Skip to main content

Háskólaráðsfundur 6. maí 2010

05/2010

HÁSKÓLARÁÐSFUNDUR

Ár 2010, fimmtudaginn 6. maí var haldinn fundur í háskólaráði sem hófst kl. 13.00.

Fundinn sátu Kristín Ingólfsdóttir, Anna Agnarsdóttir, Elín Ósk Helgadóttir, Gunnar Einarsson, Gunnlaugur Björnsson, Hilmar B. Janusson, Sigríður Ólafsdóttir, Sigrún Ingibjörg Gísladóttir, Silja Aðalsteinsdóttir, Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir og Þórður Sverrisson. Einnig sat fundinn Jón Atli Benediktsson. Fundargerð ritaði Magnús Diðrik Baldursson.

Áður en gengið var til dagskrár greindi rektor stuttlega frá nokkrum viðburðum frá síðasta fundi. Hinn 15. apríl sl. var haldin athöfn í Hátíðasal er Vigdís Finnbogadóttir, fyrrv. forseti Íslands, var sæmd heiðursdoktorsnafnbót við Deild erlendra tungumála, bókmennta og málvísinda á Hugvísindasviði. Síðdegis sama dag var haldin afmælishátíð í Háskólabíói og við það tækifæri voru Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum færðar tvær gjafir, annars vegar 20 m.kr. peningagjöf frá Færeyjum sem rennur í byggingarsjóð fyrir væntanlegt hús stofnunarinnar og hins vegar fyrirheit frá Reykjavíkurborg um frágang utanhúss og garð í tengslum við húsið. Rannsókna- og fræðasetur Háskóla Íslands á Norðurlandi vestra tók formlega til starfa á degi bókarinnar 23. apríl sl. og við það tækifæri var efnt til veglegrar ráðstefnu. Setrið mun starfa á Skagaströnd og er fyrsta fræðasetur Háskóla Íslands sem helgað er hugvísindum. Í síðustu viku stóðu deildir Félagsvísindasviðs og Hugvísindasviðs fyrir röð opinna hádegisfyrirlestra um lærdóma sem draga má af skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna. Húsfyllir var á öllum fyrirlestrunum og eru þeir aðgengilegir á háskólavefnum. Rektor greindi frá ferð sinni til Istanbúl þar sem hún sat fund kvenrektora og -vararektora háskóla í Evrópu og Asíu. Rektor flutti þar erindi um stöðu jafnréttismála á Íslandi og í Háskóla Íslands. Loks gat rektor aðdáunarverðs framlags jarðfræðinga við Háskóla Íslands undanfarnar vikur vegna eldgosanna undir Eyjafjöllum, bæði vísindalega og vegna vandaðra og stöðugra samskipta við íslenska og erlenda fjölmiðla.

Fundargerð síðasta fundar var lögð fram og hún samþykkt.

1.     Mál á dagskrá

1.1    Nýtt embættistímabil rektors 2010-2015. Áherslur í starfi Háskóla Íslands.
Rektor gerði grein fyrir árangri Stefnu Háskóla Íslands 2006-2011 og helstu áherslum í starfi Háskólans framundan, þ.á.m. undirbúningi nýrrar stefnumótunar fyrir tímabilið 2011-2016. Rektor gerði grein fyrir málefnum sem hún telur mikilvægt að háskólasamfélagið taki afstöðu til varðandi starfið framundan. Málið var rætt ítarlega og svaraði rektor spurningum ráðsmanna. Lýstu fulltrúar í háskólaráði einróma vilja til að halda áfram á þeirri braut sem mörkuð hefur verið með núgildandi stefnu og samþykktu tillögu rektors um verklag við stefnumótunina framundan.

1.2    Umfjöllun um háskólasamfélagið í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna 2008 og tengda atburði.
Magnús Diðrik Baldursson gerði grein fyrir helstu atriðum í umfjöllun um háskólasamfélagið í viðauka í 8. bindi rannsóknaskýrslu Alþingis. Málið var rætt ítarlega. Fram kom að málið verður einnig á dagskrá háskólaþings 7. maí nk.

