Listfræði
Listfræði
BA gráða – 120 einingar
Nám í listfræði veitir þekkingu í sögu myndlistar og sjónrænnar menningar og þjálfun í að skilja, greina og túlka myndlistarverk og annað sjónrænt efni frá ólíkum tímum og í mismunandi þjóðfélögum. Sérstök áhersla er lögð á íslenska myndlistarsögu í náminu. Listfræði er kennd í samstarfi við myndlistardeild Listaháskóla Íslands.
Skipulag náms
- Haust
- Myndlist á Vesturlöndum frá 1348–1848
- Aðferðafræði og hugtök listfræði
- Íslensk myndlist 1870-1970
- Ritfærni: Fræðileg skrif
- Vor
- Íslensk myndlist í samtíð
- Alþjóðleg nútímalistasaga frá 1850-1960
- Alþjóðleg myndlist frá 1960 til samtíma
Myndlist á Vesturlöndum frá 1348–1848 (LIS004G)
Í námskeiðinu verða meginverk í listasögu Vesturlanda frá frum-endurreisn til fyrri hluta nítjándu aldar tekin til skoðunar. Landfræðilega er sjónum beint að listaverkum frá Ítalíu og Spáni, Frakklandi, Niðurlöndum, Þýskalandi og Englandi. Fjallað verður um helstu aðferðir og skóla, akademíur og birtingarform myndlistar í trúarlegu, pólitísku og samfélagslegu samhengi. Fjallað verður um málaralist, höggmyndalist, byggingarlist, listiðnað og prentmyndir. Leitast verður við að skoða að hvaða leyti listin speglar samfélagið, hvernig myndmál speglar lífssýn og heimsmynd manna á ólíkum tímabilum. Fjallað er um breytilegt inntak tíma og rýmis á hverjum tíma, breytingar á táknrænni mynd líkama, um stöðu og samfélagshlutverk listamann og samspil listar og valdastofnana. Í tengslum við þessi viðfangsefni verða lykilverk hvers tíma tekin til ítarlegrar túlkunar og dreifingarsaga þeirra rædd.
Aðferðafræði og hugtök listfræði (LIS101G)
Aðferðafræði og hugtök listfræði (LIS101G) er inngangsnámskeið sem er hugsað sem grunnnámskeið fræðigreinarinnar listfræði. Fjallað er um listhugtakið, sögu fræðigreinarinnar, fræðilegar forsendur listfræði sem sjálfstæðrar fræðigreinar og tengsl hennar við aðrar fræðigreinar. Helstu hugtök, rannsóknaraðferðir og kenningar listfræðinnar eru kynnt. Nemendur fá þjálfun í myndgreiningu og myndlestri og kynnast helstu greiningaraðferðum listfræði, s.s. formalískri, íkónógrafískri og marxískri myndgreiningu. Áhersla er lögð á þjálfun gagnrýnnar hugsunar og hæfni nemenda til gagnrýnnar greiningar á texta og myndmáli.
Íslensk myndlist 1870-1970 (LIS102G)
Saga íslenskrar myndlistar frá 1870 til 1970. Fjallað er um upphaf íslenskrar nútímamyndlistar, einstaka myndlistarmenn og mótandi öfl í íslensku myndlistarlífi, áhrif erlendra listhugmynda og stefna, tilraunir til að skilgreina "þjóðlega" íslenska myndlist, stuðning og áhrif yfirvalda á myndlistarþróun, togstreitu milli málsvara þjóðlegrar listar og óþjóðlegrar listar, einnig milli "tilfinningatjáningar" annars vegar og "vitsmunalegrar" framsetningar hins vegar, innlenda listmenntun og megineinkenni myndlistarumfjöllunar eins og hún birtist á hverjum tíma í dagblöðum og tímaritum. Leitast verður við að meta sérkenni íslenskrar myndlistar í samhengi við erlenda listþróun, en einnig í ljósi íslenskrar samfélagsþróunar og sögu. Kennt í HÍ
Ritfærni: Fræðileg skrif (ÍSR301G)
Ritfærni: Fræðileg skrif er grunnnámskeið í meðferð ritaðs máls. Nemendur hljóta þjálfun í ritun með vikulegum heimaverkefnum, fyrirlestrum, umræðum og smiðjuvinnu. Fjallað verður um vinnulag við ritun fræðilegra texta, svo sem val og afmörkun viðfangsefnis, byggingu, heimildanotkun og frágang. Einnig verður lögð áhersla á að þjálfa nemendur í málnotkun í fræðilegum textum og fjallað meðal annars um málsnið, stíl, stafsetningu, greinarmerkjasetningu og hjálpargögn málnotenda. Nemendur skrifa fræðilega ritgerð í leiðsagnarmati og fá reglulega endurgjöf kennara sem og samnemenda. Námsmat byggist á vikulegum heimaverkefnum, miðmisserisverkefni, lokaverkefni og virkri þátttöku í ritsmiðjum. Vakin er athygli á því að aðeins er hægt að ljúka námskeiðinu sé öllum verkefnum skilað.
