Skip to main content

Háskólaráðsfundur 3. júní 2010

06/2010

HÁSKÓLARÁÐSFUNDUR

Ár 2010, fimmtudaginn 3. júní var haldinn fundur í háskólaráði sem hófst kl. 13.00.

Fundinn sátu Kristín Ingólfsdóttir, Anna Agnarsdóttir, Elín Ósk Helgadóttir, Gunnar Einarsson, Gunnlaugur Björnsson, Sigríður Ólafsdóttir, Sigrún Ingibjörg Gísladóttir, Silja Aðalsteinsdóttir, Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir og Þórður Sverrisson. Hilmar B. Janusson boðaði forföll. Fundargerð ritaði Magnús Diðrik Baldursson.

Áður en gengið var til dagskrár greindi rektor stuttlega frá nokkrum viðburðum frá síðasta fundi og framundan. Í síðustu viku fór rektor í heimsókn til Kína þar sem hún hélt erindi við Fudanháskóla í Shanghai við athöfn í tilefni af 15 ára afmæli Norræna setursins við skólann og vígslu nýrrar byggingar þar sem setrið verður til húsa. Í ferðinni heimsótti rektor einnig Ningboháskóla sem er samstarfsháskóli Háskóla Íslands í tengslum við Konfúsíusarstofnunina sem sett var á laggirnar við Háskólann árið 2008 og er styrkt myndarlega af menntamálaráðuneyti Kína. Þá greindi rektor frá stöðu mála varðandi fyrirhugaða nýbyggingu fyrir Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum. Stefnt er að því að ljúka fjármögnun byggingarinnar á þessu ári, en í ár átti Vigdís Finnbogadóttir 80 ára afmæli og liðin eru 30 ár frá því hún var fyrst kjörin forseti Íslands. Þá greindi rektor frá því að brautskráning kandídata frá Háskóla Íslands fer fram í Laugardalshöll 12. júní nk. Athöfnin verður tvískipt og verða framhaldsnemar brautskráðir fyrir hádegi og grunnnemar eftir hádegi. Loks greindi rektor frá því að Hans-Olov Adami, prófessor og forseti faraldsfræðideildar Harvard School of Public Health, verður kjörinn heiðursdoktor í lýðheilsuvísindum við Háskóla Íslands 16. júní nk.

Fundargerð síðasta fundar var lögð fram og hún samþykkt.

1.     Mál á dagskrá

1.1    Fjármál Háskólans. Horfur og tillögur fjármálanefndar og millifundanefndar um niðurskurð 2011.
Inn á fundinn komu Guðmundur R. Jónsson, framkvæmdastjóri fjármála og reksturs, og Sigurður J. Hafsteinsson, sviðsstjóri fjármálasviðs, og gerðu grein fyrir áætluðum niðurskurði fjárveitinga til háskólastigsins og tillögum fjármálanefndar háskólaráðs um viðbrögð Háskóla Íslands við niðurskurðinum. Málið var rætt ítarlega og svöruðu þeir Guðmundur og Sigurður spurningum ráðsmanna. Þá gerði Gunnlaugur Björnsson grein fyrir tillögum millifundanefndar háskólaráðs um viðbrögð við niðurskurði fjárveitinga til háskólastigsins. Í nefndinni sátu, auk Gunnlaugs, þau Gunnar Einarsson, Hilmar B. Janusson og Sigríður Ólafsdóttir og með henni störfuðu þeir Guðmundur R. Jónsson og Sigurður J. Hafsteinsson. Málið var rætt ítarlega. Að umræðu lokinni bar rektor upp tillögu um að farið verði þess á leit við stjórnvöld að Háskóla Íslands verði veitt heimild til að hækka árlegt skrásetningargjald stúdenta upp í allt að 65.000 kr. Jafnframt verði tryggt að hækkunin renni óskert til Háskólans. Þá verði athugað hvort skrásetningargjaldið geti orðið lánshæft.
- Samþykkt samhljóða, en fulltrúar stúdenta sátu hjá.

Næst bar rektor upp tillögu um að fjármálanefnd verði falið að vinna áfram að tillögum sínum um viðbrögð við niðurskurði fjárveitinga árið 2011. Jafnframt verði að tillögu millifundanefndar háskólaráðs skipaður starfshópur til að gera tillögur um útfærslu liða 6a og d í tillögum millifundanefndarinnar. Starfshópurinn hafi samráð við fjármálanefnd og fjármálastjóra. Hópurinn verði skipaður þeim Gunnlaugi Björnssyni sem leiði starfið, Sigríði Ólafsdóttur og Daða Má Kristóferssyni, dósent við Hagfræðideild. Með hópnum starfi Sæunn Stefánsdóttir, sérfræðingur á rektorsskrifstofu. Hópurinn skili tillögum sínum eigi síðar en 1. nóvember 2010.
- Samþykkt einróma.