1.3    Tillögur kennslumálanefndar, gæðanefndar og gæðastjóra um aðgerðir til að draga úr brottfalli, auka námsástundun nemenda og efla gæði náms og kennslu.
Fyrir fundinum lágu tillögur kennslumálanefndar, gæðanefndar og gæðastjóra í tíu tölusettum liðum. Inn á fundinn komu Róbert H. Haraldsson, formaður kennslumálanefndar, og Þórður Kristinsson, sviðsstjóri kennslusviðs, og gerði Róbert grein fyrir tillögunum. Málið var rætt ítarlega og svaraði Róbert spurningum ráðsmanna. Að umræðu lokinni bar rektor upp tillögu um að töluliðum 1, 3, 4, 5 og 6 verði hrint í framkvæmd. Þá verði kennslumálanefnd og kennslusviði falið að útfæra tölulið nr. 2 nánar, m.a. með hliðsjón af hlutanámi, en Miðstöð framhaldsnáms verði falið að skilgreina hámarksnámslengd fyrir doktorsnám. Ennfremur verði töluliður nr. 9 samþykktur og nemi fjárhæð gjaldsins 6.000 kr. Loks verði töluliðum nr. 7, 8 og 10 vísað til umsagnar fjármálanefndar háskólaráðs.
- Tillaga rektors samþykkt einróma, að því frátöldu að báðir fulltrúar stúdenta greiddu atkvæði gegn tölulið nr. 9.

1.4    Verklagsreglur um greiðslur fyrir aukastörf innan Háskólans, sbr. fund ráðsins 4. mars sl.
Jón Atli Benediktsson gerði grein fyrir framlögðum drögum að verklagsreglum um aukastörf innan Háskólans. Tillögurnar fela í sér viðbrögð við athugasemdum Ríkisendurskoðunar um verktakagreiðslur til starfsmanna Háskóla Íslands. Málið var rætt og svaraði Jón Atli spurningum ráðsmanna.
- Afgreiðslu frestað til næsta fundar háskólaráðs.

1.5    Beiðni um umsögn um frumvarp til laga um breytingar á lögum um opinbera háskóla nr. 85/2008.
Rektor gerði grein fyrir málinu og var það rætt. Í ljósi þess að beiðni um umsögn hafði borist skömmu fyrir fundinn og umsagnarfrestur rennur út fyrir næsta fund ráðsins bar rektor upp tillögu um að drög að umsögn Háskóla Íslands verði send fulltrúum í háskólaráði í tölvupósti og umsögnin afgreidd á milli funda.
- Samþykkt einróma.

2.    Erindi til háskólaráðs

2.1    Tillögur að breytingu á reglum og að nýjum reglum í kjölfar gildistöku nýrra laga, sameiginlegra reglna og breytts skipulags Háskóla Íslands.
a)    Reglur um Háskólaútgáfuna. Endurskoðaðar.
b)    Reglur um Rannsóknaþjónustu Háskólans. Endurskoðaðar.
c)    Reglur um Stofnun fræðasetra Háskóla Íslands. Endurskoðaðar.
d)    Reglur um sértæk úrræði í námi við Háskóla Íslands. Endurskoðaðar.
e)    Reglur um þverfaglegt meistaranám við Háskóla Íslands í skattarétti og reikningsskilum.
Þórður Kristinsson gerði grein fyrir tillögunum. Fulltrúi háskólasamfélagsins bar upp þá breytingartillögu að í 8. gr. reglna um Stofnun fræðasetra Háskóla Íslands verði kveðið á um að sá sem ráðinn er forstöðumaður fræðaseturs skuli að jafnaði hafa doktorspróf eða annað sambærilegt háskólapróf.
- Framlagðar tillögur að breytingu á reglum og að nýjum reglum samþykktar einróma svo breyttar.

2.2    Erindi frá Hugvísindasviði f.h. Deildar erlendra tungumála, bókmennta og málvísinda, dags. 27. apríl 2010, um ráðningu lektors í rússnesku án auglýsingar.
Þórður Kristinsson gerði grein fyrir málinu.
- Samþykkt einróma.
 

3.    Mál til fróðleiks

3.1    Dagskrá háskólaþings 7. maí 2010.

3.2    Viðbrögð Félagsvísindasviðs við skýrslu um viðurkenningu á fræðasviðinu og um heimild til að bjóða doktorsnám.

3.3    Skýrsla um málefni fatlaðs fólks við Háskóla Íslands 2007-2009.

3.4    Viðtal við rektor Háskóla Íslands í Viðskiptablaðinu 6. maí 2010.

Fleira var ekki gert.
Fundi slitið kl. 16.00.