Íslensk myndlist í samtíð (LIS201G)
Helstu sérkenni og söguleg þróun íslenskrar myndlistar síðustu áratugi 20. aldar og á fyrsta áratug 21.aldar skoðuð í ljósi íslensks samfélags og samhengis við erlenda listþróun. Meðal viðfangsefna er arfleifð SÚM á áttunda áratugnum, stofnun Gallerís Suðurgötu 7 og Nýlistasafnsins, einkenni hins íslenska konsepts og annarra „nýlista“, svo sem ljósmynda, innsetninga og gjörninga, stofnun Myndhöggvarafélagsins í Reykjavík og uppgangur þrívíddarlistar, endurkoma olíumálverksins á níunda áratugnum, vídeólistar starfrænna miðla og í seinni tíð skörun myndlistar, kvikmyndamiðilsins og tónlistar. Hugað verður að afstöðu yngri kynslóðar myndlistarmanna til myndlistararfsins á hverjum tíma, m.a. til náttúruarfleifðar og að "þjóðlegri" birtingarmynd myndlistar. Þá er fjallað um einkenni gagnrýnnar umræðu um myndlist, listmenntun, þátttöku í Feneyjabíennal, rekstur gallería og stofnun sýningarhópa í samtímanum. Kennt í HÍ.
Alþjóðleg nútímalistasaga frá 1850-1960 (LIS243G)
Fjallað verður um þróun myndlistar frá umbrotatímum módernismans á síðustu áratugum 19. aldar, í gegnum helstu framúrstefnuhreyfingar eða -isma 20.aldar fram til ársins 1960. Gerð verður grein fyrir helstu stefnum módernískrar myndlistar, forsendum þeirra, sérkennum og mikilvægi fyrir síðari tíma. Fjallað verður um tengsl listar við pólitík, heimspeki og þjóðfélagsþróun og hugað að róttæku endurmati á fegurðarhugtakinu í listum á 20. öld. Hvernig skila breyttar hugmyndir um tíma og rými sér í listinni? Hvernig raska ofangreindar listastefnur venjubundinni skynjun manna á umhverfinu og raunveruleikanum. Hvað er "innri veruleiki"? Þarf myndlist að vera sýnileg? Hver er munur á myndmáli og tungumáli og annars konar táknmáli? Reynt verður að fella alþjóðlegar sýningar sem hingað koma að námskeiðinu og verða þær sóttar heim í tengslum við það.
Alþjóðleg myndlist frá 1960 til samtíma (LIS248G)
Í námskeiðinu er farið yfir þróun alþjóðlegrar samtímamyndlistar frá árinu 1970 til okkar tíma. Á þematískan hátt verða helstu stefnur, hreyfingar, einstaklinga og hugmyndir sem einkennt hafa tímabilið til skoðunar. Lögð er áhersla á að kynna þá nýju miðla og aðferðir sem fram komu á þessum tíma; umhverfislist hvers konar og innsetningar; gjörninga og uppákomur; gagnvirka stafræna list; tilraunakvikmyndun og vídeólist; hugmyndalist og ljósmyndun sem listform. Jafnframt verður brugið ljósi á þjóðfélagslegt samhengi myndlistar í samtíma, tengingar við stjórnmál, efnahag og samfélag.
