3/2008
HÁSKÓLARÁÐSFUNDUR
Ár 2008, fimmtudaginn 6. mars var haldinn fundur í háskólaráði sem hófst kl. 13.00.
Fundinn sátu: Kristín Ingólfsdóttir, Allyson Macdonald, Birna Arnbjörnsdóttir, Erna Kristín Blöndal, Halldór Grönvold (varamaður Valgerðar Bjarnadóttur), Helgi Þorbergsson, Ólafur Þ. Harðarson, Rúnar Vilhjálmsson, Þórdís Kristmundsdóttir og Þórir Hrafn Gunnarsson. Fundargerð ritaði Magnús Diðrik Baldursson. Varamaður Ingu Jónu Þórðardóttur boðaði forföll.
Áður en gengið var til dagskrár bauð rektor velkomin á fundinn þau Allyson Macdonald, prófessor og áheyrnarfulltrúa frá Kennaraháskóla Íslands og Halldór Grönvold, aðstoðarframkvæmdastjóra Alþýðusambands Íslands og varamann Valgerðar Bjarnadóttur. Einnig reifaði rektor stuttlega nokkra nýlega atburði í starfi Háskóla Íslands, þ.e. vel heppnaða brautskráningarathöfn 23. febrúar sl., kynningu heilbrigðisráðherra og formanns framkvæmdanefndar um nýtt háskólasjúkrahús á áformaðri sjúkrahúsbyggingu við Hringbraut, veitingu Dannebrog-orðunnar til Auðar Hauksdóttur dósents og formanns stjórnar Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum, sýningu á tillögum um framtíðarskipulag Vatnsmýrarsvæðisins í Háskólatorgi, nýjustu könnun Capacent-Gallup á trausti til helstu stofnana samfélagsins sem leiddi í ljós að 90% íslensku þjóðarinnar ber traust til Háskóla Íslands, sem er hæsta einkunn sem nokkur stofnun hefur fengið í þessari könnun. Þá minnti rektor á árshátíð Háskóla Íslands sem haldin verður 15. mars nk.
1. Mál á dagskrá
1.1 Stefna Háskóla Íslands 2006-2011: Endurskoðað skipulag og stjórnkerfi Háskóla Íslands. Útfærsla skipulags stoðþjónustu og stjórnsýslu á vettvangi sameiginlegrar stjórnsýslu, fræðasviða og deilda Háskóla Íslands, sbr. síðasta fund.
Inn á fundinn komu þeir Jón Atli Benediktsson, þróunarstjóri og aðstoðarmaður rektors og Halldór Jónsson, sviðsstjóri vísindasviðs. Rektor gerði grein fyrir málinu og framlögðum endurskoðuðum drögum að tillögum um verkaskiptingu, stoðþjónustu og stjórnsýslu í nýju skipulagi og stjórnkerfi Háskóla Íslands, dags. 6. mars 2008. Málið var rætt ítarlega og svaraði rektor framkomnum spurningum og athugasemdum. Fulltrúi Félags prófessora og Félags háskólakennara bar upp tvær breytingartillögur:
Í síðustu setningu inngangskaflans, þar sem talin eru upp þau verkefni sem eftir er að útfæra nánar, bætist við háskólafundur og faglegar undireiningar deilda.
- Samþykkt einróma.
Í kafla 1.1 um háskólaráð bætist við þriðju setningu orðin: „ef samkomulag er um það milli deilda fræðasviðsins."
- Fellt með átta atkvæðum gegn einu, einn sat hjá.
Rektor bar upp tillögurnar í heild sinni, svo breyttar.
- Samþykkt samhljóða, fulltrúi Félags prófessora og Félags háskólakennara sat hjá.
Þá gerði rektor grein fyrir væntanlegu kjöri deildarforseta vegna nýrrar deildaskipunar. Málið var rætt og svohljóðandi bókun samþykkt einróma:
„Á fundi háskólaráðs þann 17. janúar 2008 var ákveðið að frá og með háskólaárinu 2008-2009 verði deildir Háskóla Íslands 26 talsins. Með þeirri ákvörðun, sbr. heimild í 2. gr. laga um Háskóla Íslands nr. 41/1999, urðu til 20 nýjar deildir en sex hinna 11 eldri deilda (guðfræði(- og trúarbragðafræðideild), hjúkrunarfræðideild, lagadeild, lyfjafræðideild, læknadeild og tannlæknadeild) tóku ekki breytingum. Deildunum verður skipað innan fimm fræðasviða sem taka munu til starfa þegar Alþingi hefur lokið umfjöllun um þær lagabreytingar sem nýskipanin kallar á.
