig börn læra móðurmál sitt og á þau stig sem börn ganga í gegnum í málþroska. Í þessum tilgangi verður lesin yfirlitsbók um efnið og greinar um íslenskar og erlendar barnamálsrannsóknir.
Málkerfið – hljóð og orð (ÍSL209G)
Þetta er grundvallarnámskeið í íslenskri hljóðfræði, hljóðkerfisfræði, beygingarfræði og orðmyndunarfræði. Farið verður í grundvallaratriði hljóðeðlisfræði og íslenskrar hljóðmyndunar og nemendur þjálfaðir í hljóðritun. Helstu hugtök í hljóðkerfisfræði verða kynnt og gefið yfirlit yfir hljóðferli í íslensku og skilyrðingu þeirra. Einnig verða grundvallarhugtök orðhlutafræðinnar kynnt og farið yfir helstu orðmyndunarferli í íslensku og virkni þeirra. Málfræðilegar formdeildir verða skoðaðar, beygingu helstu orðflokka lýst og gerð grein fyrir beygingarflokkum og tilbrigðum.
Tölfræði II (SÁL203G)
Meginefni námskeiðsins er ályktunartölfræði. Fjallað verður m.a. um spá á grunni úrtaksupplýsinga (estimation), öryggisbil, úrtakadreifingu, tilgátuprófun, t-próf og kíkvaðratpróf. Nemendur vinna verkefni samhliða fyrirlestrum.
Þroskasálfræði (SÁL414G)
Fjallað er um rannsóknaraðferðir, kenningar og viðfangsefni þroskasálfræði. Þróun frá fæðingu til unglingsára er lýst í samhengi við viðeigandi rannsóknaniðurstöður. Nemendur starfa að sérstökum rannsóknar- og ritgerðarverkefnum og skila um þau skýrslum. Skylt er að taka þátt í verkefna- og umræðutímum og skila þar tilskildum verkefnum.
Mælinga- og próffræði (SÁL418G)
Fjallað er um fræðilegan grundvöll, samningu og túlkun sálfræðilegra prófa. Í verklegum æfingum er lögð áhersla á hefðbundna atriðagreiningu, áreiðanleika og leitandi þáttagreiningu.
Hafðu samband
Skrifstofa Hugvísindasviðs
Aðalbygging, 3.hæð - Sæmundargötu 2
Sími: 525 4400
Netfang: hug@hi.is
Skrifstofan er opin virka daga frá kl 10:00–12:00 og 13:00–15:00.
Nemendur á Hugvísindasviði geta einnig nýtt sér Þjónustuborð á Háskólatorgi. Hægt er að nálgast upplýsingar í netspjalli hér á síðunni.
Fylgstu með Hugvísindasviði:
Hjálplegt efni
Ertu með fleiri spurningar? Hér finnurðu svör við ýmsum þeirra og upplýsingar um ýmislegt annað sem gott er að hafa í huga þegar þú velur nám.