Loks samþykkti háskólaráð einróma að fela rektor að fylgja eftir þeim meginlínum sem fram koma í tillögum fjármálanefndar og millifundanefndar.

1.2    Fjárhagsstaða Háskólans 2010, yfirlit eftir fjóra mánuði.
Sigurður J. Hafsteinsson gerði grein fyrir málinu.

1.3    Stefnumótun 2011-2016. Staða mála.
Rektor gerði grein fyrir stöðu undirbúnings nýrrar stefnu Háskóla Íslands fyrir tímabilið 2011-2016. Rektor bar upp tvær tillögur varðandi stefnumótunarvinnuna: Í fyrsta lagi verði tillögum millifundanefndar háskólaráðs um málefni nýsköpunar, sbr. fund ráðsins 6. maí sl., beint inn í stefnumótunarvinnuna. Jafnframt verði unnið að því á næstu mánuðum að efla og samhæfa þau stoðkerfi sem fyrir eru í Háskóla Íslands ásamt því að skoða betur samstarfsfleti við ytri aðila. Í öðru lagi verði rektor falið að skipa alþjóðlega ráðgjafanefnd sem verði til ráðgjafar vegna stefnumótunar og málefna er varða framlag Háskólans til samfélagsins.
- Samþykkt einróma.

1.4    Ályktanir háskólaþings 7. maí 2010.
Rektor gerði grein fyrir málinu.
- Háskólaráð staðfestir ályktanir háskólaþings sem haldið var 7. maí sl.

1.5    Verklagsreglur um greiðslur fyrir aukastörf, sbr. síðasta fund.
Inn á fundinn komu þau Þórður Kristinsson, sviðsstjóri kennslusviðs, og Ingibjörg Halldórsdóttir, lögfræðingur Háskólans, og gerðu ásamt Guðmundi R. Jónssyni grein fyrir málinu. Málið var rætt og svöruðu þau spurningum ráðsmanna. Sigríður Ólafsdóttir bar upp tillögu um að við framlögð drög að verklagsreglum bætist endurskoðunarákvæði.
- Samþykkt einróma.

1.6    Setning verklagsreglna um öryggismál.
Þórður Kristinsson og Ingibjörg Halldórsdóttir gerðu grein fyrir málinu. Rektor bar upp svohljóðandi tillögu að bókun: „Háskólaráð leggur til að samhliða gerð öryggishandbókar fyrir Háskóla Íslands verði unnið að forkröfum um þekkingu á öryggismálum og undirbúin námskeið fyrir nemendur og starfsmenn sem vinna sérhæfð áhættusöm störf sem allir verði að sækja áður en þeir hefja störf við slíkar aðstæður. Háskólaráð felur öryggisnefnd Háskólans að vinna að framangreindu í samstarfi við Þórð Kristinsson, sviðsstjóra kennslusviðs, og Ingibjörgu Halldórsdóttur, lögfræðing Háskólans.“
- Samþykkt einróma.

1.7    Samstarf Háskóla Íslands, Landspítala og Íslenskrar erfðagreiningar.
Fyrir fundinum lágu drög að skipulagsskrá fyrir Mannerfðafræðistofnun Íslands. Rektor gerði grein fyrir málinu og var það rætt. Þórður Sverrisson bar upp breytingartillögu um að í 4. gr. verði kveðið á um að skipunartími stjórnar verði 3 ár í senn í stað 5 ára skv. drögunum.
- Samþykkt einróma svo breytt, með fyrirvara um samþykki mennta- og menningarmálaráðuneytisins.

1.8    Tilnefning fulltrúa Háskóla Íslands í háskólaráð Hólaskóla - Háskólans á Hólum til 1. janúar 2013, sbr. bréf mennta- og menningarmálaráðuneytis, dags. 25. maí 2010.
- Samþykkt einróma að fela rektor að ganga frá tilnefningu fulltrúa Háskóla Íslands í háskólaráð Hólaskóla - Háskólans á Hólum til 1. janúar 2013.