Samkvæmt 1. mgr. 20. gr. reglna fyrir Háskóla Íslands velur hver háskóladeild sér deildarforseta og annan til vara úr hópi prófessora og dósenta deildarinnar sem gegna fullu starfi. Í samræmi við þessa meginreglu skal deildarforsetaval nú fara fram fyrir þær nýju deildir sem ákvörðun hefur verið tekin um að stofna, sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 41/1999 um Háskóla Íslands.
Háskólaráð felur deildarforsetum núverandi deilda Háskóla Íslands og rektor Kennaraháskóla Íslands að annast kjör deildarforseta í hinum nýju deildum. Kjörinu skal lokið fyrir 1. maí nk. Kennslusvið Háskóla Íslands verði deildarforsetum innan handa við undirbúning og framkvæmd kosninganna.
Miðað er við að deildarforsetar þeirra deilda sem ekki hafa tekið breytingum, sbr. ákvörðun háskólaráðs frá 17. janúar sl., sitji út núverandi kjörtímabil sitt.
Fara skal eftir þeim reglum sem gilda um kjör deildarforseta og varadeildarforseta, sbr. 20. gr. reglna fyrir Háskóla Íslands nr. 458/2000. Kennaraháskóli Íslands ákveði með hvaða hætti staðið verði að kjöri deildarforseta fyrir nýjar deildir Menntavísindasviðs samkvæmt breyttri skipan."
- Samþykkt einróma.
Loks lagði rektor til að formanni fjármálanefndar verði falið að leggja fram á næsta fundi háskólaráðs reiknireglu fyrir umbun vegna stjórnunarstarfa akademískra stjórnenda.
- Samþykkt einróma.
1.2 Sameining Háskóla Íslands og Kennaraháskóla Íslands. Staða mála.
Magnús Diðrik Baldursson, skrifstofustjóri rektorsskrifstofu og fulltrúi í verkefnisstjórn sameiningar Háskóla Íslands og Kennaraháskóla Íslands gerði grein fyrir stöðu vinnunnar við sameiningu skólanna. Rektor greindi frá því að starfsmönnum beggja háskóla verður boðið til móttöku í húsakynnum Háskóla Íslands 18. apríl nk.
1.3 Uppgjör Háskóla Íslands 2007.
Inn á fundinn kom Sigurður J. Hafsteinsson, sviðsstjóri fjármálasviðs og gerði grein fyrir uppgjöri rekstrar Háskóla Íslands árið 2007. Greindi Sigurður frá því að reksturinn var í góðu jafnvægi á liðnu ári.
1.4 Fjárhagsáætlun Háskóla Íslands fyrir árið 2008.
Sigurður gerði grein fyrir framlagðri fjárhagsáætlun fyrir árið 2008 og var hún rædd.
1.5 Stuðningur við afburðanemendur. Drög að tillögu um fyrirkomulag styrkveitingar, sbr. síðasta fund.
Rektor gerði grein fyrir málinu og hvatti ráðsmenn til að koma ábendingum um fyrirkomulag styrkveitinganna á framfæri við Halldór Jónsson.
- Frestað til næsta fundar.
1.6 Aldarafmæli Háskóla Íslands 2011. Skipun afmælisnefndar.
- Frestað.
1.7 Stefna Háskóla Íslands 2006-2011: Skilgreining sterkra rannsóknasviða sem marka sérstöðu Háskóla Íslands.
Jón Atli gerði grein fyrir málinu. Rektor bar upp tillögu um að gæðanefnd og starfshópi um ráðstöfun viðbótarfjár vegna samnings Háskóla Íslands og menntamálaráðuneytisins verði falið að undirbúa fyrir háskólaráð tillögu um hvernig staðið verði að því að skilgreina og velja sterk rannsóknasvið sem marka sérstöðu Háskóla Íslands.
- Samþykkt einróma.
1.8 Ensk heiti fræðasviða, deilda og undireininga þeirra við Háskóla Íslands.
Rektor gerði grein fyrir framlagðri tillögu um ensk heiti fræðasviða, deilda og undireininga þeirra. Við gerð tillögunnar var m.a. leitað sérfræðilegrar ráðgjafar hjá Matthew Whelpton, dósents í enskri málfræði og málvísindum. Málið var rætt.
- Framlagðar tillögur um ensk heiti fræðasviðanna fimm samþykktar einróma, en ensk heiti deilda og undireininga þeirra sem og heiti akademískra stjórnunartitla verða afgreidd með tölvupósti fyrir 14. mars nk.
2. Erindi til háskólaráðs
2.1 Umsagnir starfsnefnda háskólaráðs um beiðni Háskólaútgáfunnar að ráða ritstjóra til útgáfunnar, sbr. síðasta fund.
- Frestað.