- Haust
- Íslensk myndlist 1870-1970
- Ritfærni: Fræðileg skrif
- Listheimspeki
- BA-ritgerð í listfræði
- Nútíma listskemmtanir frá 1790 til samtímaVE
- MenningararfurV
- Kynusli í myndlistV
- Vor
- BA-ritgerð í listfræði
- Listasafnið: hugmyndafræði, saga og framtíðV
- Plöntur, landslag, pólitíkV
- Sjálf listamannsins og sjálfsmyndir samfélagsinsV
- Inngangur að sýningagerðV
- Landslag sem tímiV
- MenningarheimarV
Íslensk myndlist 1870-1970 (LIS102G)
Saga íslenskrar myndlistar frá 1870 til 1970. Fjallað er um upphaf íslenskrar nútímamyndlistar, einstaka myndlistarmenn og mótandi öfl í íslensku myndlistarlífi, áhrif erlendra listhugmynda og stefna, tilraunir til að skilgreina "þjóðlega" íslenska myndlist, stuðning og áhrif yfirvalda á myndlistarþróun, togstreitu milli málsvara þjóðlegrar listar og óþjóðlegrar listar, einnig milli "tilfinningatjáningar" annars vegar og "vitsmunalegrar" framsetningar hins vegar, innlenda listmenntun og megineinkenni myndlistarumfjöllunar eins og hún birtist á hverjum tíma í dagblöðum og tímaritum. Leitast verður við að meta sérkenni íslenskrar myndlistar í samhengi við erlenda listþróun, en einnig í ljósi íslenskrar samfélagsþróunar og sögu. Kennt í HÍ
Ritfærni: Fræðileg skrif (ÍSR301G)
Ritfærni: Fræðileg skrif er grunnnámskeið í meðferð ritaðs máls. Nemendur hljóta þjálfun í ritun með vikulegum heimaverkefnum, fyrirlestrum, umræðum og smiðjuvinnu. Fjallað verður um vinnulag við ritun fræðilegra texta, svo sem val og afmörkun viðfangsefnis, byggingu, heimildanotkun og frágang. Einnig verður lögð áhersla á að þjálfa nemendur í málnotkun í fræðilegum textum og fjallað meðal annars um málsnið, stíl, stafsetningu, greinarmerkjasetningu og hjálpargögn málnotenda. Nemendur skrifa fræðilega ritgerð í leiðsagnarmati og fá reglulega endurgjöf kennara sem og samnemenda. Námsmat byggist á vikulegum heimaverkefnum, miðmisserisverkefni, lokaverkefni og virkri þátttöku í ritsmiðjum. Vakin er athygli á því að aðeins er hægt að ljúka námskeiðinu sé öllum verkefnum skilað.
Listheimspeki (HSP310G)
Námskeiðinu er ætlað að veita stutt yfirlit yfir nokkur sígild viðfangsefni í heimspeki listarinnar; að kynna sérstaklega tilteknar spurningar, kenningar og rökfærslur á sviði listheimspeki með lestri valinna texta, bæði sögulegra og samtímalegra; og að þjálfa nemendur í greiningu og umræðu um listheimspekileg efni.
BA-ritgerð í listfræði (LIS241L)
BA-ritgerð í listfræði
Nútíma listskemmtanir frá 1790 til samtíma (LIS511M)
Nútíma listskemmtanir hófust í evrópskum stórborgum á 18. öld. Þær byggja á mörgum listformum svo sem landslagsmálverki, sviðsverkum, borgarlýsingu, karnivali og náttúruvísindasýningum. Tilgangur þeirra er oftast að umbreyta goðsagnakenndri fortíð í lifandi myndir samkvæmt væntingum nútímaáhorfenda. Í námskeiðinu, sem kennt verður með málstofusniði, verða hin ýmsu tækniform skemmtana könnuð. Þar á meðal töfraluktin, „panorama“ og „cosmorama“. Einnig verða vinsældir náttúruvísindalegra og mannfræðilegra „dioramas“ kannaðar með dæmum frá nýlendusýningunni í París 1931 og sýningum í American Museum of Natural History. Innsetningarlist 20. aldarinnar verður greind frá verkinu Étant donnés eftir Marcel Duchamp til samtímaverka Bryndísar Snæbjörnsdóttur og Mark Wilson, Richard Barnes, Kent Monkman, Dominique Gonzalez-Foerster, og fl.. Verkin verða skoðuð frá sjónarhorni lista og listfræða og gagnrýni listafólksins sett í samhengi við þrjú meginþemu: nýlendustefnu, gyðingahatur og kynþáttahatur ásamt evrópskum hugmyndum um sjálfsmyndir, annarleika og sögu. Tímalínan hefst í París, en síðan verða rædd ýmis dæmi frá öðrum evrópskum borgum auk Norður-Ameríku. Að lokum verður rannsakað hvernig listamenn, söfn og einkafyrirtæki nýta nú sýndarveruleika og gervigreind til að skapa alhliða upplifun fyrir pótmóderníska áhorfendur eins og birtist í hinni vinsælu sýningu Immersive Van Gogh.