1.9    Háskólasjóður H/f Eimskipafélags Íslands. Tillaga að bókun.
Inn á fundinn kom Ása Ólafsdóttir, formaður stjórnar Styrktarsjóða Háskóla Íslands, og gerði ásamt rektor grein fyrir málinu. Málið var rætt og svaraði Ása spurningum ráðsmanna. Rektor lagði fram eftirfarandi tillögu að bókun:
„Háskólaráðsfundur, haldinn 3. júní 2010, vísar til bréfa háskólarektors til sýslumannsins á Sauðárkróki, dagsettra 27. mars 2009 og 29. maí 2009, þar sem lagðar eru til breytingar á skipulagsskrá Háskólasjóðs H/f Eimskipafélags Íslands. Háskólaráð tekur undir tillögur rektors og samþykkir fyrir sitt leyti að taka að sér að kjósa stjórn sjóðsins, þar af formann sérstaklega, eins og rektor hefur lagt til. Háskólaráð leggur áherslu á mikilvægi þess að Háskólasjóðnum verði sem fyrst skipuð starfhæf stjórn, enda um brýna hagsmuni háskólasamfélagsins alls að ræða.“
- Samþykkt einróma.

2.    Erindi til háskólaráðs

2.1    Tillögur að breytingu á reglum og að nýjum reglum í kjölfar gildistöku nýrra laga, sameiginlegra reglna og breytts skipulags Háskóla Íslands.
I. Stofnanir
a)    Reglur um Stofnun Sæmundar fróða [verði vistuð hjá Verkfræði- og náttúruvísindasviði].
b)    Reglur um Alþjóðamálastofnun [verði vistuð hjá Félagsvísindasviði].
c)    Rannsóknastofnun í kvenna- og kynjafræðum [reglur falla úr gildi, fer undir Hugvísindasvið].
d)    Reglur um Hagfræðistofnun Háskóla Íslands.
e)    Reglur um Viðskiptafræðistofnun Háskóla Íslands.
f)     Reglur um Lagastofnun Háskóla Íslands.
g)    Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála í Háskóla Íslands.
h)    Tannlækningastofnun Háskóla Íslands.
i)     Lífeðlisfræðistofnun Háskóla Íslands.
j)     Rannsóknastofnun í hjúkrunarfræði við Háskóla Íslands og Landspítala - háskólasjúkrahús.      
k)    Rannsóknastofnun um lyfjamál við Háskóla Íslands.
l)      Lyfjafræðistofnun Íslands, sbr. reglur nr. 750/2002 [verði lögð niður].
m)   Sálfræðistofnun [ný].
Þórður Kristinsson gerði grein fyrir málinu og var það rætt.
- Framlagðar tillögur að breytingu á reglum og að nýjum reglum samþykktar einróma.

II. Sérreglur
a)    Breyting á reglum um akademískar nafnbætur.
b)    Breyting á reglum um aukastörf akademískra starfsmanna Háskóla Íslands. [Tengist dagskrárlið 1.5.]

Þórður Kristinsson gerði grein fyrir framlögðum drögum að sérreglum og voru þau rædd. Fram kom breytingartillaga um að í 5. gr. reglna um akademískar nafnbætur bætist við heimildarákvæði um að rektor geti skipað tvo menn tímabundið í dómnefnd í stað þeirra sem tilnefndir eru af Heilbrigðisvísindasviði, ef um er að ræða umsókn um akademíska nafnbót á öðru fræðasviði.
- Framlagðar tillögur að breytingu á sérreglum samþykktar einróma svo breyttar.

2.2    Stjórnir, nefndir og ráð
a)    Tillaga vísindanefndar háskólaráðs um vísindasiðanefnd Háskóla Íslands.

Þórður Kristinsson gerði grein fyrir málinu og var það rætt.
- Samþykkt einróma.

3.    Mál til fróðleiks

3.1    Umsögn háskólans um frumvarp til laga um opinbera háskóla, þingskjal 970 – 579. mál.

3.2    Eftirfylgni Ríkisendurskoðunar með skýrslunni „Kostnaður, skilvirkni og gæði háskólakennslu: Viðskiptafræði, lögfræði og tölvunarfræði“ (2007) og svar Háskóla Íslands, dags. 25. maí 2010.

3.3    Um aðgang að byggingum. Erindi stúdenta og svar við því.

Í lok fundarins þakkaði rektor f.h. Háskóla Íslands fráfarandi háskólaráði hjartanlega fyrir fórnfúst og frjótt samstarf, en nýtt háskólaráð verður skipað 1. júlí nk. Tóku fulltrúar í háskólaráði undir og þökkuðu sömuleiðis fyrir gagnlegt og ánægjulegt samstarf.

Fleira var ekki gert.
Fundi slitið kl. 15.50.