2.2 Stjórnir, nefndir og ráð, sbr. síðasta fund:
a) Stjórn Konfúsíusarstofnunar við Háskóla Íslands.
Rektor bar upp tillögu um að stjórn Konfúsíusarstofnunar við Háskóla Íslands verði skipuð þeim Geir Sigurðssyni, forstöðumanni Asíuseturs Íslands (ASÍS), Ingjaldi Hannibalssyni, prófessor og forseta viðskipta- og hagfræðideildar og Oddnýju G. Sverrisdóttur, dósent og forseta hugvísindadeildar.
- Samþykkt einróma.
b) Fulltrúar Háskóla Íslands og varamenn í stjórn Asíuseturs Íslands (ASÍS).
Rektor bar upp tillögu um að stjórn Asíuseturs Íslands (ASÍS) verði skipuð þeim Ingjaldi Hannibalssyni, sem verði formaður, Sigríði Þorgeirsdóttur dósent, sem verði fulltrúar Háskóla Íslands, Rachael Lorna Johnstone lektor, sem verði fulltrúi Háskólans á Akureyri, Arngrími Jóhannssyni flugstjóra og Magnúsi Bjarnasyni, framkvæmdastjóra alþjóðasviðs hjá Glitni.
- Samþykkt einróma.
c) Norræna Asíustofnunin (Nordic NIAS Council).
Rektor bar upp tillögu um að stjórn Asíuseturs Íslands (ASÍS) verði sérstaklega falið að hafa umsjón með aðild Háskóla Íslands og Háskólans á Akureyri að Nordic NIAS Council og öðrum sambærilegum stofnunum og vera tengiliður háskólanna við Norrænu Asíustofnunina, sbr. ákvæði 3. mgr. 3. gr. samnings um ASÍS. Fulltrúi í stjórn verði Geir Sigurðsson, forstöðumaður ASÍS og varamaður verði Mikael Karlsson prófessor.
- Samþykkt einróma.
2.3 Tillögur að breytingum á reglum og að nýjum reglum.
a) Þrjú erindi frá hugvísindadeild:
Tillaga að breytingu á 7. gr. reglna um inntökuskilyrði í Háskóla Íslands nr. 573/2005 sem lýtur að inntöku nemenda í íslensku fyrir erlenda stúdenta.
- Samþykkt einróma.
Tillaga að breytingu á 101.gr. reglna Háskóla Íslands nr. 458/2000 um að ritlist verði aðalgrein til BA-prófs.
- Samþykkt einróma með fyrirvara um að þessi ákvörðun hafi ekki í för með sér aukin fjárútlát.
Tillaga að breytingu á 2., 8., og 14. gr. reglna deildarinnar um framhaldsnám nr. 952/2002, sem lýtur að umsóknarfresti og meðferð umsókna og 3. gr. reglna deildarinnar um doktorsnám nr. 342/2007, sem lýtur að umsóknarfresti.
- Samþykkt einróma.
b) Tillaga frá hjúkrunarfræðideild um breytingar á reglum um fjöldatakmörkun.
- Samþykkt einróma.
c) Tvö erindi frá lagadeild:
Tillaga að breytingu á 93. gr. reglna nr. 458/2000 um framhaldsnám við deildina.
- Samþykkt einróma.
Tillaga að breytingu á reglum nr. 1055/2006 um LL.M. nám við deildina.
- Samþykkt einróma.
2.4 Fyrirkomulag brautskráninga. Skipun starfshóps.
- Frestað.
3. Mál til fróðleiks
3.1 Ræða rektors við brautskráningu kandídata 23. febrúar 2008.
3.2 Stofnsamþykktir REYST 25. febrúar 2008.
4. Önnur mál
Rektor reifaði stuttlega þrjú mál. Í fyrsta lagi rifjaði rektor upp að háskólaráð hefði fyrir nokkru falið gæðanefnd að undirbúa viðmið og kröfur um gæði meistaranáms. Jón Atli skýrði frá því að gæðanefnd hefði fjallað ítarlega um málið og komist að þeirri niðurstöðu að heppilegast sé að leiða það til lykta í samvinnu við Miðstöð framhaldsnáms sem mun taka til starfa innan tíðar. Í öðru lagi greindi rektor frá því að Háskólinn hefði spurst fyrir um vinnu á vegum menntamálaráðuneytisins við endurskoðun á reiknilíkani þess en niðurstaða lægi enn ekki fyrir. Í þriðja lagi skýrði rektor frá því að hún hefði óskað eftir því við vísindanefnd að nefndin starfi óbreytt til 1. júlí nk.
Fleira var ekki gert.
Fundi slitið kl. 15.50.