Dore Bowen er gestakennari frá Duke University. Námskeiðið verður kennt aðeins einu sinni.
Menningararfur (ÞJÓ506M)
Hvað er menningararfur og hvaða hlutverki þjónar hann? Af hverju er hann í stöðugri útrýmingarhættu? Hvernig tengir hann saman fortíð og samtíð? Hvað á hann skylt við þjóðríkið? Söguvitund? Hnattvæðingu? Kapítalisma? Stjórnmál? Í námskeiðinu verður leitað svara við þessum spurningum, kynntar nýlegar rannsóknir þjóðfræðinga, mannfræðinga, listfræðinga, félagsfræðinga, safnafræðinga, sagnfræðinga og fornleifafræðinga á menningararfi og tekinn púlsinn á því sem er að gerast á þessu ört vaxandi sviði.
Kennslan fer fram í fyrirlestrum og umræðum.
Kynusli í myndlist (LIS429M)
Í námskeiðinu eru myndlistarverk skoðuð í kynlegu ljósi og fjallað um kenningalegan grundvöll kynjafræða og þverfaglegt inntak þeirra. Leitast er við að greina hvernig hugmyndir um kyngervi hafa áhrif á listsköpun jafnt sem umræðu og skrif um myndlist. Birtingarform og merking kyngervis í tungumáli, samfélagi og menningu eru einnig greind með áherslu á staðalímyndir og/eða uppbrot þeirra í afstöðu og verkum listamanna. Stuðst er við hugmyndir femínista og hinsegin fræða til að afhjúpa áhrif kyngervis í verkum sumra listamanna sem hliðra staðalímyndum kven- og karlleika og skapa usla í ríkjandi orðræðu og kynjakerfi Vesturlanda. Einnig er fjallað um listheiminn út frá kynjafræðilegu sjónarhorni og kynntar rannsóknir á margbreytilegum birtingarmyndum kynjamisréttis í samtímanum.
BA-ritgerð í listfræði (LIS241L)
BA-ritgerð í listfræði
Listasafnið: hugmyndafræði, saga og framtíð (LIS610M)
Í þessu námskeiði er sjónum beint að listasafninu í sögulegu og samtímalegu ljósi. Námskeiðið veitir innsýn í sögu listasafna og þróun, sem og flókið hugmyndafræðilegt samhengi listasögunnar, listfræði og listasafna. Fjallað verður um rætur nútímalistasafna í einkasöfnum aðalsmanna og pólitískrar elítu Evrópu, stofnun fyrstu almenningssafnanna í Evrópu á 18. og 19. öld, gagnrýni listamanna á listasöfn á 20. og 21. öld, tengsl listasafna og nýlenduhyggju og vaxandi kröfur síðustu ára um endurheimtur listaverka og menningararfs til upprunasamfélaga. Hugmyndafræðilegur grundvöllur listasafna og tengsl hans við fagurfræðilegar kenningar verður tekinn til skoðunar. Jafnframt verða tengsl listfræðinnar við listasöfn rædd. Nemendur kynnast ólíkum ímyndum listasafna, m.a. hugmyndinni um listasafnið sem musteri, alheimsyfirlitssafnið (e. universal survey museum), hinn hvíta kassa (e. white cube) nútímalistasafna og nýjum hugmyndum um listasöfn sem vettvang gagnrýnna skoðanaskipta. Fjallað verður um það hvernig þjóðernishyggja hefur mótað stöðu og starf listasafna og áhrif hnattvæðingar á þróun listasafna á alþjóðavísu. Saga listasafna á Íslandi verður kynnt og fjallað um sögu listamannarekinna rýma hér á landi, Nýló, Gallerí SÚM, Gallerí Suðurgötu 7, Kling & Bang og fl..
Plöntur, landslag, pólitík (LIS606M)
Í námskeiðinu verður samband manns og náttúru skoðað í gagnrýnu fræðilegu samhengi. Fjallað verður um „náttúruleg“ fyrirbæri, eins og plöntur og gróður, sem og „menningarleg“ fyrirbæri, eins og hálendi, garða og landslag, út frá umhverfissögu og listfræði. Einnig verður rætt um birtingarform náttúrunnar í erlendu og íslensku list- og náttúrusögusamhengi. Námsskeiðið verður í málstofuformi, byggt á lestri og umræðum.
Sjálf listamannsins og sjálfsmyndir samfélagsins (LIS608M)
Í námskeiðinu verður fjallað um myndlist frá tvíþættum sjónarhóli listamanns og samfélags. Horft verður til listsköpunar sem er knúnin áfram af einstaklingsbundnum hvötum og stöðu listamannsins og verka hans í félagslegu og menningarpólitísku samhengi. Listsköpun sem felur í sér loforð um einstaklingsbunda tjáningu, frelsi og mótun sjálfsins, mætir samfélaginu og þarf að takast á við ytri þætti eins og fræðilega orðræðu og menningarpólitíska umgjörð, sem hafa áhrif á viðtökur listaverka og stöðu myndlistarmanna á ólíkum tímum. Í námskeiðinu verður stuðst við þverfræðilegar aðferðir listfræðinnar og valin tilvik notuð til að greina tengsl einstaklingsbundinna áforma og valds, sögur listarinnar og hlutverk menntastofnana, andóf og undirgefni, listheim nútímans í samhengi nýlendustefnu og iðnvæðingar og áhrif sjálfsmyndapólitíkur og hnattvæðingar á listamenn og myndlist síðustu áratuga. Lögð verður áhersla á að skoða viðfangsefni námskeiðsins með hliðsjón af myndlistarumhverfinu á Íslandi og það borið saman við stærra alþjóðlegt og hnattrænt samhengi. Markmiðið er að efla skýra sýn á gagnkvæmt samband einstaklings og umheims, sjálfs listamannsins og sjálfsmynda samfélagsins.
Námskeið er kennt í LHÍ og er einungis ætlað nemendum sem skráðir eru í listfræði.
Inngangur að sýningagerð (LIS427G)
Sýningagerð er margþætt ferli sem tekur til ólíkra þátta og samhengis í framsetningu og gerð listaverka. Í námskeiðinu kynnast nemendur sýningagerðarferlinu frá ólíkum sjónarhornum og áhersla er lögð á vinnubrögð og nálganir sem eru hluti af samtímasýningagerð. Litið verður til flestra þátta er lúta að sýningagerð og nemendur vinna í hópavinnu sem og einstaklingsverkefnum og kynnast þannig ólíkum þáttum vinnunnar. Í námskeiðinu kynnast nemendur grunnhugmyndum um hlutverk sýningastjóra, um samstarf listamanna og sýningastjóra og um rými og samhengi sem hluta af umhverfi listhlutarins.
Rannsóknarvinna og framkvæmdaþættir við sýningagerð verða í fyrirrúmi og munu nemendur vinna að gerð sýningar á vettvangi utan skóla, m.a. með upplýsingaleit, hugmyndavinnu, vali á verkum, skrifum, gerð sýningarskrár, uppsetningu og kynningu á viðburði, o.fl.
Landslag sem tími (LIS609M)
Samband umhverfisins og lifaðrar reynslu okkar er viðfangsefni sem kemur endurtekið fyrir í listum eftir upplýsinguna. Í líðandi miðlum svo sem kvikmyndum og vídeólist hafa ákveðin einkenni á þessu sambandi; svo sem hugtakið staður, tímaleiki og upplifun á líðandi tíma sem staðbundnu eða efnislegu fyrirbæri, verið sérstaklega áhrifamikil. Í áfanganum verða aðferðir og nálganir innan vídeólistar og tilraunakvikmynda sem þróast hafa til að fást við þessi fyrirbæri tekin til skoðunar og greiningar. Dæmi um listrænar heimildarmyndir og landslagskvikmyndir verða tekin til skoðunar sem og það samhengi sem þau tilheyra innan myndlistar. Samband landslags, umhverfis og miðils eða framsetningar, og þau kenningarlegu samhengi sem notuð hafa verið til að greina og skýra þessi viðfangsefni verða einnig rannsökuð með það í huga að þróa áfram aðferðir og nálganir til greiningar á umhverfi, efnisleika, hugmyndafræði og myndrænni framsetningu.
Menningarheimar (TÁK204G)
Þverfaglegt inngangsnámskeið þar sem efnt er til samræðu milli fræðasviða námsbrautarinnar, þ.e. bókmenntafræði, kvikmyndafræði, kynjafræði, listfræði, málvísinda, menningarfræði, táknmálsfræði og þýðingafræði. Birtu verður brugðið á alþjóðlegar hræringar í hugvísindum á liðnum áratugum en jafnframt rýnt í tengsl fræða og heimsmyndar. Fjallað verður um táknfræði tungumálsins og m.a. spurt hvort það geti talist grundvöllur annarra táknkerfa. Spurst verður fyrir um tengsl og "sambúð" mismunandi tungumála og málheima. Er hægt að þýða á milli allra mál- og menningarheima? Hvað geta aðstæður heyrnarlausra sagt okkur um tengsl málheima? Hvað er fjölmenning? Hvernig tengjast talað mál, lesmál og sjónmenning í samfélaginu? Í hverju felst menningarlæsi? Hugað verður að bókmenntum, myndlist, kvikmyndum og öðru myndefni í þjóðlegu og alþjóðlegu samhengi og kannað hvernig þessi táknkerfi vinna með mörkin milli kynja, kynþátta, stétta, menningarhópa, þjóða og heimshluta. Lesið verður ýmiskonar fræðilegt efni og skáldverk, könnuð myndverk og kvikmyndir, en viðfangsefnin verða einnig sótt í fjölmiðla og það sem er á seyði í samtímanum. Námsmat felst í fjórum verkefnum á misserinu og skriflegu lokaprófi.
- Haust
- Sviðslistafræði (Performance Studies): Frá sagnaflutningi til uppistands, kjötkveðjuhátíða og stjórnmálamannaVE
- Hugmyndasaga 19. og 20. aldarV
- Sagnfræðileg vinnubrögðV
- Vor
- Gagnaöflun og tölfræðiúrvinnsla í hugvísindum og máltækni VE
- Ímynduð samfélög og þjóðmenning: Þjóðir, ímyndir og alþýðuhefðirV
- KvikmyndasagaV
- KvikmyndakenningarV
- Efnismenning og samfélag: Hlutirnir, heimilið, líkaminnV
- Norræn trúV
Sviðslistafræði (Performance Studies): Frá sagnaflutningi til uppistands, kjötkveðjuhátíða og stjórnmálamanna (ÞJÓ506G)
Sviðslistafræði (Performance Studies) fjallar um það hvernig fólk í öllum samfélögum, bæði fyrr og nú, tekur þátt í ymis konar sviðslist (performances) í daglegu lífi, á mismunandi "leiksviðum", allt frá helgisiðum til kirkjupredikana, leiksýninga, kvikmyndasýninga, útvarpsþátta, uppistands, sagnaflutnings, gjörningalistar, hátíða, útskriftasiða, matarboða, dulbúningasiða og málflutnings stjórnmálamanna heima og erlendis. Á námskeiðinu munu nemendur kynnast þeim margslungnu táknmálsformum sem beitt er í mismunandi tegundum sviðslista, frá talmáli til búninga, útlits, svipbrigða, kyns, samhengis, hljóðs, "timing" og nytsemi rýmis og viðtöku áhorfenda.
Vinnulag:
Kennsla fer fram í fyrirlestrum, umræðum um fyrirlestra og farið í heimsóknir.
Hugmyndasaga 19. og 20. aldar (HSP321G)
Í þessu námskeiði eru hugmyndir sem höfðu grundvallaráhrif á vestræna heimspeki og hugmyndahefðir skoðaðar út frá 19. og 20. öldinni. Um er að ræða þær hugmyndir sem ollu samfélagsbreytingum á borð við frelsi, veraldarhyggju, jafnrétti, andóf, samband einstaklings og samfélags, hugmyndir um tilvist og sál, kúgun, misrétti, ríki sem og kapítalisma. Síðast og ekki síst verða skoðaðar hugmyndir um söguna, tímann og þróun mannkyns og plánetu.
Í hverri viku fyrir sig er tekin fyrir nýr hugsuður eða ný hugmynd sem olli straumhvörfum í vestrænni hugmyndasögu. Hugsuðir á borð við G.W.F. Hegel, Karl Marx, Sigmund Freud, Rosu Luxembourg og Emmu Goldman verða teknir fyrir og áhrifamiklar stefnur á borð við fyrirbærafræði, nýfrjálshyggju eða póststrúktúralisma.
Markmiðið er að lesa verk þessara höfunda eða stefna út frá þeim tíðaranda sem verkin spruttu úr hverju sinni (að svo miklu leyti sem við fólk á 21. öldinni getum lesið tíðaranda eldri tíma). Á sama tíma er markmiðið að lesa djúpt frumtexta til þess að öðlast margvíðan skilning á hugmyndunum. Mikilvægt stef námskeiðsins er einnig að hugsa um þessar hugmyndir út frá samtímanum og þeim álitaefnum sem eru í deiglunni hverju sinni.
Sagnfræðileg vinnubrögð (SAG101G)
Fjallað er um sérstöðu og einkenni sagnfræði og hvernig sambandi hennar við aðrar fræðigreinar er háttað. Rannsóknatækni sagnfræðinga er kynnt sem og fræðileg vinnubrögð í sagnfræði, einkum heimildafræði, megindlegar aðferðir í sagnfræði og ritgerðasmíð. - Námskeiðið skal taka á fyrsta misseri í sagnfræðinámi (öðru misseri fyrir þá nemendur sem byrja um áramót).
Gagnaöflun og tölfræðiúrvinnsla í hugvísindum og máltækni (ÍSL612M)
Á undanförnum árum hefur vægi gagnasöfnunar og tölfræðiúrvinnslu aukist í hugvísindum. Þetta kemur skýrt fram í undirgreinum á borð við sálfræðileg málvísindi (e. psycholinguistics), hugræna bókmenntafræði (e. cognitive literary studies) og tilraunaheimspeki (e. experimental philosophy). Þessi aukna áhersla á megindlega aðferðafræði í hugvísindum á sér stað á sama tíma og réttmæti rótgróinna tölfræðiaðferða er dregið í efa í öðrum greinum og hertar kröfur eru um að hægt sé að endurtaka rannsóknir og nálgast gögn í opnum aðgangi um leið og persónuverndar er gætt. Í þessu námskeiði munu nemendur rýna í vægi megindlegra aðferða í sínum greinum og fá þjálfun í öflun og úrvinnslu gagna. Fjölbreyttar rannsóknaraðferðir verða til umfjöllunar, allt frá greiningu textasafna yfir í skoðanakannanir og tilraunir þar sem skynjun áreita (svo sem orða, texta eða myndbrota) er mæld. Einnig verður farið yfir grunnhugtök og aðferðir í tölfræði svo nemendur þekki muninn á lýsandi tölfræði og ályktunartölfræði, skilji tölfræðilega marktækni og kunni að lesa úr myndrænni framsetningu gagna í gröfum. Lögð er áhersla á að nemendur spreyti sig undir leiðsögn kennara og bæði safni gögnum og greini þau. Nemendur vinna verkefni innan eigin fræðigreinar en kanna einnig grundvöll fyrir þverfaglegu samstarfi. Öll verkefni verða unnin í opnum hugbúnaði á borð við R Studio en engin fyrri þekking á forritinu né tölfræði er nauðsynleg. Námskeiðið hentar öllum nemendum á Hugvísindasviði sem vilja safna megindlegum gögnum til að svara áhugaverðum spurningum og gæti þannig reynst vel sem undirbúningur fyrir BA- eða MA-verkefni.
Ímynduð samfélög og þjóðmenning: Þjóðir, ímyndir og alþýðuhefðir (ÞJÓ439G)
Námskeiðið fjallar um hvernig sjálfsmyndir og ímyndir af Íslendingum og öðrum þjóðum hafa mótast og hvernig þær vinna með alþýðuhefðir á hverjum stað. Við skoðum íslenskan veruleika og ímyndir í samanburði við reynslu ýmissa grannþjóða og rannsökum hvernig sögur, siðir og minjar skapa þjóðir og móta þær, frá þjóðminjasöfnum til þorrablóta í London; og frá viskídrykkju (í Skotlandi) til víkingasagna (á Norðurlöndum), með viðkomu á Up Helly Aa (á Hjaltlandseyjum) og Ólafsvöku (í Færeyjum); við skoðum hönnunarsýningu (á Grænlandi), norrænar byggðir í Vesturheimi og sendum myndir af öllu saman á samfélagsmiðla.
Við berum niður í kvikmyndum og tónlist, hátíðum, leikjum og skrautsýningum stjórnmálanna. Sérstaklega verður greint hvernig þjóðlegar ímyndir sameina og sundra hópum fólks. Í því samhengi verður horft til kvenna og karla, búsetu (borgar og landsbyggðar), fólksflutninga fyrr og síðar (innfluttra, brottfluttra, heimfluttra), kynþáttahyggju og kynhneigðar. Við rannsökum þessar ímyndir sem hreyfiafl og hugsjón, auðlindir og þrætuepli og skoðum hvernig þeim er beitt í margvíslegu skyni af ólíku fólki á ólíkum stöðum, jafnt af þjóðernispopúlistum sem græningjum, ríkisstofnunum og bönkum, fræðafólki og nemendum.
Kvikmyndasaga (KVI201G)
Yfirlit yfir sögu kvikmyndalistarinnar frá upphafi hennar undir lok 19. aldar til okkar daga. Áhrifaríkustu stefnur hvers tíma verða skoðaðar og lykilmyndir sýndar. Nemendur kynnast sovéska myndfléttuskólanum (montage), franska impressjónismanum, þýska expressjónismanum, stúdíókerfinu bandaríska, ítalska nýraunsæinu, japanska mínímalismanum, frönsku nýbylgjunni, þýska nýbíóinu, suður-ameríska byltingabíóinu og Hong Kong-hasarmyndinni svo eitthvað sé nefnt, og reynt verður að bera þessar ólíku stefnur saman. Lögð verður áhersla á að skoða fagurfræðilega þróun kvikmyndarinnar sem og samtímaleg áhrif á útlit og inntak hennar. Námsmat byggist á tveimur prófum.
Kvikmyndakenningar (KVI401G)
Námskeiðið er hugsað sem ítarlegt sögulegt yfirlit yfir helstu kenningar kvikmyndafræðinnar allt frá upphafi til dagsins í dag. Lesnar verða kenningar frumherja á borð við Sergei Eisenstein, Rudolf Arnheim, Siegfried Kracauer og André Bazin. Tekin verða fyrir margvísleg og róttæk umskipti í nálgun kvikmynda á seinni hluta tuttugustu aldar, líkt og formgerðargreining, marxísk efnistúlkun, sálgreining og femínismi. Loks verða áhrif menningarfræðinnar rædd með áherslu á kynþætti og skoðuð staða kvikmyndarinnar á tímum hnattvæðingar. Kvikmyndir námskeiðsins munu endurspegla margbreytileika lesefnisins enda er þeim ætlað að draga fram sérstöðu ólíkra kenninga.
Efnismenning og samfélag: Hlutirnir, heimilið, líkaminn (ÞJÓ205G)
Í námskeiðinu verður efnisleg hversdagsmenning tekin til gagngerrar umfjöllunar. Gefið verður yfirlit yfir þetta þverfaglega rannsóknarsvið og rýnt jöfnum höndum í dæmi úr samtímanum og frá fyrri tíð, íslensk og erlend. Meðal annars verður fjallað um föt og tísku, matarhætti, hlutina sem umkringja okkur í daglega lífinu, rusl og hreinlæti, handverk og neyslumenningu, hús og garða, heimilið, borgarlandslag, söfn og sýningar. Um leið kynnast nemendur ýmsum kenningum og sjónarhornum sem leggja t.a.m. áherslu á mannslíkamann, kyngervi, neyslu, rými og stað.
Norræn trú (ÞJÓ437G)
Trúarlíf manna á norðurslóðum er tekið fyrir og heimildir allt frá elstu tímum, eins og grafir, rúnasteinar, hellaristur og aðrar fornminjar verða skoðaðar. Einnig verða lesnar lýsingar á norrænum trúarathöfnum í verkum eftir Tacitus, Adam frá Brimum, Saxo Grammaticus og í fornritum Íslendinga eins og Eddukvæðum og Konungasögum. Auk norrænnar trúar verður fjallað um seið og sjamanisma. Örlagatrú er tekin til ítarlegrar umfjöllunar sem meginþáttur í forkristnum átrúnaði á Norðurlöndum. Loks er vikið að því hvernig kristindómur hefur fallið að norrænum lífsháttum og hugsunarhætti. Námskeiðið er kennt á ensku.
Vinnulag:
Kennsla fer fram í fyrirlestrum, og umræðum um fyrirlestra.
Hafðu samband
Skrifstofa Hugvísindasviðs
Aðalbygging, 3.hæð - Sæmundargötu 2
Sími: 525 4400
Netfang: hug@hi.is
Skrifstofan er opin virka daga frá kl 10:00–12:00 og 13:00–15:00.
Nemendur á Hugvísindasviði geta einnig nýtt sér Þjónustuborð á Háskólatorgi. Hægt er að nálgast upplýsingar í netspjalli hér á síðunni.
Fylgstu með Hugvísindasviði:
Hjálplegt efni
Ertu með fleiri spurningar? Hér finnurðu svör við ýmsum þeirra og upplýsingar um ýmislegt annað sem gott er að hafa í huga þegar þú velur nám.